Níu styrkir voru nýverið veittir úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur til eflingar íslenskri tungu. Þeir renna til fræðimanna og nemenda við Háskóla Íslands sem vinna að rannsóknum og verkefnum sem snúa að stöðu íslenskrar tungu í samtímanum þar sem tækniumhverfi er síbreytilegt. Þetta er í þriðja skipti sem úthlutað er úr sjóðnum og nemur heildar¬upphæð styrkjanna er 12,3 milljónum króna.
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur var stofnaður við Háskóla Íslands árið 2013 til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Meginmarkmið sjóðsins er að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða.
Bjarni Benedikt Björnsson, íslenskukennari við Sorbonne-háskóla í París og doktorsnemi við Menntavísindasvið, fékk styrk til að vinna að gagnagrunninum KLAKA fyrir erlenda nemendur. Gagnagrunnurinn er öflugt kennslu- og námstæki sem stuðlar að eflingu íslenskrar tungu, auðveldar aðgengi nemenda að grunnorðaforða og beygingum og gerir þeim kleift að auka ritfærni sína og skilning á íslensku málkerfi. KLAKI geymir grunnorðaforða í íslensku máli og tengingu við orðaforða algengra kennslubóka í íslensku sem erlendu/öðru máli. Hann hefur verið í vinnslu frá hausti 2013 og geymir nú um 3500 íslensk orð. Stækkun KLAKA er nú hafin þar sem orðaforði hins vinsæla vefkennsluefnis Icelandic Online verður skráður inn. Sömuleiðis verður útbúin almenn gerð gagnagrunnsins sem nýtist öllum nemendum í íslensku sem öðru/erlendu máli auk nemenda í málfræði og málvísindum, jafnt við Háskóla Íslands sem aðra háskóla.
Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild, hlaut styrk fyrir verkefni sem snýr að kennslu í málnotkun. Verkefnið felst annars vegar í því að hanna og útbúa opið vefnámskeið um málfar, málnotkun og ritun og er það ætlað háskólanemum. Teknir verða upp stuttir fyrirlestrar þar sem verður farið yfir fjöl¬mörg atriði í málnotkun sem reynslan sýnir að vefjast fyrir nemendum. Einnig verður leiðbeint um notkun ýmissa hjálpargagna á netinu og á prenti. Þá verða gerð fjölvalspróf sem nemendur geta notað til að meta hvort þeir hafa tileinkað sér námsefnið. Hins vegar felst verkefnið í því að hanna og kenna stutt námskeið um málfar, málnotkun og ritun sem sniðin verða að ein¬stökum deildum Háskólans og unnin í samráði við kennara þar. Ætlast verður til að þeir sem sækja námskeiðin hafi farið í gegnum vefnámskeiðið og þessir tímar einkum ætlaðir til að fara í ákveðin atriði sem kennarar og nemendur í viðkomandi deild telja mikilvæg.
Elín Illugadóttir, meistaranemi í hagnýtri ritstjórn og útgáfu við Íslensku- og menningardeild, hlaut styrk fyrir útgáfu ritlistar- og ritstjórnarnema. Verkefnið er tengt áfanganum Á þrykk sem kenndur er á framhaldsstigi við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði Háskóla Íslands. Markmið áfangans er að kynna fyrir ritlistar- og ritstjórnarnemum útgáfuferli bókar, allt frá prófarkalestri til umbrots. Samstarf nemanna er náið þar sem reynir á fagleg samskipti við yfirferð textanna og ritrýni þeirra. Afrakstur vinnu þeirra verður prentuð bók sem inniheldur frumsamda texta eftir ritlistarnemendurna sem eru af ýmsum toga, s.s. smásögur, ljóð og prósaljóð. Bókin mun bera heitið Í hverju ertu? og er það vísun í eina af smásögum bókarinnar.
Þuríður Jóna Jóhannsdóttir, dósent við Menntavísindasvið, hlaut styrk til vinnu við orðasafn íðorðarnefndar í menntunarfræði. Í nefndinni eru einnig Gerður G. Óskarsdóttir, sem er formaður, Ragnhildur Bjarnadóttir, Jón Ingi Hannesson og Helgi Skúli Kjartansson. Íðorðanefnd í menntunarfræði vinnur að eflingu íslenskrar tungu með það markmið að íðorð á öllum helstu sviðum fræðanna sé að finna í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar. Styrkurinn verður nýttur til að ráða starfsmann tímabundið sem undirbýr efni fyrir nefndarfundi og heldur utan um orðasafnið. Á dagskrá er að bæta við orðum um upplýsingatækni í menntun, læsi og kenningar sem eru efst á baugi.
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor við Íslensku- og menningardeild, og Guðrún Steinþórsdóttir, doktorsnemi við sömu deild, hlutu styrk fyrir verkefnið „Í heimi skáldskapar“. Það snýr að rannsókn á máli og bókmenntum. Markmiðið er að kynna fræðiefni sem lítt eða ekki hefur verið fjallað um á íslensku og þar með koma erlendum fræðihugtökum á auðskilið íslenskt mál. Jafnframt að efla skilning á lestri og viðbrögðum hins svonefnda almenna lesanda við bókmenntum með því að tefla saman eigindlegum rannsóknum og „hefðbundnum“ aðferðum úr bókmenntafræði. Niðurstaða rannsóknarinnar verður kynnt í fjórum fræðigreinum sem unnar verða af sjónarhóli hugrænna fræða.
