Háskóli Íslands

Námsstyrkir til blindra og sjónskertra nemenda við Háskóla Íslands

Úthlutað var úr Þórsteinssjóði, 3. desember sl., fimm styrkjum til blindra og sjónskertra stúdenta við Háskóla Íslands en undanfarin ár hefur háskólinn lagt áherslu á að blindir og sjónskertir njóti jafnræðis á við aðra og eigi sömu möguleika til náms og þeir. Þetta er í fimmta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Kristín Ingólfsdóttir rektor afhenti styrkina við hátíðlega athöfn. Upphæð styrkjanna nemur samtals tveimur milljónum króna.

Megintilgangur Þórsteinssjóðs er að styrkja blinda og sjónskerta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar og fjölga þannig tækifærum blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna í félags- og hugvísindum sem falla að tilgangi sjóðsins

Námsstyrki í ár hljóta: Bergvin Oddsson, nemi í stjórnmálafræði, Eyþór Kamban Þrastarson, nemi í félagsfræði, Helga Theodóra Jónasdóttir, nemi í sálfræði, Inga Sæland Ástvaldsdóttir, nemi í lögfræði, og María Hauksdóttir, nemi í guðfræði. Hlýtur hver um sig 400.000 króna styrk.

Hanna Björg Sigurjónsdóttir dósent kynnti jafnframt fyrstu niðurstöður rannsóknarverkefnis sem hún vinnur að  ásamt Knúti Birgissyni, doktorsnema í fötlunarfræðum við Háskóla Íslands. Þau  hlutu styrk úr Þórsteinssjóði á síðasta ári til verkefnisins sem ber heitið „Möguleikar blinds og sjónskerts fólks til að stunda háskólanám á Íslandi“. Verkefnið miðar að því að afla þekkingar og skilnings á þeim þáttum sem ýmist stuðla að háskólanámi blindra og sjónskertra eða hindra það.

Rannsóknin er hluti af stærri rannsókn sem ber heitið „Jafnrétti til náms – Réttur og raunverleiki fatlaðra nemenda við Háskóla Íslands“. Markmið þeirrar rannsóknar er annars vegar að greina stöðu fatlaðra nemenda við Háskóla Íslands út frá íslenskum rétti, reglum sem háskólinn hefur sett sér, mannréttindasáttmálum og mannréttindaáherslum sem má finna í nýjum samningi Sþ um réttindi fatlaðs fólks. Hins vegar er ætlunin að kanna reynslu fatlaðra nemenda af námi í Háskóla Íslands, kennsluhætti, stuðningsúrræði og aðgengi að byggingum og námsefni.

Háskóli Íslands hefur á undanförnum árum bætt mjög stuðning sinn við fatlaða stúdenta. Sá stuðningur kemur einna skýrast fram gagnvart heyrnarlausum stúdentum en þeim stendur nú táknmálstúlkun til boða fyrir hverja kennslustund, auk annarrar aðstoðar. Þótt niðurstöður rannsóknarinnar liggi ekki fyrir er ljóst að talsvert hefur einnig áunnist í málefnum blindra og sjónskertra nemenda. Skönnun námsefnis er til að mynda komin í mun betra horf en áður var og niðurstöður benda til þess að viðhorf kennara og annars starfsfólks séu almennt jákvæð og að skilningur og vilji sé til frekari úrbóta. Samt sem áður vantar enn talsvert upp á að aðstæður og aðbúnaður séu fullnægjandi. Víða er manngert umhverfi illa aðgengilegt þar sem leiðarlínur vantar og öryggisþáttum er ábótavant. Nauðsynleg stuðningsúrræði, s.s. sjóntúlkun, eru ekki til staðar og aðstoðarmannakerfið að öðru leyti ekki nægilega öflugt. Kennsluhættir eru mismunandi eftir deildum og yfirleitt er ekki gert sérstaklega ráð fyrir blindum og mikið sjónskertum nemendum. Framsetning námsefnis er því misjafnflega „sjónræn“ og af þeim sökum er námsval takmarkað.

Þórsteinssjóður var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006. Sjóðurinn er jafnframt hinn fyrsti sinnar tegundar hérlendis en tilkoma hans eykur möguleika blindra og sjónskertra stúdenta til háskólanáms. Hlutverk og tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins Bjarnasonar, sem fæddist 3. desember árið 1900. Hann stofnaði Blindravinafélag Íslands 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til hjálpar fötluðu fólki á Íslandi. Þórsteinn helgaði líf sitt blindum og sjónskertum á Íslandi á síðustu öld án þess að taka nokkru sinni laun fyrir heldur lagði félaginu þvert á móti til fé úr eigin vasa.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið skólanum, allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is