Veittir hafa verið þrír styrkir til verkefna og rannsókna í félagsráðgjöf úr Vísindum og velferð: Styrktarsjóði Sigrúnar og Þorsteins. Styrkhafar eru doktorsnemarnir Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir og Sirrý Sif Sigurlaugardóttir og meistaraneminn Davíð Alexander Östergaard. Heildarupphæð styrkja er tæplega fimm milljónir króna.
Sjóðnum Vísindi og velferð er annars vegar ætlað að efla doktorsnám og sérfræðiþekkingu í félagsráðgjöf, með áherslu á málefni barna og fjölskyldna, og hins vegar vísindafræði, nánar tiltekið rannsóknir og nýjungar sem tengjast vísindasögu, vísindaheimspeki og vísindamiðlun. Að þessu sinni voru veittir styrkir til verkefna á fyrrnefndu sviðunum, en auglýst er árlega eftir umsóknum á hvoru meginsviði til skiptis.
Ragnheiður Björg Guðmundsdóttir leggur stund á doktorsnám í félagsráðgjöf við Félagsráðgjafardeild. Hún rannsakar tengslahegðun 150 barna af íslenskum uppruna með umönnunaraðilum þeirra. Rannsóknin byggist á grunni tengslakenninga, að tengsl við frumumönnunaraðila fylgi barni frá vöggu til grafar. Áhersla er lögð á að skoða tengslahegðun íslenskra barna með frumumönnunaraðilum. Notast er við tengslamatstæki sem nefnist Toddler Care Index en gagnaöflun felst í 300 myndbandsupptökum af tengslahegðun sem send eru utan til greiningar hjá Family Relations Institute á Ítalíu. Rannsóknarniðurstöður munu veita dýrmæta þekkingu um hvernig tengslahegðun barna af íslenskum uppruna er háttað og hvernig menningararfleifð Íslendinga hefur mótað tengslahegðun íslenskra barna. Niðurstöðurnar munu einnig veita innsýn í hættulega tengslahegðun og birtingarmyndir hennar og geta leitt til breytinga á meðferð og stuðningi við börn og fjölskyldur barna sem búa við hættu.
Davíð Alexander Östergaard stundar meistaranám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf við Deild menntunar og margbreytileika. Hann rannsakar aðstæður fjölskyldna með börn í tvískiptri búsetu en foreldrar og börn þeirra standa frammi fyrir ýmsum áskorunum í kjölfar samvistarslita. Til að mynda getur reynst erfitt fyrir foreldra að viðhalda góðum samvinnu- og samskiptaháttum en jafnframt standa börn, sem búa á tveimur heimilum, gjarnan höllum fæti gagnvart jafningjum sínum. Verkefnið SÁTT leggur upp með að styðja við barnafjölskyldur og felur það meðal annars í sér gerð mælitækis sem til þess er fallið að meta gæði samvinnuuppeldis. Í verkefni sínu hyggst Davíð endurskoða frumgerð mælitækisins frá grunni svo það standist ströngustu skilyrði próffræðilegra eiginleika fyrir viðurkennd mælitæki. Þá verður mælitækið lagt fyrir foreldra sem sækja ráðgjöf til fagaðila og unnið verður með niðurstöður viðkomandi foreldra í sérstökum viðtalstímum. Þess er vænst að greining og úrvinnsla gagna úr rannsókninni nýtist bæði foreldrum og fagaðilum í því skyni að efla foreldrasamvinnu almennt og rétta stöðu þeirra barna sem í hlut eiga.
Sirrý Sif Sigurlaugardóttir stundar doktorsnám við Félagsráðgjafardeild í öflugu samstarfi við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. Um er að ræða fyrsta formlega samstarf deildanna í doktorsnámi en markmiðið er að efla rannsóknir í öldrunarfræðum. Rannsókn Sirrýjar snýr að aðstandendum aldraðra sem þiggja heimahjúkrun og umönnunarhlutverki þeirra. Umönnun hrumra og veikra aldraðra getur valdið álagi og streitu hjá aðstandendum og haft víðtæk áhrif innan fjölskyldunnar. Talið er að niðurstöðurnar komi til með að nýtast jafnt í félags- og heilbrigðisþjónustu.
Um sjóðinn
Vísindi og velferð: Styrktarsjóður Sigrúnar og Þorsteins var stofnaður á vormánuðum árið 2021 og eru stofnendur sjóðsins hjónin Sigrún Júlíusdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson, sem bæði eru fyrrverandi prófessorar við Háskóla Íslands. Sigrún er fyrrverandi prófessor í félagsráðgjöf og hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar, rannsókna og fræða í félagsráðgjöf við háskólann og stofnandi Rannsóknaseturs í barna- og fjölskylduvernd. Þorsteinn er fyrrverandi prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, stofnandi og fyrsti ritstjóri Vísindavefsins og hefur verið brautryðjandi í vísindafræðum við skólann.
Sjóðurinn heyrir undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands og starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Í stjórn sjóðsins sitja Vilhjálmur Þorsteinsson, sonur Þorsteins og fulltrúi stofnenda sjóðsins sem jafnframt er formaður stjórnar, Sigurveig H. Sigurðardóttir prófessor, fulltrúi Félagsráðgjafardeildar, og Einar H. Guðmundsson, prófessor emeritus, fulltrúi Raunvísindadeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar.Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands og þar með samfélagið allt.