Háskóli Íslands

Námsyrkir til blindra og sjónskertra nemenda við HÍ

Úthlutað var úr Þórsteinssjóði, 3. desember sl., fimm styrkjum til blindra og sjónskertra stúdenta við Háskóla Íslands. Þetta er í sjötta skipti sem úthlutað er úr sjóðnum. Upphæð styrkjanna nemur samtals tveimur milljónum króna.

Megintilgangur Þórsteinssjóðs er að styrkja blinda og sjónskerta stúdenta til náms við Háskóla Íslands. Enn fremur er sjóðnum ætlað að efla rannsóknir sem aukið geta þekkingu á blindu og skertri sýn og afleiðingum hennar og fjölga þannig tækifærum blindra og sjónskertra til að auðga og efla líf sitt. Sérstök áhersla er lögð á styrki til rannsókna sem falla að tilgangi sjóðsins í félags- og hugvísindum.

Námsstyrki í ár hljóta fimm nemendur: Ásdís Lilja Guðmundsdóttir, nemi í næringarfræði, Bergvin Oddsson, nemi í stjórnmálafræði, Inga Sæland Ástvaldsdóttir, nemi í lögfræði, María Hauksdóttir, nemi í fötlunarfræði, og Steingrímur E. Jónsson, nemi í heimspeki. Hlýtur hvert þeirra 400.000 króna styrk.
Undanfarin ár hefur Háskóli Íslands lagt áherslu á að blindir og sjónskertir nemendur, sem og aðrir fatlaðireinstaklingar njóti jafnræðis á við aðra og eigi sömu möguleika til náms. Til að ná því markmiði er nú unnið að nýrri jafnréttisstefnu við háskólann.

Við úthlutunina kynnti Alma Ýr Ingólfsdóttir, lögfræðingur og verkefnisstjóri við Rannsóknasetur í fötlunarfræðum, fyrstu niðurstöður rannsóknar, sem verið er að vinna við Háskóla Íslands undir stjórn Hönnu Bjargar Sigurjónsdóttur, dósents í fötlunarfræðum. Rannsóknin ber heitið Möguleikar blinds og sjónskerts fólks til að stunda háskólanám á Íslandi og er henni ætlað að afla þekkingar og skilnings á þeim þáttum sem ýmist stuðla að háskólanámi eða hindra það. Blindir og sjónskertir nemendur eru fjölbreyttur hópur og því er mikill munur á aðstæðum þeirra, úrræðum og stuðningi. Mikil breyting hefur orðið til batnaðar á undanförnum árum, sem má rekja til tilkomu Þjónustu- og þekkingarmiðstöðvar fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda einstaklinga, aukinnar þjónustu Náms- og starfsráðgjafar Háskóla Íslands og tækniframfara. Undanfarin ár hefur blindum og sjónskertum nemendum fjölgað mikið við háskólann og er það jákvæð og ánægjuleg þróun. Því er mikilvægt að tryggja aðgengi að námi, góða kennsluhætti, stuðningsnet sem veitir sérúrræði og aðstoð sem sniðin er að hverjum og einum, ásamt því að hlustað sé og tillit tekið til persónulegrar reynslu og þarfa hvers einstaklings fyrir sig.

Þórsteinssjóður var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006. Sjóðurinn er jafnframt hinn fyrsti sinnar tegundar hérlendis en tilkoma hans eykur möguleika blindra og sjónskertra stúdenta til háskólanáms. Hlutverk og tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins Bjarnasonar, sem fæddist 3. desember árið 1900. Hann stofnaði Blindravinafélag Íslands 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til hjálpar fötluðu fólki á Íslandi. Þórsteinn helgaði líf sitt blindum og sjónskertum á Íslandi á síðustu öld án þess að taka nokkru sinni laun fyrir heldur lagði félaginu þvert á móti til fé úr eigin vasa.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið skólanum, allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is