Þrír hlutu styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Scheving Thorsteinssonar í fyrstu úthlutun hans. Markmið sjóðsins, sem Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði við Háskóla Íslands árið 2001, er að styðja rannsóknir á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess. Verkefnin sem hljóta styrk snúa bæði að rannsóknum á einelti og rannsóknum á leiðum til að bæta fyrir afleiðingar þess.
Elín Einarsdóttir námsráðgjafi við Digranesskóla hlýtur styrk til samanburðarrannsókna á eðli og orsökum eineltis í grunnskólum á Íslandi og Noregi. Hún beinir sjónum sérstaklega að áhrifum tækninnar, svo sem notkun farsíma, sms-skeyta og tölvupósts á það. Rannsóknin er hluti af meistaranámi Elínar við Háskólann í Stavangri undir handleiðslu Erlings Rolands prófessors og forstöðumanns „Senter for adferdsforsking ved Högskolen í Stavanger“. Elín hefur ásamt Guðmundi Inga Leifssyni þýtt og staðfært handbókina „Saman í sátt“, sem Námsgagnastofnun gaf út og fjallar um leiðir til að fást við einelti og samskiptavanda í skólum. Efnið byggist á rannsóknum miðstöðvarinnar sem hefur þróað aðferðafræði og hjálpartæki sem beitt er í skólum á Íslandi, Írlandi, Noregi og Kanada til að takast á við einelti. Rannsókn í Trinity College í Dublin frá síðasta ári bendir til þess að einelti hefði dregist saman um 25% á einu ári í þeim írsku skólum þar sem aðferðinni hafði verið beitt.
Vanda Sigurgeirsdóttir meistaranemi við Kennaraháskóla Íslands hlýtur styrk til rannsóknar meðal 700 íslenskra kennara við 21 grunnskóla landsins, sem ætlað er að varpa ljósi á viðhorf kennara til eineltis og hversu vel í stakk búnir þeir telja sig vera til að bregðast við einelti í umhverfi sínu. Markmið rannsóknarinnar er að auka færni kennara til að taka á einelti en talið er að árlega séu um 5000 íslensk börn þolendur eða gerendur eineltis hér á landi. Stærsti hlutinn fer fram á skólatíma og eru kennarar því í lykilstöðu til að greina og sporna við einelti. Meðal annars verður leitað svara við því hvaða formlegu þjálfun og fræðslu kennarar hafa fengið til að taka á einelti, hvernig þeim gengur að greina einelti og hvernig þeir telja sig geta orðið hæfari að taka á því.
Þá hlýtur Inga Dóra Sigfúsdóttir félagsfræðingur, fyrir hönd Rannsókna og greiningar, styrk til rannsóknarinnar „Einelti meðal íslenskra unglinga: Umhverfi og aðstæður“. Henni er ætlað að draga upp mynd af félagslegum aðstæðum íslenskra unglinga sem verða fyrir einelti og þeirra sem beita því, jafnframt því að greina umfang vandans meðal nemenda í efstu bekkjum grunnskóla. Rannsóknin byggist á könnunum sem lagðar hafa verið fyrir alla nemendur í áttundu, níundu og tíundu bekkjum grunnskóla hérlendis á undanförnum árum. Í þeim hefur verið spurt um hagi og líðan ungs fólks, sem og tengsl þeirra við foreldra, vini, námsárangur og líðan í skóla, andlega og líkamlega heilsu, trú og trúrækni, tómstunda- og íþróttaiðkun, vímuefnaneyslu, ofbeldi og einelti.
Bent Scheving Thorsteinsson, stofnandi Styrktarsjóðs Margaret og Bent, hefur stofnað tvo aðra sjóði við Háskóla Íslands á undanförnum misserum. Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis stofnaði Bent til minningar um Óskar fósturföður sinn en sjóðurinn veitir viðurkenningar fyrir vísindaleg afrek á sviði barnalækninga. Þá stofnaði Bent Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Sch. Thorsteinssonar til minningar um föður sinn en sjóðurinn hefur að markmiði að veita viðurkenningar fyrir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Bent er fæddur í Danmörku árið 1922 og er sonur Þorsteins Scheving Thorsteinssonar lyfsala í Reykjavíkurapóteki og Guðrúnar Sveinsdóttur er síðar giftist Óskari Þórðarsyni barnalækni í Reykjavík. Bent lauk hagfræðiprófi frá Pennsylvaníuháskóla árið 1945 og starfaði meðal annars í viðskiptamálaráðuneytinu, hjá póst- og símamálastjóra og á Keflavíkurflugvelli. Lengst af vann Bent hjá Rafmagnsveitu ríkisins, fyrst sem deildarstjóri og síðar fjármálastjóri. Þá hefur Bent gegnt stjórnarstörfum í mörgum hlutafélögum og sinnt ýmsum trúnaðarstörfum. Bent kvæntist Margaret Ritter Ross Wolfe árið 1945 en hún er dóttir Charles Wolfe verslunarmanns í Ohio í Bandaríkjunum.