Auður Aðalsteinsdóttir, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild
Hugmyndin um að skrifa um ritdóma í fjölmiðlum kviknaði þegar ég skrifaði MA-ritgerð um viðbrögð við verkum Ólafar frá Hlöðum. Til samanburðar kannaði ég viðtökur við verkum karlskálda á sama tíma og áttaði mig þá á því að á bak við lágu oft mun víðtækari ritdeilur sem snerust ekki bara um einstök verk heldur einnig um pólitík, persónulegar væringar og fagurfræðilegar stefnur. Þarna rann upp fyrir mér að átökin á sviði bókmenntagagnrýninnar eru sérlega spennandi viðfangsefni," segir Auður Aðalsteinsdóttir sem vinnur að doktorsverkefni um bókmenntagagnrýni í íslenskum fjölmiðlum.
Aðspurð um tilgang rannsóknarinnar segir Auður að ritdómarar kvarti gjarnan undan starfi sínu og ekki að ástæðulausu. „Þeir stíga nánast inn á jarðsprengjusvæði er þeir setjast í dómarasætið því hagsmunirnir sem eru í húfi eru miklir. Ég beini sjónum að eðli átakanna sem fara fram á vettvangi ritdómanna."
Ritdómurum er oft líkt við miðla eða tengiliði milli höfunda eða verka, lesenda og fræða.
„Ritdómari á fjölmiðli sameinar svið sem teljast oft andstæð og ósamrýmanleg eins og hið opinbera og hið persónulega, afþreyingu og fræði, hið huglæga og hið hlutlæga. Starf ritdómarans einkennist af innri þversögnum og mín kenning er sú að þetta skýri hið mikla vald sem hann er talinn hafa og jafnframt hversu auðvelt er að grafa undan valdi hans. Íslenskir ritdómar hafa hingað til ekki verið kannaðir sem bókmenntagrein á skipulegan hátt og er saga þeirra, eðli og einkenni nær ókannað svæði. Ég vonast til að rannsókn mín geti verið fyrsta skrefið í átt til frekari rannsókna á þessu merkilega fyrirbæri," segir Auður Aðalsteinsdóttir.
Leiðbeinandi: Ástráður Eysteinsson, forseti Hugvísindasviðs.
Auður hlaut doktorsnemastyrk úr Rannsóknasjóði 2007.