Tveir nemendur í framhaldsnámi í tónlist og tveir nemendur í framhaldsnámi í viðskiptafræði erlendis fengu á dögunum styrk úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Þetta er í fimmta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum og er heildarupphæð úthlutaðra styrkja 3 milljónir króna.
Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um dr. Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. Stofnfé sjóðsins nam rúmlega sjötíu milljónum króna og frá stofnun hafa jafnframt borist gjafir í sjóðinn.
Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun og alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist. Stjórn sjóðsins skipa Karólína Eiríksdóttir, Þórður Sverrisson og Runólfur Smári Steinþórsson, sem er formaður sjóðsins.
Styrkhafar árið 2020:
Hekla Finnsdóttir fiðluleikari er meistaranemi við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn. Hún hóf fiðlunám fjögurra ára gömul hjá Lilju Hjaltadóttur í Allegro Suzuki tónlistarskólanum. Þaðan lá leiðin í Tónlistarskólann í Reykjavík þar sem Hekla stundaði nám hjá Guðnýju Guðmundsdóttur. Í framhaldinu innritaðist hún í Listaháskóla Íslands og lauk þaðan diplómugráðu undir leiðsögn Guðnýjar og Sigrúnar Eðvaldsdóttur. Haustið 2016 fékk hún inngöngu í Musikkonservatoríið í Kaupmannahöfn og lauk þaðan BA-námi vorið 2019. Hún hélt strax í meistaranám og stefnir á útskrift 2021. Hekla hefur sótt námskeið víða, bæði hljómsveitarámskeið og masterklassa. Hún hefur gegnt stöðu leiðara og konsertmeistara á námskeiðum eins og Ungsveit og Orkester Norden. Hekla er einnig einn af stofnendum og stjórnarmeðlimum Kammersveitarinnar Elju.
Ísak Einar Rúnarsson stundar meistaranám í alþjóðlegum viðskiptum (MBA) með áherslu á stefnumótun og stjórnun við Dartmouth-háskóla í New Hampshire í Bandaríkjunum. Ísak útskrifaðist með BA-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands vorið 2017 en á námstímanum sótti hann m.a. sumarnám við Stanford-háskóla. Þá gegndi hann stöðu formanns Stúdentaráðs og Vöku – Félags lýðræðissinnaðra stúdenta og starfaði um tíma sem blaðamaður á Morgunblaðinu með framnámi og sem verkefnisstjóri hjá Háskóla Íslands. Eftir útskrift starfaði Ísak sem blaðamaður á Viðskiptablaðinu og síðar hjá Viðskiptaráði Íslands þar sem hann gegndi stöðu sérfræðings á hagfræðisviði. Síðastliðið ár hefur Ísak setið í starfshópi utanríkisráðuneytisins um efnahagstækifæri á norðurslóðum. Ísak stefnir á að ljúka meistaranáminu vorið 2022.
Kolbeinn Stefánsson stundar MBA-nám við INSEAD-háskóla í Frakklandi sem er meðal fremstu viðskiptaháskóla heims. Hann brautskráðist frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands með ágætiseinkunn vorið 2017 og hlaut árið 2015 námsstyrk Íslandsbanka fyrir námsárangur í viðskiptafræði. Þriðja og síðasta námsárið sitt í viðskiptafræði sat Kolbeinn sem skiptinemi við Columbia-háskóla í New York og útskrifaðist þaðan með Advanced Business Certificate gráðu samhliða útskrift frá Háskóla Íslands. Að námi loknu hóf Kolbeinn störf við markaðsdeild fyrirtækisins Icelandic Provisions í New York þar sem hann gegndi m.a. stöðu aðstoðarmarkaðsstjóra. Kolbeinn stefnir á að ljúka meistaranáminu sumarið 2021.
Kristín Einarsdóttir Mäntylä söng frá unga aldri með kórum Langholtskirkju og fékk þar sína fyrstu söngkennslu. Hún söng með öllum kórum kirkjunnar og fór ásamt Graduale Nobili kórnum í tveggja ára tónleikaferð um heiminn með Björk Guðmundsdóttur. Hún útskrifaðist frá Verzlunarskóla Íslands árið 2011 og lauk burtfararprófi úr Söngskóla Reykjavíkur árið 2013 hjá Hörpu Harðardóttur. Kristín hóf söngnám í Tónlistarháskólanum í Leipzig ári síðar og stundar nú meistaranám í óperusöng hjá Brigitte Wohlfarth prófessor. Einnig hefur hún hlotið leiðsögn hjá Sigrúnu Hjálmtýsdóttur og Janet Haney. Kristín hefur sungið í Íslensku óperunni auk óperanna í Leipzig, Dessau og Nordhausen. Þá hefur hún farið með aðalhlutverk í nemendasýningum í Tónlistarháskólanum í Leipzig. Kristín hlaut árið 2016 verðlaunin „Junge Stimmen Leipzig“ á alþjóðlegu söngakademíunni „Schloss Hartenfells“ í Þýskalandi. Hún var árið 2018 valinn Bayreuth styrkþegi Richard Wagner félagsins í Leipzig og kemur einnig oft fram sem einsöngvari í Leipzig á vegum Yehudi Menuhin, Live Musik Now.
Ingjaldssjóður, minningarsjóður Ingjalds Hannibalssonar prófessors, er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til ávinnings fyrir starf Háskóla Íslands með styrkjum til stúdenta og starfsfólks.