Háskóli Íslands

Nærri 30 fá doktorsstyrki við Háskóla Íslands

Tæplega 260 milljónum króna var í dag úthlutað úr rannsóknasjóðum við Háskóla Íslands.  Styrkirnir renna til 29 doktorsnema og vísindamanna við háskólann og verða þeir nýttir til rannsókna á fjölbreyttum fræðasviðum innan skólans. 
 
Styrkirnir eru m.a. veittir til rannsóknaverkefna í læknisfræði, félagsfræði, mannfræði, næringarfræði, félagsráðgjöf, sagnfræði, líffræði, íslenskri málfræði, sálfræði, íþrótta- og heilsufræði, iðnaðarverkfræði, heimspeki, uppeldis- og menntunarfræði, stærðfræði, landfræði, bókmenntafræði, eðlisfræði, umhverfis- og byggingarverkfræði og  tölvunarfræði.  
 
Átta doktorsnemar hljóta styrk úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands en 19 fengu styrk úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands, þrettán doktorsnemar og sex vísindamenn sem nýta munu styrkina til að ráða til sín doktorsnema. Þá hljóta tveir vísindamenn styrki frá Isavia til rannsókna sem tengjast flugstarfsemi. Af styrkþegunum 29 koma átta erlendis frá til doktorsnáms við Háskóla Íslands.
 
Nærri 150 umsóknir um styrki til doktorsnáms bárust Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands að þessu sinni og því hlaut tæplega fimmtungur umsækjenda styrk. Markmið beggja sjóða er að efla háskólann sem alþjóðlegan rannsóknaháskóla. 
 
Þetta er í áttunda sinn sem úthlutað er úr Háskólasjóði H/f Eimskipafélags Íslands en sjóðurinn er í umsjá Landsbankans.  Úthlutað er úr Rannsóknasjóði Háskóla Íslands til doktorsnema og leiðbeinenda þeirra í sjöunda sinn en sjóðurinn hefur lagt sérstaka áherslu á að efla doktorsnám í samræmi við stefnu háskólans. 
 
Uppbygging doktorsnámsins hefur átt ríkan þátt í þeirri velgengni sem Háskóli Íslands nýtur á alþjóðavettvangi en skólinn hefur verið í hópi 300 bestu háskóla heims, samkvæmt matslista Times Higher Education World University Rankings, undanfarin þrjú ár. Öflugur rannsóknaháskóli er frumskilyrði þess að Íslendingar séu samkeppnisfærir á vettvangi vísinda, nýsköpunar og atvinnuþróunar í alþjóðlegu þekkingarsamfélagi.
 
 
Um Háskólasjóð H/f Eimskipafélags Íslands
Vestur-Íslendingar stofnuðu Háskólasjóð H/f Eimskipafélags Íslands árið 1964 þegar þeir lögðu til hans hlutabréfaeign sína í Eimskipafélaginu. Sjóðurinn var stofnaður til minningar um Vestur-Íslendinga og til að styðja við stúdenta í rannsóknartengdu námi við Háskóla Íslands.
 
Fyrsta úthlutun úr sjóðnum í núverandi mynd fór fram árið 2006 og hafa rúmlega hundrað doktorsnemar á sviðum verkfræði- og raunvísinda, hugvísinda, heilbrigðisvísinda, menntavísinda og félagsvísinda stundað rannsóknir og nám við Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.  
 
Stjórn Háskólasjóðs H/f Eimskipafélags Íslands skipa Tryggvi Pálsson, formaður bankaráðs Landsbankans, Steinþór Pálsson bankastjóri, Gylfi Sigfússon, forstjóri Eimskipafélags Íslands og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.
 
Um Rannsóknasjóð Háskóla Íslands
Rannsóknasjóður Háskóla Íslands var stofnaður árið 1982 í þeim tilgangi að efla rannsóknastarfsemi við háskólann. Úr sjóðnum er úthlutað styrkjum til starfsmanna skólans, nýdoktora og doktorsnema auk ferðastyrkja til stúdenta í rannsóknanámi.
 
Vísindanefnd háskólaráðs fer með stjórn sjóðsins og er formaður nefndarinnar jafnframt formaður stjórnar sjóðsins. Vísindanefnd skipa þau Ármann Jakobsson, prófessor á Hugvísindasviði sem er jafnframt formaður, Irma Erlingsdóttir, dósent á Hugvísindasviði, Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor á Félagsvísindasviði, Oddur Ingólfsson, prófessor á Verkfræði- og náttúruvísindasviði, Sigurbjörn Árni Arngrímsson, prófessor á Menntavísindasviði, Þórdís Kristmundsdóttir, prófessor á Heilbrigðisvísindasviði, og Erna Kristín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði sem er fulltrúi stúdenta.
 
Styrkir frá Isavia
Til viðbótar við almenna styrki er úthlutað tveimur styrkjum sem bundnir eru sérstökum viðfangsefnum. Styrkirnir eru gjafir til Háskóla Íslands frá fyrirtækinu Isavia ohf. Fyrirtækið lagði 25 milljónir króna í sjóð árið 2012 sem nýttur verður til þess að styrkja stúdenta til vinnu við lokaverkefni í framhaldsnámi sem tengjast flugi og flugtengdri starfsemi. Þetta er í annað sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is