Háskóli Íslands

Læknanemi fær styrk til rannsóknar við Þýsku krabbameinsrannsóknastofnunina

Klara Briem, þriðja árs nemi í læknisfræði við Háskóla Íslands, hefur hlotið styrk úr Menntasjóði Læknadeildar til að vinna að rannsóknarverkefni við Þýsku krabbameinsrannsóknarstofnunina (Deutsches Krebsforschungszentrum (DKFZ)) nú á vormisseri. Styrkupphæðin er 350.000 krónur. 
 
Rannsóknarverkefni Klöru, sem nefnist „Identification of novel genetic loci for risk of multiple myeloma by functional annotation“,  verður unnið undir handleiðslu Federicos Canzian og rannsóknarteymis hans. Verkefnið snýst um að kanna hvort tengsl séu á milli erfðabreytileika og áhættu á mergæxli. Notast verður við líffræðileg sýni og gögn sem DKFZ hefur þegar safnað um erfðafræðilega áhættu á mergæxli. Klara mun vinna með nokkra áhugaverða breytileika í niturbösum sem sýna möguleg tengsl við áhættu á mergæxli. Með hliðsjón af þeim niðurstöðum verða breytileikar í erfðaefni sjúklinga með mergæxli arfðgerðargreindir og bornir saman við arfgerðir heilbrigðra einstaklinga. Að endingu verða tölfræðilegar aðferðir notaðar til að meta hvort tengsl séu á milli þessara stökkbreytinga og áhættu á að þróa með sér mergæxli. 
 
Um sjóðinn
Menntasjóður Læknadeildar var stofnaður árið 2019  og hefur það markmið að styðja nemendur í Læknadeild til náms, rannsókna eða símenntunar erlendis ásamt því að styrkja fyrirlestrahald eða fræðslustarf í læknavísindum hérlendis. Þetta er í annað sinn sem úthlutað er úr sjóðnum.
 
Sjóðurinn grundvallast á safni sjóða sem tengjast Læknadeild og læknavísindum og voru sameinaðir. Sjóðirnir eru: Legat Guðmundar Magnússonar prófessors og Katrínar Skúladóttur (1922), Minningarsjóður John McKenna Pearson (2001) og Starfssjóður Læknadeildar (1987).
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélagi.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is