Háskóli Íslands

Þrjú verkefni tengd stærðfræði og skapandi kennsluháttum fá styrki

Þrjú verkefni sem snúa að skapandi kennsluháttum hljóta styrk úr Sjóði Steingríms Arasonar í ár. Styrkjum var úthlutað við hátíðlega athöfn í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands föstudaginn 4. október síðastliðinn, en þetta var í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
 
Styrkir voru veittir til sérfræðinga og nemenda í framhaldsnámi. Við mat á styrkumsóknum var sérstaklega horft til rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar og þróunarverkefna sem efla fræðilegt framlag til menntunar- og kennslufræða, samkvæmt stofnskrá sjóðsins. Samanlögð styrkfjárhæð var ein milljón króna.
 
Styrkþegar og verkefni þeirra eru:
 
Jóhann Örn Sigurjónsson, doktorsnemi í menntavísindum við Háskóla Íslands, hlýtur styrk til að greina gæði stærðfræðikennslu á Íslandi og hvaða áhrif mismunandi kennsluhættir hafa á þátttöku nemenda. Rannsóknin er unnin í samstarfi við norrænt öndvegissetur um gæði kennslu á Norðurlöndum (QUINT). Verkefnið er hluti af doktorsrannsókn Jóhanns þar sem tilgangurinn er að greina gæði kennslu kerfisbundið með myndbandsupptökum og spurningakönnunum til nemenda. Samanburðarhæf gögn eru til staðar í hinum norrænu ríkjunum sem veitir einstakt tækifæri til að bera saman kennsluhætti milli landa. 
 
Í umsögn dómnefnar segir: „Frumleg og nýstárleg rannsóknaraðferð í íslensku samhengi. Verkefnið gagnast stórum hópi barna og kennara í skólakerfinu.“
 
Ása Helga Ragnarsdóttir, aðjunkt í kennslufræði leiklistar, Rannveig Björk Þorkelsdóttir, lektor í leiklist, og Jóna Guðrún Jónsdóttir, meistaranemi í listkennslufræðum við Háskóla Íslands, hljóta styrk til rannsóknar á börnum frá stríðshrjáðum svæðum sem flytjast til Íslands. Markmið verkefnisins er að skoða hvort aðferðir leiklistar geti hjálpað þessum hópi að takast á við áföll og hræðslu. Rannsóknin verður unnin í samvinnu við Rauða Kross Íslands sem mun velja þátttakendur.
 
Í umsögn dómnefndar segir: „Spennandi verkefni sem felur í sér stuðning við viðkvæman hóp í samfélaginu. Styrkurinn nýtist m.a. til að gera vefsíðu þar sem verkefnið verður kynnt.“
 
Ósk Dagsdóttir, doktorsnemi í menntavísindum við Háskóla Íslands, hlýtur styrk til þróunar- og rannsóknarverkefnis sem fjallar um hvernig styðja megi kennara betur til þess að efla sköpun í stærðfræðinámi. Starfsþróunarverkefnið nær yfir tvö ár og munu kennarar taka þátt í fræðslu- og vinnusmiðjum og vinna með rannsakanda að því að efla þátt sköpunar í stærðfræðikennslu.
 
Í umsögn dómnefndar segir: „Styrkurinn stuðlar að nýsköpun þekkingar á því hvernig styðja megi við skapandi stærðfræðinám og hefur gildi fyrir kennara, nemendur og rannsóknarsamfélag.“  
 
Stjórn sjóðs Steingríms Arasonar skipa Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs sem er formaður, Ársæll Már Arnarsson, prófessor og forseti Deildar heilsueflingar, íþrótta- og tómstunda, og Ingólfur Ásgeir Jóhannesson, prófessor og forseti Deildar menntunar og margbreytileika.
 
Um sjóðinn
 
Sjóður Steingríms Arasonar hét áður Columbia-sjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939. Steingrímur (1879-1951) lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Hann starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalstarf hans var við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár. 
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is