Þrjár viðurkenningar fyrir árangur á rannsóknum tengdum bólusetningum barna á Íslandi hafa verið veittar úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis. Viðurkenningarnar hljóta Samúel Sigurðsson læknir, Sigríður Júlía Quirk lífeindafræðingur og Elías Sæbjörn Eyþórsson læknir. Doktorsrannsóknir þeirra hafa allar tengst Vice-rannsókninni svokölluðu (Vaccination Study in Iceland). Verkefnin hafa þegar skilað afar áhugaverðum niðurstöðum en heildarupphæð verðlaunanna nemur 750 þúsund krónum.
Helstu niðurstöður VIce-verkefnisins, sem fjallað er um í doktorsritgerðum verðlaunahafanna, eru að árangur bólusetninga gegn pneumókokkum, skæðum bakteríum sem geta valdið ýmsum algengum sjúkdómum, er afar mikill hér á landi. Þannig hefur eyrnabólgum barna fækkað, dregið hefur úr sýklalyfjanotkun, öndunarfærasýkingum hefur fækkað umtalsvert og alvarlegum ífarandi sýkingum, eins og heilahimnubólgu og blóðeitrun. Mikilvægt er einnig að pneumókokkum sem ónæmir eru fyrir ýmsum sýklalyfjum hefur fækkað verulega og eru þeir nú sjaldgæfir á Íslandi. Rannsóknirnar leiddu einnig í ljós að mjög mikill sparnaður varð í heilbrigðiskerfinu við upptöku þessa bóluefnis.
Þetta er í tíunda skipti sem veittar eru viðurkenningar úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis en sjóðurinn hefur það markmið að verðlauna vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga.
Dr. Samúel Sigurðsson læknir hefur unnið að rannsóknum sem fjalla um áhrif bóluefnis gegn pneumókokkum í börnum. Þeir eru á meðal algengustu baktería sem valda miðeyrnabólgu og lungnabólgu og geta valdið alvarlegum ífarandi sýkingum eins og heilahimnubólgu og blóðeitrun. Bólusetning gegn algengustu, meinvirkustu og/eða sýklalyfjaónæmustu hjúpgerðum bakteríanna hófst á Íslandi árið 2011. Um 500 nefkokssýnum úr leikskólabörnum var safnað árlega á árunum 2009 til 2015. Allar komur og innlagnir barna vegna pneumókokkasýkinga á heilsugæslum og Barnaspítala Hringsins fyrir og eftir bólusetninguna voru metnar. Hlutfall bóluefnishjúpgerða hefur minnkað um 94% og hlutfall sýklalyfjaónæmra pneumókokka hefur lækkað umtalsvert. Komum vegna eyrnabólgu hefur fækkað um fjórðung á tímabilnu og komum og innlögnum vegna lungnabólgu hefur fækkað um rúmlega fimmtung. Innlögnum vegna ífarandi pneumókokka-sýkinga hefur enn fremur fækkað um 93%. Rannsóknin sýnir því að sjúkdómsbyrði pneumókokka hefur minnkað umtalsvert í íslenskum börnum frá upphafi bólusetningar árið 2011.
Samúel er fæddur á Ísafirði 25. janúar 1988. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 2007 og BS-gráðu 2013 og kandídatsprófsgráðu 2017 frá Læknadeild Háskóla Íslands. Hann varði doktorsritgerð sína við sömu deild 2018. Samúel stundar nú sérnám í augnlækningum á S:T Eriks augnspítalanum í Stokkhólmi.
