Háskóli Íslands

Karl Grönvold sérfræðingur við Norrænu eldfjallastöðina hlýtur 5 milljón króna styrk úr Menningar og framfarasjóði Ludvigs Storr

Karl Grönvold sérfræðingur á Norrænu eldfjallastöðinni hlýtur 5 milljón króna styrk úr Menningar- og framfarasjóði Ludvigs Storr, til efnagreininga vatns með svokallaðri Capillary Electrophoresis aðferð í sérstöku tæki, sem gerir kleift að efnagreina örsmá sýnishorn vatns, sem eru allt að milljónasti hluti úr lítra, eða sem svarar litlum regndropa.

Karl, ásamt samstarfsmanni sínum Níelsi Óskarssyni, hefur sérstakan áhuga á því að nýta rannsóknaraðferðina til að kortleggja gossögu Íslands með því að efnagreina sýnishorn úr ískjörnum frá Grænlandsjökli. Eldgos á Íslandi leysa úr læðingi ýmis efni sem berast með andrúmsloftinu og setjast í jarðveg og jökla á Grænlandi. Efnagreiningaraðferðin gerir mögulegt að lesa hvort hafi gosið og hvenær.
Með rannsóknaraðferðinni verður jafnframt hægt að efnagreina vatnsfilmur í jarðhitakerfum og fylgjast þannig með því hvernig vatn ferðast um jarðhitasvæði. Síðast en ekki síst er hægt að rannsaka efnasamsetningu vatns sem leynist í steinsteypu og getur valdið ótímabæru niðurbroti hennar og skemmdum. Þessi efnagreiningaraðferð hefur þannig einnig þýðingu í byggingariðnaði.

Norræna eldfjallastöðin, sem var stofnuð fyrir þrjátíu árum, er í eigu norrænu ráðherranefndarinnar. Þótt stofnunin sé sjálfstæð eining utan Háskóla Íslands hefur samstarf við skólann verið þétt alla tíð. Stöðin stendur að rannsóknum á afmörkuðum sviðum í samvinnu við aðra íslenska og erlenda jarðvísindamenn og nýtir einstakar aðstæður á Íslandi sem vettvang þeirra. Á hverju ári starfa fimm ungir norrænir vísindamenn við rannsóknir á stöðinni og jafnframt stendur eldfjallastöðin að sumarskóla í jarðvísindum undir leiðsögn leiðandi vísindamanna á viðkomandi fræðasviði.

Menningar- og framfarasjóður Ludvigs Storr er byggður á höfðinglegri gjöf Ludvigs Storr aðalræðismanns Dana og erfingja hans til Háskóla Íslands árið 1979. Tilgangur sjóðsins er samkvæmt skipulagsskrá að stuðla að framförum í rannsóknum á sviði jarðefnafræði, byggingariðnaðar eða skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms, svo og að veita styrki til rannsókna á hagnýtum úrlausnarefnum í þessum greinum.

Ludvig Storr var fæddur í Kaupmannahöfn 21. október 1897. Að loknu verslunarprófi starfaði hann í glerfyrirtæki foreldra sinna en árið 1922 settist hann að á Íslandi. Hann stofnaði byggingarvöruverslun ásamt glerslípun og speglagerð í Reykjavík og úr varð umsvifamikill rekstur hérlendis. Ludvig Storr lét til sín taka í félagsmálum og starfaði í ýmsum félagsskap Dana á Íslandi. Hann var aðalræðismaður Dana á Íslandi frá árinu 1956 til dauðadags 1979. Meðal áhugamála hans var endurreisn Skálholtsstaðar og eru kirkjugluggar og fleiri listmunir í kirkjunni gjöf frá fjölskyldu hans. Ekkja Ludvigs Storr er Svava Einarsdóttir Storr en einkadóttir hans frá fyrra hjónabandi, Anna Dúfa Storr, lést fyrir nokkrum árum.

Gjöf Ludvigs Storr er stærsta gjöf einstaklings til Háskóla Íslands og frá stofnun sjóðsins hefur hann úthlutað rúmum 17 milljónum króna á núvirði til ýmiss konar vísindarannsókna á sviði verkfræði og jarðfræði.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is