Háskóli Íslands

Verðlaun fyrir frábæran árangur í stærðfræði

Atli Fannar Franklín, nemandi í stærðfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar prófessors fyrir frábæran námsárangur. Verðlaunin nema 7.500 dollurum, jafnvirði rúmlega 900 þúsund króna.
 
Atli Fannar hefur lokið tveimur námsárum við Háskóla Íslands og stefnir á að útskrifast næsta vor með BS-próf bæði í stærðfræði og tölvunarfræði. Hann hefur þegar lokið 196 einingum á þessum námsleiðum, sem hefði nægt honum til þess að útskrifast síðastliðið vor. Atli Fannar hefur sýnt mikinn þroska og færni í stærðfræði að mati kennara sinna og lokið mörgum erfiðum stærðfræðinámskeiðum með einkunnina 10. 
 
Atli Fannar hefur á undanförnum árum tekið þátt í fjölmörgum keppnum í stærðfræði, eðlisfræði og forritun, þar á meðal stærðfræði-, eðlisfræði- og forritunarkeppnum framhaldsskólanna, Ólympíumótinu í stærðfræði og forritunarkeppni Norðvestur-Evrópu á háskólastigi. Þá hefur hann þjálfað framhaldsskólanema og háskólanema á námskeiðum í keppnisstærðfræði og -forritun og skipulagt ýmis mót, m.a. í forritunarkeppni háskólanema sem haldin hefur verið hér á landi. Keppnir af þessum toga skipta miklu máli til þess að efla áhuga framhaldsskólanema á stærðfræði, forritun og raunvísindum.
 
Um Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors
 
Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar veitir viðurkenningar til stærðfræðinema og nýútskrifaðra stærðfræðinga fyrir góðan árangur og styrkir þá til frekari afreka í námi og rannsóknum.
 
Stofnandi sjóðsins er Sigurður Helgason, prófessor í stærðfræði við MIT í Boston. Sigurður fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir árs nám við verkfræðideild Háskóla Íslands hélt Sigurður til Danmerkur og lauk Mag.Scient.-prófi í stærðfræði 1952 frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi 1954 og kenndi síðan við Tækniháskóla Massachusetts (MIT), Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla. Sigurður varð prófessor við MIT árið 1965 og eftir hann liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar um stærðfræði. Hann hefur verið heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og er heiðursfélagi Íslenska stærðfræðifélagsins.
 
Styrktarsjóðir á borð við Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að hvetja nemendur skólans til dáða, efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is