Háskóli Íslands

Tónlistar- og viðskiptafræðinemar styrktir til framhaldsnáms erlendis

Fjórir nemendur í framhaldsnámi í tónlist og einn nemandi í framhaldsnámi í viðskiptafræði erlendis fengu á dögunum styrk úr Ingjaldssjóði við Háskóla Íslands. Þetta er í sjötta sinn sem úthlutað er úr sjóðnum. Í tilefni þess að 70 ár er liðin frá fæðingu Ingjalds Hannibalssonar var ákveðið að veita fimm styrki úr sjóðnum í ár og er heildarupphæð úthlutaðra styrkja 5 milljónir króna.
 
Ingjaldssjóður var stofnaður 17. nóvember 2015 til minningar um dr. Ingjald Hannibalsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Ingjaldur starfaði lengst af við Háskóla Íslands og arfleiddi hann skólann að öllum eigum sínum. Stofnfé sjóðsins nam rúmlega sjötíu milljónum króna og frá stofnun hafa jafnframt borist gjafir í sjóðinn. Samtals hafa 22 framhaldsnemar notið stuðnings sjóðsins frá upphafi og heildarupphæð styrkja numið rúmum 17 milljónum króna.
 
Samkvæmt fyrirmælum sem sett voru fram í erfðaskrá Ingjalds skal sjóðurinn styrkja efnilega íslenska námsmenn við Háskóla Íslands til framhaldsnáms erlendis í rekstrarstjórnun og alþjóðlegum viðskiptum eða nemendur í tónlist. Stjórn sjóðsins skipa Karólína Eiríksdóttir, Þórður Sverrisson og Runólfur Smári Steinþórsson, sem er formaður stjórnar sjóðsins.
 
Styrkhafar árið 2021:
 
Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir hefur vakið athygli sem einn af fremstu ungu tónlistarmönnum Íslands. Hún hefur leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit unga fólksins. Geirþrúður hefur einnig komið fram sem Unglistamaður hjá Tónlistarhátíð unga fólksins og Tónlistarakademíunni í Hörpu. Síðastliðið sumar hélt Geirþrúður í tónleikaferðalag um Ísland þar sem hún lék allar sex einleikssellósvítur J.S. Bach á tónleikum víðs vegar um landið. 
 
Geirþrúður lauk einleikaraprófi á selló frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 2013. Þaðan lá leið hennar til Bandaríkjanna þar sem hún stundaði bakkalárnám við Northwestern University og meistaranám við Juilliard-tónlistarskólann. Hún er nú Advanced diploma-nemi við Royal Academy of Music í London. Á þessu ári mun Geirþrúður koma fram sem einleikari með sinfóníuhljómsveit Royal Academy of Music. Hún heldur einnig einleikstónleika í Sacramento, Chicago og New York og mun koma fram á einleikstónleikum í Wigmore Hall og Carnegie Hall.
 
Guðjón Viðarsson stundar meistaranám í nýsköpun og fyrirtækjaþróun við Háskólann í Árósum í Danmörku. Hann útskrifaðist með BS-gráðu í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands í febrúar 2021. Guðjón gerir ráð fyrir að útskrifast úr meistaranáminu vorið 2023. Hann hefur einnig stundað nám við Myndlistaskólann í Reykjavík og á myndlistarbraut við Fjölbrautaskólann í Garðabæ en þaðan lauk hann stúdentsprófi vorið 2017. 
 
Undanfarin ár hefur Guðjón unnið með námi sínu við HÍ, bæði við kennslu á leikskóla- og grunnskólastigi í Urriðaholtsskóla og á skrifstofu Toyota á Íslandi. 
 
Herdís Mjöll Guðmundsdóttir er meistaranemi við Yale School of Music í Bandaríkjunum þar sem hún lærir undir handleiðslu sólóistans Augustins Hadelich. Hún hóf tónlistarnám sitt á fiðlu þegar hún var fimm ára gömul í Allegro Suzuki skólanum þar sem kennari hennar var Lilja Hjaltadóttir. Þaðan lá leið hennar í Tónlistarskóla Reykjavíkur þar sem hún lærði hjá Guðnýju Guðmundsdóttur. Herdís lauk diplómugráðu frá Listaháskóla Íslands undir leiðsögn Guðnýjar og Sigrúnar Eðvaldsdóttur árið 2017 og í framhaldinu bakkalárgráðu frá Oberlin Conservatory í Bandaríkjunum með Sigurbirni Bernharðssyni vorið 2021. 
 
Herdís hefur komið fram sem einleikari og sigrað í keppnum á Íslandi og Bandaríkjunum. Hún var einn af sigurvegurum í einleikarakeppni Listaháskólans og Sinfóníuhljómsveitar Íslands árið 2016. Þá vann hún konsertkeppni Oberlin Conservatory árið 2020 og mun koma fram með hljómsveit skólans eftir heimsfaraldurinn. Herdís hefur vakið athygli á sviði nútímatónlistar og nýtur þess að vinna með núlifandi tónskáldum að því að veita nýjum tónverkum líf.
 
Kristín Ýr Jónsdóttir lauk bakkalárgráðu með hæstu einkunn frá Konunglega tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn í vor og stundar nú meistaranám við sama skóla þar sem kennarar hennar eru Ulla Miilmann og Dóra Seres. Hún hóf þverflautunám átta ára gömul hjá Guido Baumer í Lúðrasveit Miðbæjar og Vesturbæjar en færði sig seinna yfir í Tónlistarskólann í Reykjavík. Þar lærði hún undir handleiðslu Áshildar Haraldsdóttur og lauk burtfararprófi þaðan vorið 2018 samhliða útskrift úr Verzlunarskóla Íslands. 
 
Kristín hefur komið fram sem einleikari með Sinfóníuhljómsveit Íslands, tekið þátt í og unnið til verðlauna í alþjóðlegum tónlistarkeppnum og kemur reglulega fram sem aukamaður með sinfóníuhljómsveitum, bæði á Íslandi og í Danmörku. 
 
Þorkell Nordal er fæddur í Reykjavík og hóf ungur tónlistarnám. Hann nam klassískan gítarleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og var um langt skeið meðlimur Hamrahlíðarkórsins þar sem hann naut handleiðslu Þorgerðar Ingólfsdóttur. Þorkell lærði tónsmíðar við Listaháskóla Íslands þar sem aðalkennari hans var Atli Ingólfsson. Síðar hélt hann til náms til Eistlands og lærði við Tónlistar- og leikhúsakademíuna í Tallinn þar sem kennarar hans voru Helena Tulve og Toivo Tulev. Haustið 2020 hóf Þorkell nám í tónsmíðum við Síbelíusarakademíuna í Helsinki þar sem aðalkennari hans er Veli-Matti Puumala. 
 
Í námi sínu þar hefur hann fengist við fjölbreytt verkefni, til að mynda kammerverk og rafverk, en um þessar mundir vinnur Þorkell að hljómsveitarverki, sem hann hefur þróað í vinnustofum með Fílharmóníuhljómsveitinni í Helsinki, og hljóðinnsetningu fyrir Tampere Biennale tónlistarhátíðina sem fram fer í apríl næstkomandi. 
 
Ingjaldssjóður, minningarsjóður Ingjalds Hannibalssonar prófessors, er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir sjóðanna starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til ávinnings fyrir starf Háskóla Íslands með styrkjum til stúdenta og starfsfólks.
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is