Háskóli Íslands

Skýringa leitað á hlýnun jarðar

Áslaug Geirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild

„Við erum að upplifa óvenjulega hlýnun í heiminum í dag, sem vekur upp ýmsar spurningar varðandi orsök og afleiðingar." Þetta segir Áslaug Geirsdóttir, prófessor í jarðfræði við Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands. Áslaug vinnur nú að rannsókn á umhverfisbreytingum á Suðurlandi síðustu 3000 ár ásamt Yarrow Axford, nýdoktor við Háskóla Íslands, og Gifford H. Miller, prófessor við Háskólann í Colorado.

„Við viljum rannsaka hver þáttur mannsins er í hlýnuninni og hvort við getum dregið einhverjar ályktanir af sögu loftslagsbreytinga varðandi orsök og afleiðingar þeirrar hlýnunar sem á sér stað í dag."

Áhugi Áslaugar á málefninu kviknaði þegar hún stundaði grunnnám í jarðfræði við Háskóla Íslands og áhuginn skerptist í framhaldsnámi hennar við University of Colorado. „Jarðlög, jarðvegur og allt lífríki er mjög næmt fyrir minnstu breytingum á loftslagi. Þessar breytingar varðveitast sérstaklega vel á stöðum þar sem setmyndun er hröð og samfelld eins og í stöðuvötnum og í hafinu. Þegar ég sá samhengið á milli þeirra umhverfisbreytinga sem mælast í stöðuvatnasetinu (byggt til dæmis á magni kolefnis, kísils og tegundum rykmýslirfa í setinu) og veðurfarsþátta efldist áhuginn enn frekar. Ef okkur tekst að rekja þessar breytingar aftur í tímann og skilja ástæður þeirra, verður það mikilvægt gagnainnlegg í þá miklu umræðu um loftslagsbreytingar og áhrif gróðurhúsalofttegunda á loftslag í dag og til framtíðar."

„Eitt meginmarkmið rannsóknanna er að tímasetja nákvæmlega snöggar breytingar á þróun loftslags hér við Norður-Atlantshafið á síðustu árþúsundum með aðstoð gjóskulaga. Ef okkur tekst að tengja slíkar breytingar til dæmis stórum eldgosum, sólarvirkni, breytingum í hafstraumum eða öðrum áhrifaþáttum, eykur það skilning okkar á þeim loftslagsbreytingum sem við erum nú að upplifa og gæti hugsanlega sett betri skorður á framtíðarspár um gróðurhúsaloftslag," segir Áslaug.

Rannsóknin á Suðurlandi er angi af stærra rannsóknaverkefni um samspil eldvirkni og loftslagsbreytinga á síðustu 10-12 þúsund árum. „Það sem gerir þessar rannsóknir svo áhugaverðar er samvinna þriggja ólíkra hópa vísindamanna sem nálgast viðfangsefnið hver frá sínu sérsviði, í eldfjallafræði, fornloftslagsfræði og líkanreikningum, þar sem reynt er að herma eftir loftslagi fyrri tíma meðal annars með gögnum okkar úr stöðuvatnaseti. Niðurstöðurnar eru síðan notaðar til að spá fyrir um loftslagsbreytingar í framtíðinni," segir Áslaug. „Hér er um mjög öflugan alþjóðlegan hóp að ræða, frá Kanada, Bandaríkjunum, Norðurlöndunum, Bretlandi og Íslandi, sem hefur í brennidepli eldgos á Íslandi og loftslagsbreytingar við Norður-Atlantshafið síðustu 12 þúsund árin.

Rannsóknasjóður hefur styrkt verkefnið.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is