Nýr styrktarsjóður, sem m.a. er ætlað að efla íslenska tungu í síbreytilegu tækniumhverfi nútímans, var stofnaður við Háskóla Íslands á dögunum. Sjóðurinn er kenndur við Áslaugu Hafliðadóttur, sem arfleiddi háskólann að húseign og umtalsverðum fjármunum, og er ætlunin að veita styrk úr sjóðnum strax á næsta skólaári.
Sjóðurinn ber heitið Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur og hefur það að markmiði að efla íslenska tungu með styrkjum til sérverkefna á sviði íslenskra fræða. Styrkir munu standa bæði starfsmönnum og nemendum Háskóla Íslands til boða, m.a. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða tækja og búnaðar sem falla að markmiðum sjóðsins. Í stofnskrá sjóðsins segir að sérstaklega skuli stutt við verkefni sem lúta að ritfærni og þjálfun nemenda á öllum fræðasviðum háskólans við beitingu íslensks máls og styrkja stöðu íslenskunnar í síbreytilegu tækniumhverfi.
Styrktarsjóðurinn er stofnaður til minningar um Áslaugu Hafliðadóttur (f. 22. ágúst 1929, d. 21. ágúst 2011) og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason. Í erfðaskrá sinni arfleiddi Áslaug Hafliðadóttir Háskóla Íslands að fasteigninni að Bjarkargötu 12 í Reykjavík til minningar um foreldra sína. Jafnframt ánafnaði hún háskólanum 25% af öllum bankainnistæðum og andvirði verðbréfa í sinni eigu. Stofnframlag sjóðsins nemur samtals 120 milljónum króna.
Áslaug stundaði nám í lyfjafræði við Lyfjafræðingaskóla Íslands og verknám í Ingólfs Apóteki. Eftir útskrift sem aðstoðarlyfjafræðingur hélt Áslaug til Danmerkur og lauk kandídatsprófi í lyfjafræði frá Danmarks Farmaceutiske Höjskole 1957. Hún starfaði lengst af í Reykjavíkur Apóteki og Lyfjabúð Breiðholts og lagði þar m.a. mikla rækt við lyfjafræðinema frá Háskóla Íslands sem komu til verknáms undir hennar handleiðslu. Í Lyfjabúð Breiðholts starfaði Áslaug með Ingibjörgu Böðvarsdóttur apótekara. Auk samstarfs í apótekinu skrifuðu þær mikið saman um sögu lyfjafræði og vildu hlúa að sögulegri vitund í samfélaginu. Þær voru enn fremur ötulir hvatamenn að útkomu Lyfjafræðingatals. Þá vann Áslaug merkilegt starf ásamt hópi lyfjafræðinga við að koma upp Lyfjafræðisafni við Neströð á Seltjarnarnesi. Áslaug starfaði í íslensku esperanto-hreyfingunni í rúma þrjá áratugi og var lengi í stjórn Aúroro, esperanto-félags Reykjavíkur.
Þriggja manna stjórn sjóðsins hefur verið skipuð og kom hún saman til síns fyrsta fundar á dögunum. Stjórnina skipa þau Katrín Jakobsdóttir alþingismaður sem jafnframt er formaður stjórnar, Börkur Hansen, prófessor við Menntavísindasvið, og Viðar Guðmundsson, prófessor við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, en hann er fulltrúi ættingja Áslaugar í stjórninni.
Styrktarsjóðir á borð við Áslaugarsjóð eru mikil lyftistöng fyrir Háskóla Íslands og gera bæði kennurum og nemendum skólans kleift að sinna rannsóknum og nýsköpun af meiri þrótti en ella. Háskóli Íslands hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga á undanförnum árum en þessir aðilar hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Katrín Jakobsdóttir, formaður stjórnar Styrktarsjóðs Áslaugar Hafliðadóttur, segir sjóðinn skapa ný tækifæri á fræðasviði sem brýnt sé að styrkja. Í síbreytilegu umhverfi samtímans þurfi að leita allra leiða til að efla íslenska tungu, ekki síst hjá yngri kynslóðinni.
Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur er í umsjá og vörslu Styrktarsjóða Háskóla Íslands og fellur undir sjóði sem lúta yfirstjórn Háskóla Íslands. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk.