Tuttugu og fjórum vísindastyrkjum var úthlutað úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands í Hátíðasal háskólans í dag. Styrkirnir nema samanlagt um 160 milljónum króna.
Styrkirnir renna til rannsóknartengdra verkefna á ólíkum sviðum, m.a. stjörnufræði, lögfræði, mannfræði, læknisfræði, matvæla- og næringarfræði, sagnfræði, íslensku, sálfræði, hjúkrunarfræði, uppeldis- og menntunarfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, jarðfræði, bókmenntafræði, eðlisfræði og líffræði.
Átta doktorsnemar hljóta styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og 16 styrkhafar úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Tólf styrkþeganna úr Rannsóknasjóði eru doktorsnemar við Háskóla Íslands og fjórir styrkþegar eru vísindamenn sem nýta munu styrkina til að ráða til sín doktorsnema. Þess má geta að tíu af styrkþegunum 24 koma erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands, m.a. frá Asíu, Afríku og Norður-Ameríku.
Þetta er í sjötta sinn sem úthlutað er úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands en á aldarafmæli Háskóla Íslands í fyrra var úthlutað um eitt hundrað milljónum króna úr sjóðnum. Sjóðurinn er í umsjá Landsbankans.
Úthlutað er úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til doktorsnema og leiðbeinenda þeirra í sjötta sinn en sjóðurinn hefur lagt sérstaka áherslu á eflingu doktorsnáms við skólann í samræmi við stefnu Háskólans.
Myndir frá athöfninni í Aðalbyggingu Háskóla Íslands má nálgast á ljósmyndagalleríi skólans.
Nánari upplýsingar um verkefnin sem fengu styrk í dag er að finna á vef Háskóla Íslands.
Um Háskólasjóð H/f Eimskipafélags Íslands
Háskólasjóður H/f Eimskipafélags Íslands var settur á laggirnar af Vestur-Íslendingum árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Hann var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands.
Fyrsta úthlutun úr sjóðnum í núverandi mynd fór fram árið 2006 og síðan hafa rúmlega 80 doktorsnemar á sviðum raunvísinda, hugvísinda, heilbrigðisvísinda, menntavísinda og félagsvísinda stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.
Í úthlutunarreglum sjóðsins segir að um styrki geti sótt stúdentar sem uppfylla inntökuskilyrði viðkomandi deildar í doktorsnám og fastráðnir kennarar eða sérfræðingar við Háskóla Íslands sem ráðnir eru á grundvelli hæfnisdóms og uppfylla kröfur sem gerðar eru til leiðbeinenda um formleg viðmið og kröfur um gæði doktorsnáms við Háskóla Íslands.
Stjórn Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands skipa Gunnar Helgi Hálfdanarson, formaður bankaráðs Landsbankans, Steinþór Pálsson bankastjóri og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
Um Rannsóknasjóð Háskóla Íslands
Rannsóknasjóður Háskóla Íslands var stofnaður árið 1982 í þeim tilgangi að efla rannsóknastarfsemi við háskólann. Úr sjóðnum er úthlutað styrkjum til starfsmanna skólans, nýdoktora og doktorsnema auk ferðastyrkja til stúdenta í rannsóknanámi.
Stjórn sjóðsins er í höndum vísindanefndar háskólaráðs og er formaður nefndarinnar jafnframt formaður stjórnar sjóðsins. Stjórnin ákveður vinnureglur sem beitt er við úthlutun. Vísindanefnd háskólaráðs skipa Guðrún Marteinsdóttir, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, formaður, Ármann Jakobsson, prófessor á Hugvísindasviði, Gylfi Magnússon, dósent á Félagsvísindasviði, Snorri Þór Sigurðsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Steinunn Gestsdóttir, dósent á Menntavísindasviði, Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði og Erna Kristín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði sem er fulltrúi stúdenta.