Íslenska stærðfræðafélagið hefur hlotið styrk úr Almanakssjóði til að þróa frekar hugtakasafn félagsins. Stefnt er að því að þar megi finna skilgreiningar og útskýringar á öllum stærðfræðihugtökum sem íslenskir nemendur, foreldrar skólabarna og allur almenningur gæti haft ástæðu og áhuga til að forvitnast um.
Fyrsti áfangi Hugtakasafnsins var unninn sumarið 2010 sem hluti af nýsköpunarverkefni þriggja nemenda við Raunvísindadeild Háskóla Íslands, þeirra Einars Bjarka Gunnarssonar, Guðmundar Einarssonar og Jóhanns Sigursteins Björnssonar. Ritstjóri Hugtakasafnsins er Jóhann Sigurðsson.
Hugtakasafn Íslenska stærðfræðafélagsins er að finna á vefnum www.stae.is.
Íslenska stærðfræðafélagið var stofnað árið 1947. Tilgangur félagsins er að efla stærðfræði á Íslandi og vera vettvangur Íslendinga fyrir alþjóðlegt samstarf stærðfræðinga. Formaður þess er Ragnar Sigurðsson.
Almanakssjóður var stofnaður árið 1973. Markmið sjóðsins er m.a. að styrkja rannsóknir í stjarnfræði og rímfræði, stærðfræði og stærðfræðilegri eðlisfræði og útgáfu vísindalegra rita í þessum fræðum.