Á alþjóðadegi fatlaðs fólks fimmtudaginn 3. desember 2009 var í þriðja skipti úthlutað námsstyrk til blindra og sjónskertra stúdenta við Háskóla Íslands. Styrkhafi var Helga Theódóra Jónasdóttir, nemandi á fyrsta ári í sálfræði við Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands. Styrkurinn var veittur úr Þórsteinssjóði og afhenti forseti Menntavísindasviðs, Jón Torfi Jónsson, hann við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi. Upphæð styrksins var 500 þúsund kr, sem var viðbótarframlag Blindravinafélags Íslands til Þórsteinssjóðs.
Þórsteinssjóður var stofnaður af Blindravinafélagi Íslands 6. desember 2006 og er til minningar um Þórstein Bjarnason, stofnanda Blindravinafélags Íslands. Megintilgangur sjóðsins er að styrkja blinda og sjónskerta stúdenta til náms við Háskóla Íslands og er þetta í þriðja skipti sem úthlutað er úr sjóðnum.
Hlutverk og tilgangur Þórsteinssjóðs helgast af æviverki Þórsteins, sem fæddist 3. desember árið 1900. Hann stofnaði Blindravinafélag Íslands 24. janúar 1932 og var það fyrsti vísir að félagi til stuðnings fötluðu fólki á Ísland. Þórsteinn helgaði líf sitt blindum og sjónskertum á Íslandi á tuttugustu öld án þess að taka nokkru sinni laun fyrir heldur lagði félaginu til fé úr eigin vasa.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands, allt frá stofnun skólans. Flestir starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólks.