Háskóli Íslands

Peningagjöf til Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur

Þann 25. janúar sl. afhenti Jón Sigvaldason Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur gjafabréf að upphæð 100 þúsund krónur. Gjöfin er til minningar um eigikonu hans, Mary Alberty Sigurjónsdóttur heilsuverndarhjúkrunarkonu. Sóley Bender, formaður sjóðsins, tók við gjöfinni en hún er jafnframt formaður Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands.

Mary Alberty lauk námi frá Hjúkrunarskóla Íslands vorið 1952. Að loknu námi vorið 1952 hóf hún störf við hjúkrun á Landspítalanum. Árin 1955-1956 vann hún á ýmsum sjúkrahúsum í Svíþjóð. Veturinn 1957 til 1958 fór Mary í framhaldsnám í heilsuvernd við Statens helsesösterskola í Osló. Að námi loknu vann hún aðallega sem skólahjúkrunarkona á vegum Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.

Það starf var í mikilli mótun á þessum árum og kom sérnámið sér vel. Mary vann meðal annars  í Breiðagerðisskóla, Lækjarskóla, Hlíðaskóla og Öskjuhlíðarskóla. Mary Alberty fæddist 20. mars 1930 en lést þann 3. ágúst 2009.

Tilgangur og markmið Rannsóknasjóðs Ingibjargar R. Magnúsdóttur er að efla rannsóknir í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði. Styrkir eru veittir til hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi vegna rannsóknarverkefna sem falla að markmiðum sjóðsins.

Sjóðurinn var stofnaður 29. júní 2007 af Ingibjörgu R. Magnúsdóttur og Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands. Ingibjörg er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskólann og fyrrverandi skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún hefur verið einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.

Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti t.d. vegna árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort til styrktar sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0513-26-004057. Kennitala styrktarsjóða HÍ er: 571292-3199.

Frekari upplýsingar veitir Helga Garðarsdóttir, verkefnisstjóri Rannsóknastofnunar í hjúkrunarfræði, sími 525 5820, helgagar@hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is