Háskóli Íslands

Nýr sjóður styður við íslenska tungu

Nýr sjóður hefur verið stofnaður undir hatti Styrktarsjóða Háskóla Íslands sem nefnist Íslenskusjóðurinn. Hann byggist á rausnarlegu framlagi Elsu Sigríðar Jónsdóttur og Tómasar Gunnarssonar en þau undirrituðu skipulagsskrá sjóðsins ásamt Jóni Atli Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, á dögunum. Elsa Sigríður er fyrrum lektor við Kennaraháskóla Íslands, áður við Fósturskóla Íslands, og beindust rannsóknir hennar ekki síst að fjölmenningu og leikskólastarfi. Markmið sjóðsins er að stuðla að varðveislu íslenskrar tungu og er stofnfé sjóðsins 50 milljónir króna.
 
Tilgangurinn með stofnun sjóðsins er að efla vald fólks á íslensku máli, einkum fjöltyngdra barna af erlendum uppruna og foreldra þeirra. Styrkir verða veittir til verka sem styðja við og efla notkun á íslensku máli, svo sem þróunarverkefna á leikskóla- og grunnskólastigi, námskeiða, bókaskrifa, bókaþýðinga og bókaútgáfu, vefsíðna, efnis fyrir snjalltæki og annars sem álitlegt þykir til að ná markmiði sjóðsins.
 
Sjóðurinn er stofnaður í minningu foreldra þeirra Tómasar og Elsu Sigríðar en þau voru öll af ungmennafélagskynslóðinni, þar sem fullveldi Íslands og sjálfstæði voru meginmál. Íslensk tunga var þeim hjartfólgin og vildu þau veg hennar sem mestan.
 
Rektor Háskóla Íslands skipar stjórn sjóðsins og í henni sitja Samúel Lefever, dósent við Deild faggreinakennslu, Menntavísindasviði, Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið, og Daisy Neijmann, aðjunkt í íslensku sem annað mál við Íslensku- og menningardeild, Hugvísindasviði.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is