Háskóli Íslands

Nýrri rannsókn ætlað að meta miska vegna eineltis til fjár

Rannsókn sem miðar að því að meta til fjár miska vegna eineltis hefur hlotið styrk úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar við Háskóla Íslands. Styrkhafi er Tinna Laufey Ásgeirsdóttir, prófessor við Hagfræðideild Háskóla Íslands, og nemur styrkurinn 1,2 milljónum króna.   
 
Þó ætla megi að það sé mikils virði að verða ekki fyrir einelti er ekki vitað hversu mikils virði það er; þ.e. hve mikið þyrfti að greiða einstaklingi til að bæta upp það velferðartap sem hann/hún verður fyrir af völdum eineltis. Slíkt mat hefur bæði fræðilegt og hagnýtt gildi. Það getur t.d. nýst hinu opinbera við mat á hagkvæmni íhlutana sem ætlað er að draga úr einelti eða afleiðingum þess.
 
Stærsti hluti gæðanna/skaðans sem um ræðir er líklega tilfinningalegur. Hagkvæmnisútreikningar sem ekki taka þessi andlegu gæði með í reikninginn verða því mjög bjagaðir en í rannsókninni er ætlunin að ráða bót á því. Beitt verður aðferðum sem þekktar eru til að mæla virði óáþreifanlegra gæða gagnvart einelti en slíkt hefur ekki verið gert áður. Vísindalegt gildi rannsóknarinnar felst því í aðlögun þeirra aðferða að þessu nýja viðfangsefni og beitingu þeirra á það. 
 
Meðrannsakendur Tinnu Laufeyjar Ásgeirsdóttur í verkefninu eru Edda Björk Þórðardóttir, Brynja Jónbjarnardóttir og Gísli Gylfason auk þess sem rannsóknarhópurinn Teymi um tekjuuppbót (e. ConCIV - Consortium on Compensating Income Variation) verður fræðilegur bakhjarl verkefnisins. 
 
Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður með veglegri peningagjöf Margaretar og Bents 25. september árið 2001. Árið 2007 bættu þau hjón um betur og lögðu til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Sjóðurinn er einn þriggja sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hafa Margaret og Bent Scheving Thorsteinsson gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.
 
Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og í stjórn sjóðsins sitja Brynhildur G. Flóvenz, dósent við Lagadeild, en hún er jafnframt formaður stjórnar, Hanna Björg Sigurjónsdóttir, prófessor í fötlunarfræðum við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild, og Gunnar E. Finnbogason, prófessor í kennslufræði, námskrárfræði og siðfræði á Menntavísindasviði.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is