Móeiður Júníusdóttir, doktorsnemi í guðfræði, hefur hlotið styrk úr Sjóði Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli að upphæð 120.000 krónur. Um er að ræða ferðastyrk til að afla heimilda fyrir doktorsverkefnið Íslensk þjóðkirkja og trúarlíf Vestur-Íslendinga (Icelandic Church and Religious life among Icelandic Immigrants in North America). Leiðbeinandi er dr. Pétur Pétursson, prófessor við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands.
Rannsóknarverkefnið lýtur að merkri sögu íslenskrar kristni í Vesturheimi. Í forgrunni er gróskumikið trúarlíf hinna fjöldamörgu íslensku landnema sem settust að í Vesturheimi og tengsl þess við þjóðkirkju Íslendinga á mótunartíma hennar og víxlverkan þar á milli.
Verkefnið er hugsað sem samstarfs- og tengiverkefni milli Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar Háskóla Íslands og Íslenskudeildar Háskólans í Manitoba í Kanada og verður unnið við báðar deildir. Dr. Birna Bjarnadóttir, forstöðumaður Íslenskudeildarinnar, situr í doktorsnefnd.
Móeiður fer til Winnipeg í júnímánuði næstkomandi til að hefja kortlagningu gagna á íslenska bókasafninu við Manitoba-háskóla. Þar er mikill hluti gagnanna sem notuð verða við rannsóknina. Fyrirhuguð er rannsóknar- og námsdvöl við skólann á næstu misserum.
Tilgangur Sjóðs Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli er að efla tengsl milli Háskóla Íslands og Manitoba-háskóla. Veittir eru styrkir til rannsókna, náms eða annarra verkefna sem falla að tilgangi sjóðsins.Sjóðurinn er byggður á gjöf Páls Guðmundssonar frá Rjúpnafelli til Háskóla Íslands árið 1971 skv. erfðaskrá hans. Páll var fæddur 26. júní 1887. Hann var síðar bóndi í Saskatchewan í Kanada. Páll lést 11. maí árið 1966.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun skólans. Flestir styrktarsjóðir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir háskólann, stúdenta eða starfsfólk.