Fyrirtækið Grein Research, sem vinnur að ýmiss konar þróunarrannsóknum í efnisfræði, þar á meðal á tækni sem miðar að því að auka endingu og orkuinnihald rafhlaðna, hlýtur viðurkenningu Nýsköpunarsjóðs dr. Þorsteins Inga Sigfússonar við Háskóla Íslands árið 2024. Dr. Árni Sigurður Ingason, framkvæmdastjóri hjá Grein Research tók við viðurkenningunni úr hendi Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, á hátíðarmálþingi sem haldið var á vegum háskólans til minningar um Þorstein Inga þann 4. júní.
Þetta er í fjórða sinn sem viðurkenning er veitt úr sjóðnum en tilgangur hans er að stuðla að auknum áhuga á nýsköpun og styðja efnilega frumkvöðla, nemendur eða vísindamenn, sem með einhverjum hætti sinna verkefnum eða rannsóknum er lúta að nýsköpun.
Yfirskrift málþingsins var Dögun vetnisaldar og það var haldið með stuðningi Landsvirkjunar og Orku náttúrunnar. Boðið var upp á fyrirlestra og pallborðsumræður um þróun vetnishagkerfis með þátttöku sérfræðinga frá Háskóla Íslands og orkufyrirtækjum. Rektor ávarpaði gesti og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra opnaði málþingið. Því lauk með afhendingu viðurkenningarinnar.
Grein Research er íslenskt sprotafyrirtæki sem vinnur að þróunarrannsóknum í efnisfræði fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini. Fyrirtækið vinnur að þróun nýrra efna fyrir viðskiptavini sem nýta efnistækni í sínum rekstri, greina hvaða virkni efnin þurfa að hafa og búa þau svo til. Einnig tekur Grein að sér mælingar sem miða meðal annars að því að aðstoða viðskiptavini við innri þróun. Verkefnin snúa að margs konar iðnaði, allt frá tæringarvörnum fyrir til dæmis jarðvarmaiðnað og þróun á hvötum til vetnisframleiðslu til efnisþróunar í hálfleiðaraiðnaðinum og í framleiðslu á byggingagleri.
Nýverið fékk félagið styrk til að þróa tækni sem miðar að því að breyta framleiðslu á þéttefnisrafhlöðum sem getur aukið endingu, orkuinnihald og hleðsluhraða rafhlaðna. Fjölbreytni þeirra verkefna sem fyrirtækið hefur unnið að hefur skilað sér í fjöldamörgum hugmyndum sem nýta má á þessu sviði. Þéttefnisrafhlöður eru eins og hefðbundnar rafhlöður, samsettar úr katóðu, rafvökva og anóðu, en í þeim er rafvökvinn á föstu formi. Því eru allir hlutar rafhlöðunnar þess eðlis að Grein getur búið þá til með þeim aðferðum sem fyrirtækið notar í sinni efnisþróunarvinnu.
Grein Research var stofnað árið 2015 af Árna Sigurði Ingasyni sem er framkvæmdastjóri, Unnari B. Arnalds og Friðriki Magnus, prófessorum í eðlisfræði við Háskóla Íslands, og Kristni B. Gylfasyni, prófessor við Konunglega tækniháskólann í Svíþjóð. Fyrirtækið hefur sótt ýmsa styrki til starfsemi sinnar í gegnum árin bæði hérlendis og í erlenda sjóði en er smám saman að auka hlut verkefna sem eru unnin beint fyrir fyrirtæki. Grein vinnur að verkefnum bæði innanlands og utan en stærstur hluti viðskiptavina þess eru erlend fyrirtæki beggja vegna Atlantshafs.
Um sjóðinn
Nýsköpunarsjóður dr. Þorsteins Inga Sigfússonar var stofnaður 4. júní 2020 til minningar um dr. Þorstein Inga Sigfússon (f. 4. júní 1954, d. 15. júlí 2019). Stofnandi sjóðsins er Bergþóra K. Ketilsdóttir, ekkja Þorsteins Inga.
Þorsteinn Ingi lauk doktorsnámi í eðlisfræði frá Cambridge-háskóla í Englandi árið 1983. Hann hóf störf sem fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands árið 1982 og varð síðar prófessor í eðlisfræði við háskólann. Þorsteinn Ingi vann ötullega að tengingu háskóla og atvinnulífs og kom að stofnun og stjórnarmennsku í sprotafyrirtækjum á mörgum sviðum. Hann var frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi og beitti sér ötullega í baráttunni við að draga úr losun koltvíoxíðs í andrúmslofti. Þorsteinn Ingi varð forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við stofnun hennar 2007. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf og framlag til hátækniatvinnugreina og hlaut rússnesku Alheimsorkuverðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til vetnismála.
Stjórn sjóðsins skipa Hermann Kristjánsson, verkfræðingur og frumkvöðull sem jafnframt er formaður stjórnar, dr. Þór Sigfússon hagfræðingur og dr. Guðrún Pétursdóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands. Áætlað er að veita viðurkenningu sjóðsins árlega á afmælisdegi Þorsteins Inga.
Hægt er að styrkja sjóðinn með peningagjöfum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 596-26-1760. Kennitala Styrktarsjóða Háskóla Íslands er 571292-3199. Mikilvægt er að merkja greiðsluna nafni sjóðsins. Netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands er sjodir@hi.is.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.