Ögmundur Viðar Rúnarsson lauk BS-prófi í matvælafræði frá Háskóla Íslands árið 2002 og MS-prófi í lyfjavísindum frá Lyfjafræðideild árið 2004. Hann hóf doktorsnám árið 2005 undir leiðsögn Más Mássonar.
Rannsóknarverkefni: Efnasmíð á tvíleysnum efnum og rannsóknir á lyfjafræðilegum eiginleikum
Rannsóknarverkefnið fjallar um efnasmíð og rannsóknir á katjónískum kítósykruafleiðum með bakteríuhamlandi eiginleika. Kítósykrur og afleiður þeirra hafa sýnt margs konar áhugaverða lyfjafræðilega eiginleika svo sem bakteríudrepandi eiginleika, genaferjunareiginleika, sáragræðandi eiginleika og fleira. Lögð er áhersla á greiningu sambands byggingar og virkni þessara afleiða. Þar af leiðandi er einnig lögð áhersla á að þróa hentugar efnasmíðaaðferðir, sem síðan eru notaðar til að smíða röð af afleiðum þar sem byggingunni er breytt á skipulegan hátt.
Elsa Steinunn Halldórsdóttir lauk kandídatsprófi frá Lyfjafræðideild Háskóla Íslands 2003 og hóf doktorsnám á sviði lyfja- og efnafræði náttúruefna árið 2005 undir leiðsögn Elínar Soffíu Ólafsdóttur prófessors.
Rannsóknaverkefni: Alkalóíðar úr íslenskum jafnategundum (Lycopodium), andkólínesterasaverkun in vitro
Jafnar eru lágplöntur sem framleiða áhugaverð efnasambönd sem sýnt hafa hindrandi verkun á asetýlkólínesterasa ensímið og gætu því reynst áhugaverð sem hugsanleg lyf við Alzheimerssjúkdómi. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að rannsaka alkalóíðainnihald í íslenskum jafnategundum og kanna andkólínesterasavirkni þessara alkalóíða. Samspil virkra og óvirkra alkalóíða við ensímið verður kannað með hermun í tölvu og samband á milli efnabygginga og ensímhindrandi verkunar rannsakað.