Í rannsókn sinni beitti dr. Sigríður Júlía Quirk lífeindafræðingur sameindafræðilegum aðferðum til að greina af nákvæmni pneumókokka sem finnast í nefkoki heilbrigðra barna en einnig í sýnum frá sjúklingum með sýkingar af völdum bakteríunnar. Markmið rannsóknarinnar var að meta áhrif bólusetninga gegn pneumókokkum sem ræktaðir voru úr nefkoki heilbrigðra leikskólabarna eða frá sjúklingum með öndunarfærasýkingar. Niðurstöður rannsóknarinnar sýndu að heildarhlutfall þeirra sem bera pneumókokka í nefkoki barna breyttist lítið eftir bólusetninguna en sýnum frá sjúklingum með sýkingar fækkaði verulega og endurspeglar það líklega umtalsverða fækkun sýkinga. Mikilvægt er að verulegar breytingar urðu á hjúpgerðum pneumókokkanna eftir bólusetningu, bæði í nefkoki heilbrigðra barna og hjá einstaklingum með sýkingar. Þeim hjúpgerðum sem eru í bóluefninu fækkaði verulega, þ.m.t. hjúpgerðum með mikið sýklalyfjaónæmi. Í stað þeirra komu, þó í minna mæli, hjúpgerðir sem síður eru ónæmar og valda sjaldnar alvarlegum sýkingum. Einnig fækkaði sýkingum með bólusetningahjúpgerðum í eldri óbólusettum einstaklingum. Ástæða þess er vafalítið hjarðónæmi en þá njóta óbólusettir einstaklingar góðs af árangrinum. Niðurstaða rannsóknarinnar sýnir því ótvírætt mikinn árangur bóluefnisins gegn þeim hjúpgerðum sem eru í bóluefninu. Mikilvægt er að fylgjast með öðrum hjúpgerðum sem kunna að verða skaðlegar með tímanum.
Sigríður Júlía Quirk lauk BS-gráðu í lífeindafræði árið 2010 og viðbótardiplómanámi í sömu grein árið 2011, hvort tveggja frá Háskóla Íslands. Hún hóf meistaranám við sama skóla, sem var stækkað í doktorsverkefni og unnið í samvinnu við Háskólana í Oxford og Cambridge í Englandi. Sigríður Júlía varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í apríl 2019. Hún starfar nú á Sýkla- og veirufræðideild Landspítala – háskólasjúkrahúss.
Dr. Elías Sæbjörn Eyþórsson læknir hefur rannsakað áhrif bólusetninga gegn pneumókokkum á faraldsfræði sýkinga og notkun heilbrigðisþjónustu í íslensku samfélagi. Bólusetningar eru áhrifaríkasta forvörn sem nútímalæknisfræði hefur getið af sér. Þær veita bæði bólusettum einstaklingum vörn og stuðla að myndun hjarðónæmis í samfélaginu. Í doktorsverkefninu sínu kannaði Elías áhrif nýgengi sýkinga, notkun sýklalyfja, sjúkrahúsinnlagna og röraðgerða hjá börnum. Gagnagrunnar voru nýttir til að sýna fram á hjarðónæmi og fækkun sýkinga hjá óbólusettum fullorðnum og börnum sem voru of ung til að hljóta beina vernd af bólusetningunni. Nákvæmum kostnaðargögnum var einnig safnað. Niðurstöður leiddu í ljós að sparnaður vegna færri sýkinga vó upp útgjöld samfélagsins vegna kaupa á bóluefninu.
Elías Sæbjörn Eyþórsson lauk stúdentsprófi af náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík árið 2009. Hann hlaut bakkalárgráðu í læknisfræði frá Háskóla Íslands árið 2012 og lauk embættisprófi í sömu grein árið 2016. Elías varði doktorsritgerð sína við Háskóla Íslands í júní. Hann stundar sérnám í almennum lyflækningum við Landspítala – háskólasjúkrahús.
Um Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis árið 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um Óskar sem var fóstri hans. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja rannsóknir á einelti. Bent Scheving Thorsteinsson lést árið 2015 en eftirlifandi eiginkona hans er Margaret Scheving Thorsteinsson.
Óskar Þórðarson barnalæknir brautskráðist frá Læknadeild Háskóla Íslands árið 1927, lærði fæðingarhjálp í Danmörku síðar sama ár og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja og fjórða áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla, læknir barnaheimilisins Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, árið 1928.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir stúdenta eða starfsfólk Háskóla Íslands og samfélagið allt.