Háskóli Íslands

Ljósmæður í doktorsnámi hljóta styrki

Tvær ljósmæður í doktorsnámi við Háskóla Íslands fengu í dag styrki úr Minningarsjóði Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda. Úthlutað var í fyrsta skipti úr sjóðnum. Heildarupphæð styrkjanna nemur einni og hálfri milljón króna.

Styrkþegar eru ljósmæðurnar og doktorsnemarnir Berglind Hálfdánsdóttir og Sigfríður Inga Karlsdóttir.

Heiti doktorsverkefnis Berglindar er Heimafæðingar á Íslandi: Útkoma og áhrifsþættir. Markmið rannsóknarinnar er að meta hvort heimafæðing er öruggur valkostur við sjúkrahúsfæðingu á Íslandi meðal heilbrigðra kvenna í eðlilegri fæðingu. Tilgangurinn er að styðja við þróun þjónustu við heimafæðingar og auðvelda upplýst val foreldra á fæðingarstað.

Doktorsverkefni Sigfríðar heitir Væntingar og upplifun kvenna af fæðingu með áherslu á sársauka og sársaukameðferð. Markmið þess er að varpa ljósi á væntingar og reynslu kvenna af sársauka og meðferð við honum í fæðingu. Fáar rannsóknir hafa verið unnar á þessu sviði og hefur doktorsverkefnið því mikið vísindalegt gildi fyrir ljósmóðurfræði. Minningarsjóður Bjargar Magnúsdóttur ljósmóður og Magnúsar Jónassonar bónda var stofnaður við Háskóla Íslands 22. desember 2008 samkvæmt fyrirmælum í erfðaskrá Soffíu Þuríðar Magnúsdóttur. Soffía var einkadóttir og frumburður Bjargar og Magnúsar. Markmið sjóðsins er að styrkja hjúkrunarfræðinga og ljósmæður til framhaldsnáms.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is