Háskóli Íslands

Styrkir veittir til rannsókna er tengjast liðskiptum og mjaðmabrotum

Tveir styrkir hafa verið veittir til rannsókna á sviði bæklunarlækninga með áherslu á stoðkerfissjúkdóma úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands. Styrkhafar eru María Sigurðardóttir, sérfræðingur í svæfinga- og gjörgæslulækningum við Landspítala, og Sigrún Sunna Skúladóttir, bráðahjúkrunarfræðingur og doktorsnemi við Matvæla- og  næringarfræðideild Háskóla Íslands.
 
Rannsókn Maríu Sigurðardóttur miðar að því að kanna áhrif langtímaundirbúnings, rannsókna og viðeigandi meðferðar fyrir sjúklinga, sem bíða eftir liðskiptum á hné eða mjöðm, á aðgerðarferil og tíðni fylgikvilla. Rannsóknin er samvinnuverkefni Landspítala og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fyrirhugað er að nýta biðtíma sjúklinga eftir aðgerð til að greina og meðhöndla þekkta áhættuþætti sem geta aukið tíðni fylgikvilla, svo sem sykursýki, vannæringu, blóðskort, offitu og reykingar, svo sjúklingarnir komist fyrr heim. Þegar hefur verið unnið með 100 sjúklingum í viðmiðunarhópi en nokkur hluti þeirra var utan þeirra viðmiðunarmarka sem æskilegt er að uppfylla fyrir aðgerð og sárafylgikvillar voru algengari en búist var við. Því ætti frekari undirbúningur fyrir aðgerð, sem nú er í boði, að gagnast hluta hópsins. Niðurstöður úr vinnu með þessum hópi styðja þær breytingar sem gerðar hafa verið á undirbúningsferli sjúklinga fyrir liðskiptaaðgerðir en stærri sjúklingahóps er þörf til að meta fyllilega árangur þess inngrips. 
 
María Sigurðardóttir svæfingalæknir er aðalrannsakandi en samstarfsmenn hennar eru Óskar Reykdalsson, Jón Steinar Jónsson, Ólöf Viktorsdóttir, Yngvi Ólafsson, Ingibjörg Gunnarsdóttir, Lilja Stefánsdóttir, Vigdís Hallgrímsdóttir, Martin Ingi Sigurðsson og Sigurbergur Kárason, yfirlæknir og dósent við Læknadeild
 
 
Rannsókn Sigrúnar S. Skúladóttur er hluti af doktorsverkefninu „Hvað einkennir mjaðmabrotahóp AGES-Reykjavíkur rannsóknar Hjartaverndar“. Markmið rannsóknarinnar er að leita nýrra áhættuþátta fyrir mjaðmabrotum aldraðra. Unnið er með gögn úr Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, AGES, sem hófst 2002 og byggist á Reykjavíkurrannsókn sem hófst 1967. Þáttakendur voru 5764 og ná gögnin í rannsókninni yfir meginævipart þeirra en gögn um mjaðmabrot ná fram til ársins 2012. Í rannsókninni er beinþéttni þeirra sem brotnað hafa notuð til að meta líkur á broti og borin saman við einstaklinga sem ekki hafa brotnað. Jafnframt er skoðað hvernig helstu þættir sem virðast hafa áhrif á mjaðmabrot skiptast niður. Skoðað er hvort styrkleiki D-vítamíngildis í blóði geti haft áhrif á beinbrot, tengsl þess við lélega beinþéttni og tengsl við aldur og kyn. Þá verða tengsl líkamsþyngdarstuðuls við hættu á mjaðmabroti metin.  
 
Samstarfsaðilar Sigrúnar eru prófessorarnir Alfons Ramel og Þórhallur I. Halldórsson og Ólöf G. Geirsdóttir dósent, öll við Matvæla- og næringarfræðideild, Milan Chang, dósent við Deild heilsueflingar, íþrótta og tómstunda, Gunnar Sigurðsson, prófessor emeritus, Ingibjörg Hjaltadóttir, dósent við Hjúkrunarfræðideild, Laufey Steingrímsdóttir, prófessor emeritus, og Vilmundur Guðnason, prófessor við Læknadeild. 
 
Um sjóðinn
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918, d. 13. júní 2006) 2003 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is