Háskóli Íslands

Styrkir til útgáfu fræðirita

Veittur hefur verið styrkur að upphæð 1,6 milljón króna úr Styrktarsjóði Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur til að standa straum af útgáfu tímaritsins „Milli mála“ og bókarinnar „Latína er list mæt“.

„Milli mála – Tímarit um erlend tungumál og menningu“ er gefið út af Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum við Háskóla Íslands og Háskólaútgáfunni. Tímaritið birtir fræðigreinar og annað efni á sviði erlendra tungumála, bókmennta, málvísinda og menntunarfræði en einnig eru birtar stuttar þýðingar og ritdómar. Höfundum gefst kostur á að skrifa á móðurmáli sínu eða á því tungumáli, sem þeir hafa sérhæft sig í. Allar fræðigreinar sem birtast í „Milli mála“ fara gegnum nafnlausa ritrýni. Frá og með árinu 2014 mun tímaritið vera gefið út á rafrænu formi. Ritstjórar þess eru Ásdís R. Magnúsdóttir og Rebekka Þráinsdóttir.

„Latína er list mæt“ hefur að geyma fræðilegar greinar sem Sigurður Pétursson, lektor í grísku og latínu við Háskóla Íslands, hefur skrifað á ferli sínum um klassísk áhrif í íslenskum bókmenntum og um latínumenntir á Íslandi á árabilinu 1550-1800. Í bókinni er fjallað um fjölda latneskra kvæða eftir íslenska höfunda og allnokkur kvæði birt í tvímála útgáfum ásamt umfjöllun og skýringum. Ritstjóri bókarinnar er Hjalti Snær Ægisson.

Styrktarsjóður Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur var stofnaður árið 2013. Hlutverk hans er að renna styrkum stoðum undir starfsemi Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur og stuðla að vexti og viðgangi stofnunarinnar. Þetta er í þriðja sinn sem Styrktarsjóðurinn úthlutar styrki til útgáfu á vegum stofnunarinnar.

Stjórnarformaður Styrktarsjóðsins er Frú Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, en aðrir sem eiga sæti í stjórn hans eru Ásmundur Stefánsson, fv. bankastjóri, Hrönn Greipsdóttir, forstöðumaður Faktoring, Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, stjórnarformaður og forstöðumaður Hannesarholts, Salvör Jónsdóttir skipulagsfræðingur, Sigurður Helgason, stjórnarformaður Icelandair, Vésteinn Ólason prófessor og Þórður Sverrisson, fv. forstjóri Nýherja.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is