Jón Valur Björnsson, nemandi á þriðja ári í stærðfræði við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, hefur hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Sigurðar Helgasonar prófessors fyrir frábæran námsárangur. Verðlaunin nema 11.000 bandaríkjadölum, jafnvirði um 1,5 milljóna króna.
Jón Valur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík vorið 2021. Hann hóf nám í stærðfræði í við Háskóla Íslands haustið 2021 og stefnir á að útskrifast með BS-próf í vor. Jón Valur hefur sýnt framúrskarandi árangur í námi sínu og hefur lokið stærðfræðinámskeiðum fyrstu tveggja námsára í HÍ með meðaleinkunnina 9,81. Jón er sem stendur í skiptinámi við Kaliforníuháskólann í Berkeley.
Jón Valur hefur starfað sem sumarstarfsmaður hjá Evolv Robotics við hugbúnaðarþróun fyrir sjálfvirknivæðingu ferla og einnig var hann aðstoðarkennari við HÍ vorið 2023 í áfanganum Stærðfræðigreining II. Hann hefur tvisvar sinnum tekið þátt í alþjóðlegu ólympíukeppninni í eðlisfræði fyrir hönd Íslands og einnig var hann í liði Íslands í Eystrasaltskeppninni í stærðfræði 2020. Þá hefur Jón Valur sinnt sjálfboðaliðastarfi fyrir Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur. Jón Valur stefnir á framhaldsnám í tölfræði í Bandaríkjunum að loknu BS-prófi.
Um Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar prófessors
Verðlaunasjóður Sigurðar Helgasonar veitir viðurkenningar til stærðfræðinema og nýútskrifaðra stærðfræðinga fyrir góðan árangur og styrkir þá til frekari afreka í námi og rannsóknum.
Stofnandi sjóðsins er Sigurður Helgason, prófessor í stærðfræði við MIT í Boston. Sigurður fæddist á Akureyri 30. september 1927 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1945. Eftir árs nám við verkfræðideild Háskóla Íslands hélt Sigurður til Danmerkur og lauk Mag.Scient.-prófi í stærðfræði 1952 frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann hélt þá til frekara náms við Princeton-háskóla í Bandaríkjunum og lauk þaðan doktorsprófi 1954 og kenndi síðan við Tækniháskóla Massachusetts (MIT), Princeton-háskóla, Chicago-háskóla og Columbia-háskóla. Sigurður varð prófessor við MIT árið 1965 og eftir hann liggja fjölmargar bækur og vísindagreinar um stærðfræði. Hann hefur verið heiðursdoktor við Háskóla Íslands frá árinu 1986 og er heiðursfélagi Íslenska stærðfræðafélagsins.
Styrktarsjóðir á borð við Verðlaunasjóð Sigurðar Helgasonar eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands. Skólinn hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að hvetja nemendur skólans til dáða, efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.