Jón Hilmar Jónsson, prófessor emeritus á Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Bjarki Karlsson, doktorsnemi við Íslensku- og menningardeild, hlutu styrk fyrir verkefnið „Ritskyggnir – fleiryrtar orðabókareiningar í textasamhengi“. Verkefnið felst í því að búa málnotendum í hendur verkfæri til að ná fram skýrari og blæbrigðaríkari málnotkun við textaritun. Ritskyggnir hefur það hlutverk að greina orðanotkun í samfelldum texta og benda á valkosti í orðalagi, sérstaklega þegar um er að ræða svokallaðar fleiryrtar orðabókareiningar (merkingarbær orðasambönd). Ef textahöfundur vill fara að ábendingu Ritskyggnis og breyta orðalagi getur hann virkjað viðkomandi valkost á einfaldan hátt. Gögn úr Íslensku orðaneti, þar sem orðasambönd og merkingarvensl eru mjög í brennidepli, eru lögð til grundvallar greiningunni en viðbótargögn eru sótt í stafræn textasöfn, einkum Tímarit.is, með hálfsjálfvirkum innlestri sem síðan er yfirfarinn og samræmdur.
Magnús Þór Þorbergsson, doktorsnemivið Íslensku- og menningardeild, hlaut styrk fyrir verkefnið „Íslensk tunga á leiksviði í Vesturheimi“. Þar hyggst hann rannsaka hlutverk leiklistar í þróun, viðhaldi og eflingu íslenskrar tungu í Vesturheimi. Annars vegar verður horft til mikilvægi tungunnar í sögu leiklistar Vestur-Íslendinga og hins vegar spurt hvort og þá hvernig Kanadamenn af íslenskum uppruna beita íslenskri tungu á leiksviði samtímans. Í gegnum söguna hefur leiklist gegnt stóru og mikilvægu hlutverki í mótun menningarlegrar sjálfsmyndar innflytjendahópa, hvort heldur sem er til að setja á svið sögur innflytjenda, skapa og viðhalda tengingum við upprunamenningu eða efla notkun upprunamálsins. Mikilvægi leiklistar að þessu leyti er greinilegt þegar menningarsaga Vestur-Íslendinga er skoðuð. Til eru umtalsverðar rannsóknir á þróun íslensks máls í Vesturheimi en hér verður sjónum í fyrsta sinn beint að þætti leiklistar í þeirri þróun.
Þóra Másdóttir, lektor í talmeinafræði við Læknadeild, hlaut styrk til verkefnis sem snýr vinnu við málþroskapróf fyrir leikskólabörn. Ýmis teikn eru á lofti um að íslenskan eigi undir högg að sækja, einkum vegna enskra áhrifa. Rannsóknir á máltöku barna sem eiga íslensku að móðurmáli eru því mikilvægar. Mikill skortur er á íslenskum málþroskaprófum fyrir leik- og grunnskólabörn. Mikilvægt er að við athugun á málþroska barna sé notað próf sem hefur verið þróað og staðlað á þjóðtungu þeirra. Málþroskaprófinu Málfærni eldri leikskólabarna (MELB) er ætlað að kanna alhliða málþroska barna á aldrinum 4 til 6 ára sem grunur leikur á að séu með slakan málþroska miðað við jafnaldra. Höfundar eru auk Þóru Jóhanna T. Einarsdóttir og Ingibjörg Símonardóttir talmeinafræðingar. Áætlað er að stöðlun prófsins ljúki árið 2018.
Xindan Xu, meistaranemi við Íslensku- og menningardeild, hlaut styrk fyrir verkefni sem snýr að þýðingu örnefna. Í því verða nöfn á 214 hreppum á Íslandi þýdd úr íslensku á kínversku ásamt nöfnum á jöklum á Íslandi ef tími leyfir. Verkefnið er hluti stærra verkefnis þar sem nöfn á fjöllum, fjörðum, vötnum og fleiru verða þýdd á kínversku.
Nánar um styrktarsjóðinn
Tilgangur Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur helgast af fyrirmælum í erfðaskrá Áslaugar. Hún arfleiddi Háskóla Íslands að fasteigninni að Bjarkargötu 12 í Reykjavík til minningar um foreldra sína. Jafnframt ánafnaði hún Háskóla Íslands 25% af öllum bankainnstæðum og andvirði verðbréfa í sinni eigu. Stofnframlag sjóðsins nam samtals 120 milljónum króna.
Samkvæmt erfðaskránni skal nota sjóðinn til eflingar íslenskri tungu með þeim hætti sem stjórn Háskóla Íslands telur að koma muni að mestu gagni. Það skilyrði er sett að sjóðurinn verði notaður til sérverkefna á sviði íslenskra fræða eða stuðnings við þá sem leggja stund á íslensk fræði. Styrkir standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og hefur sjálfstætt starfandi stjórn. Í stjórn sjóðsins sitja Katrín Jakobsdóttir alþingismaður, sem jafnframt er formaður stjórnar, Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið.
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn háskólans. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Nánari upplýsingar um Styrktarsjóð Áslaugar Hafliðadóttur, styrkþega og aðra sjóði í vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 899-8719.