Háskóli Íslands

Ný bók um tíðni orða í tali barna

Komin er út bókin Tíðni orða í tali barna sem var unnin með styrk úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur við Háskóla Íslands. Bókin byggist á tveimur meistaraprófsritgerðum í talmeinafræði sem Anna Lísa Pétursdóttir og Íris Dögg Rúnarsdóttir unnu undir handleiðslu Jóhönnu Thelmu Einarsdóttur, dósents í talmeinafræði við Heilbrigðisvísindasvið og Menntavísindasvið. Bókin kom út bæði á rafrænu og prentuðu formi.
 
Í bókinni er sýnt hvaða orð börnum er tamast að nota þegar þau tjá sig á íslensku í samræðum við fullorðna. Hún byggist á málsýnum sem tekin voru á árunum 2009 til 2014 hjá 360 börnum á aldrinum tveggja til átta ára.
 
Heildarfjöldi orða (lesmálsorða) sem liggur til grundvallar er 100.107, mismunandi orðmyndir eru 7.883 og fjöldi flettiorða er 3.879.  Í orðtíðnibókinni er hægt að skoða tíðni orða, beygingarmyndir og orðflokka hjá börnum á mismunandi aldri og jafnframt eru gögnin aðgengileg til notkunar innan Háskóla Íslands til rannsókna á barnamáli og máltöku barna.
 
Orðtíðnibókina er hægt að nýta við kennslu á grunnorðum í íslensku fyrir börn með málþroskaröskun og börn af erlendum uppruna sem eru að læra íslensku. Enn fremur gagnast hún við kennslu um máltöku barna og við þróun námsefnis til að efla færni í íslensku. Orðtíðnibókin er því ómetanlegt framlag til að stuðla að aukinni þekkingu á málfærni barna sem tala íslensku.
 
Jóhanna Thelma hlaut styrk til verkefnisins úr Styrktarsjóði Áslaugar Hafliðadóttur árið 2018 en markmið þess var að skoða stöðu íslenskunnar eins og hún birtist í tali eintyngdra íslenskra barna og gefa út rafræna orðtíðnibók. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is