Fimm nemendur og háskólakennari fengu styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í dag. Styrkirnir nýtast til náms og rannsókna annaðhvort á Íslandi eða í Japan og hafa það að markmiði að efla tengsl íslensks og japansks fræðasamfélags. Heildarupphæð styrkjanna nemur nærri sjö milljónum króna.
Tveir Íslendingar í grunnnámi við Háskóla Íslands hljóta styrk til sex mánaða dvalar í Japan. Það eru þeir Erlingur Þór Pétursson og Brynjólfur Magnús Brynjólfsson.
Erlingur er BA-nemi í japönsku við Háskóla Íslands og hyggst nema japönsku við Kwansei Gakuin University næsta vetur. Í framhaldinu stefnir Erlingur á meistaranám í japönsku með það fyrir augum að þýða síðar meir ýmiss konar japanskt efni á íslensku og gera það þannig aðgengilegt yngri kynslóðum á Íslandi.
Brynjólfur hefur einnig lagt stund á japönsku við Háskóla Íslands undanfarin tvö ár og hyggst ljúka BA-prófi næsta vor. Lokaárið í náminu mun hann taka í International Christian University í Japan með það að markmiði að ná enn betri tökum á japönsku og búa sig undir meistaranám í alþjóðasamskiptum eða japönsku máli og menningu í Japan.
Þá hlýtur Shohei Watanabe, BA-nemi í skapandi skrifum við Waseda-háskólann í Japan, styrk til hálfs árs námsdvalar á Íslandi þar sem hann hyggst leggja stund á íslensku sem annað mál við Háskóla Íslands. Shohei hefur áður hlotið styrk úr Watanabe-styrktarsjóðnum en hann nam íslensku við Háskóla Íslands veturinn 2012-2013. Segja má að áhugi hans á verkum Halldórs Kiljans Laxness hafi dregið hann til landsins en hann komst fyrst í kynni við Nóbelsskáldið þegar hann rakst á japanska þýðingu á bókinni Kristnihald undir Jökli á bókasafni Waseda-háskóla. Shohei, sem jafnframt er ljóðskáld, hyggst í lokaverkefni sínu fást við verk Halldórs Laxness en hann vonast einnig til þess að íslenskunámið geri honum kleift að þýða og kynna íslenskan skáldskap í Japan.
Auk þess hlýtur Vincent Jean Paul Bernard Drouin, doktorsnemi í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, styrk til fjögurra mánaða námsdvalar við Hokkaido-háskóla í Japan. Þar hyggst hann vinna að rannsóknum sínum og vonast hann til að dvölin muni stuðla að auknu samstarfi milli íslenskra og japanskra jarðvísindamanna.
Enn fremur fær Yumi Ishimoto, MS í geimverkfræði frá Tohoku-háskóla í Japan, styrk til þess að stunda nám í umhverfis- og auðlindafræði við Háskóla Íslands með sérstakri áherslu á nýtingu jarðvarma. Með námi sínu við Háskóla Íslands vonast Yumi til þess að geta lagt sitt af mörkum við aukna nýtingu jarðvarma í Japan en þar í landi leita menn nýrra orkugjafa í stað kjarnorku eftir jarðskjálftann mikla 2011.
Að lokum hlýtur Ana Maria Cruz Naranja, prófessor við Kyoto-háskóla í Japan, styrk úr sjóðnum til að ferðast til Íslands. Ana Maria, sem er sérfræðingur í hamfarafræðum, hyggst í heimsókn sinni leita samstarfs við íslenska vísindamenn sem sinna hamfararannsóknum, til að mynda í jarðskjálftafræði, auk þess sem hún hyggst kynna Alþjóðasamtök um samhæfða áhættustýringu vegna hamfara sem starfa í Japan. Ana Maria telur að aukið samstarf milli Íslands og Japans gæti skilað verðmætum rannsóknarniðurstöðum og hyggst hún m.a. heimsækja Jarðskjálftamiðstöð Háskóla Íslands á Selfossi og ráðleggja íslenskum vísindamönnum um rannsóknarsamvinnu í Japan.
Tilgangur Watanabe-styrktarsjóðsins er að veita bæði nemendum í grunn- og framhaldsnámi styrki til skiptináms í Japan og á Íslandi og að stuðla að kennaraskiptum milli landanna. Stofnframlag sjóðsins nemur þremur milljónum Bandaríkjadala, sem samsvarar 340 milljónum íslenskra króna.
Um Watanabe-styrktarsjóðinn við Háskóla Íslands
Watanabe-styrktarsjóðurinn var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2008 og hefur það markmið að styrkja gagnkvæm fræðileg tengsl Íslands og Japans. Sjóðurinn veitir íslenskum stúdentum og vísindamönnum einstakt tækifæri til að nema og starfa í japönsku háskólasamfélagi og það sama gildir um japanska stúdenta og vísindamenn sem eiga þess kost að koma til Íslands.
Toshizo Watanabe, sem lagði fram stofnfé sjóðsins, er frumkvöðull og stofnandi Nikken-fyrirtækisins sem hefur höfuðstöðvar í Bandaríkjunum. Á yngri árum var hann skiptinemi við Brandeis-háskólann í Waltham í Massachusettes í Bandaríkjunum og kynntist þar Geir H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Watanabe fékk styrk til námsferðarinnar í Bandaríkjunum og var ævinlega þakklátur þeim sem studdu hann til náms. Við undirritun stofnskrár sjóðsins sagðist Watanabe vilja endurgjalda aðstoðina með því að setja sjálfur á fót sjóð til að styrkja ungt fólk til náms erlendis. Hann hafði því samband við Geir H. Haarde, hinn gamla skólabróður sinn, með það í huga að stofna sjóð við íslenskan háskóla.
Toshizo Watanabe átti ekki heimangengt við athöfnina í dag en Geir H. Haarde var viðstaddur styrkveitinguna.
Í stjórn Watanabe-styrktarsjóðsins sitja auk Toshizo Watanabe þeir Már Másson, prófessor í lyfjaefnafræði við Háskóla Íslands, og Ingimundur Sigfússon, cand.jur. og fyrrverandi sendiherra í Japan.