Veittur hefur verið styrkur til doktorsrannsóknar sem miðar að því að greina og uppræta fordóma í mállíkönum úr Menningar- og framfarasjóði Ludvigs Storr. Styrkhafi er Steinunn Rut Friðriksdóttir, doktorsnemi í tölvunarfræði með áherslu á máltækni, og hlýtur hún styrk til tveggja ára að upphæð kr. 10.200.000.
Tilgangur sjóðsins er að stuðla að framförum á sviði jarðefnafræða, byggingariðnaðar og skipasmíða með því að styrkja vísindamenn á sviði jarðefnafræða, verkfræðinga, arkitekta, tæknifræðinga og iðnaðarmenn til framhaldsnáms. Styrkir eru einnig veittir til rannsókna á hagnýtum úrlausnarefnum í þessum greinum.
Steinunn Rut stundar doktorsnám hjá Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild. Rannsóknarverkefni hennar ber heitið „Fordómar í gervigreind“. Undanfarin ár hefur orðið mikil þróun í smíði og notkun gervigreindarlíkana. Þessi líkön gera allt frá því að semja ljóð yfir í að hjálpa til við greiningu sjúkdóma. En gervigreindin lærir það sem fyrir henni er haft. Ein afleiðing þess hversu gríðarlegt gagnamagn fer í þjálfun þessara mállíkana er að fordómar samtímans og jafnvel fortíðarinnar birtast tvíefldir í afrakstri þeirra. Kynjaðar staðalímyndir, kynþáttamismunun, trúar-, hinsegin-, fitu- og fötlunarfordómar eru meðal þess sem birtist ekki einungis í niðurstöðum líkananna heldur geta fordómarnir magnast upp. Líkön sem vinna með íslenskt mál eru hér engin undantekning.
Það er afar mikilvægt að þau sem vinna að framþróun í gervigreind séu meðvituð um siðferðislegar afleiðingar sem hún getur haft og tryggi að hún sé í samræmi við framþróun í réttindabaráttu í samfélaginu, annars er hætta á að tæknin snúist í höndunum á okkur og auki jafnvel skautun í samfélaginu. Það er því nauðsynlegt að rannsaka fordóma sem birtast í mállíkönunum og finna lausnir sem koma í veg fyrir þá. Í rannsókninni er stefnt að því að þróa íslenskan gæðastaðal fyrir gervigreindarlíkön og kanna frammistöðu núverandi líkana í samræmi við hann. Þá verður jafnframt rannsakað hvaða lausnir eru til annars staðar í heiminum og sambærilegar aðferðir þróaðar fyrir íslenska máltækni. Leiðbeinandi Steinunnar Rutar er Hafsteinn Einarsson, lektor í tölvunarfræði.
Í stjórn Menningar- og framfarasjóðs Ludvig Storr sitja David Pitt framkvæmdastjóri, Ebba Þóra Hvannberg prófessor og Ari Karlsson lögmaður. Varamaður í stjórn er Sigrún Nanna Karlsdóttir og umsjónarmaður sjóðsins er Frank Óskar Pitt viðskiptafræðingur.
Um sjóðinn
Menningar- og framfarasjóður Ludvigs Storr var stofnaður árið 1980 af Svövu Storr, ekkju Ludvigs Storr, og dóttur hans, Önnu Dúfu Storr. Ludvig Storr var fæddur í Kaupmannahöfn 21. október 1897. Að loknu verslunarprófi starfaði hann í glerfyrirtæki foreldra sinna en árið 1922 settist hann að á Íslandi. Hann stofnaði byggingavöruverslun Ludvigs Storr & Co. sem síðar varð Glerslípun og speglagerð hf. og úr varð umsvifamikill rekstur hér á landi. Ludvig Storr lét til sín taka í félagsmálum og starfaði í ýmsum félagsskap Dana hér á Íslandi. Hann var aðalræðismaður Dana á Íslandi frá árinu 1956 til dauðadags 1978. Meðal áhugamála hans var endurreisn Skálholtsstaðar og eru kirkjugluggar og fleiri listmunir í kirkjunni gjöf frá fjölskyldu hans. Ludvig Storr var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Elín Storr Sigurðardóttir (1901-1944) og áttu þau eina dóttur, Önnu Dúfu Storr. Síðari kona Ludvigs Storr var Svava Einarsdóttir Storr (1917-2009) og voru þau barnlaus.