Háskóli Íslands

Rannsaka fjöllyfjameðferð, krabbamein og hjartasjúkdóma

Doktorsnemarnir Freyja Jónsdóttir, Kristrún Ýr Holm og Oddný Björgvinsdóttir, sem starfa við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala við Háskóla Íslands. Rannsóknir þeirra snúa að fjöllyfjameðferð og lyfjatengdum skaða, bættri greiningu á brjóstakrabbameini og rannsóknum á gervi-utanfrumuvef til notkunar í hjarta- og æðalækningatækjum.
 
Þetta er í fimmtánda sinn sem veittar eru viðurkenningar úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum. Heildarupphæð styrksins er 1.200.000 krónur og fær því hver styrkhafi 400.000 krónur.
 
Verkefni Freyju Jónsdóttur gengur út á að framkvæma faraldsfræðirannsókn á fjöllyfjameðferð, viðeigandi lyfjameðferð, áhættuþáttum og afdrifum í kjölfar innlagnar á spítala. Einnig verður notað spálíkan til að meta líkur á lyfjatengdum skaða í kjölfar innlagnar. Niðurstöðurnar munu nýtast til að varpa ljósi á fjöllyfjameðferð, hvort lyfjameðferð sé viðeigandi og umfang lyfjatengds skaða í kjölfar innlagnar. Átak Alþjóða-heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO), sem kallast „Lyf án skaða,“ hefur vakið athygli á mikilvægi lyfjatengds skaða sem alþjóðlegri lýðheilsuvá. Einn af þeim þáttum sem taldir eru skipta mestu máli er fjöllyfjameðferð, sem felur í sér notkun margra lyfjaflokka samtímis. Með hækkandi meðalaldurs hjá þjóðum heims fjölgar þeim sem eru með langvinna sjúkdóma og glíma við fjölveikindi. Þetta leiðir til þess að nýta þarf í auknum mæli fjöllyfjameðferð og felur það í sér aukna hættu á lyfjatengdum skaða. 
 
Leiðbeinendur Freyju eru Martin Ingi Sigurðsson, prófessor við Læknadeild og svæfingar- og gjörgæslulæknir, og Anna Bryndís Blöndal, lektor við Lyfjafræðideild og lyfjafræðingur. Auk þeirra sitja í doktorsnefndinni Aðalsteinn Guðmundsson, öldrunarlæknir og klínískur dósent við Læknadeild, Ian Bates, lyfjafræðingur og prófessor við University College London, Jennifer Stevenson, lyfjafræðingur og dósent við King‘s College, auk Elínar Soffíu Ólafsdóttur, prófessors við Lyfjafræðideild og lyfjafræðings.
 
Freyja útskrifaðist sem lyfjafræðingur frá Háskóla Íslands 2006. Hún lagði stund á meistaranám í klínískri lyfjafræði við University College London School of Pharmacy og útskrifaðist þaðan 2013. Freyja hefur starfað á Landspítala frá útskrift 2006 og einnig við kennslu og rannsóknir við Lyfjafræðideild frá 2016. Hún hóf doktorsnám í lyfjafræði við Háskóla Íslands í upphafi árs 2021.
 
Doktorsverkefni Kristrúnar Ýrar Holm  gengur út á að bera kennsl á ný lífmerki í blóðvökva sem geta bætt greiningu brjóstakrabbameina á fyrstu stigum með meiri áreiðanleika en núverandi skimun með brjóstamyndatöku. Röntgenmyndataka af brjóstum er algengasta skimunaraðferðin sem notuð er í dag en sú aðferð hefur sín takmörk. Æxli á byrjunarstigi eru gjarnan illsjáanleg á röntgenmyndum. Einnig getur reynst erfitt að greina æxli kvenna með þéttan brjóstvef, eins og hjá ungum konum. Ávinningur af brjóstamyndatöku getur því verið lítill fyrir konur sem eru í meiri áhættu að greinast ungar með brjóstakrabbamein, eins og þær sem eru með arfgenga BRCA1- eða BRCA2-stökkbreytingu. Verkefnið felst í rannsóknum á smásameinda- og próteinsamsetningu blóðvökvasýna frá vel skilgreindu íslensku rannsóknaþýði þar sem nýttar eru massagreiningaraðferðir til að bera kennsl á sjúkdómseinkennandi lífmerki. Þannig er ætlunin að þróa bætta greiningaraðferð fyrir brjóstakrabbamein á byrjunarstigi. Slík greiningaraðferð myndi nýtast til að fylgjast reglulega með einstaklingum, einkum þeim sem eru í aukinni áhættu á að fá brjóstakrabbamein, eins og BRCA1- og BRCA2-arfberum.
 
Leiðbeinendur Kristrúnar Ýrar eru Margrét Þorsteinsdóttir, prófessor við Lyfjafræðideild, og Sigríður Klara Böðvarsdóttir, forstöðumaður Lífvísindaseturs. Meðleiðbeinandi er Zoltan Takats, prófessor við Imperial College í London. Auk þeirra sitja í doktorsnefndinni Stefán Þ. Sigurðsson, dósent við Læknadeild, Margrét Helga Ögmundsdóttir, dósent við Læknadeild, og Óttar Rolfsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands.
 
Kristrún Ýr lauk BS-prófi í lífefna- og sameindalíffræði frá Háskóla Íslands árið 2018 og MS-prófi í líf- og læknavísindum frá sama skóla árið 2020. Hún hóf doktorsnám í heilbrigðisvísindum við Lyfjafræðideild í ársbyrjun 2021.
 
Oddný Björgvinsdóttir vinnur að rannsóknum á gervi-utanfrumuvef til notkunar í hjarta- og æðalækningatækjum. Hjarta- og æðasjúkdómar eru meðal algengustu sjúkdóma á heimsvísu og hluti þeirra sem greinast endar með hjartabilun á lokastigi. Þessi hjartabilun er ekki læknanleg nema með hjarta úr líffæragjöf en þar sem gjafahjörtu eru ekki á hverju strái er notast við hjartadælu á meðan beðið er eftir gjafahjarta. Þó að núverandi dælur gegni hlutverki sínu og geti sinnt blóðdælingu á viðunandi hátt hafa þær oft alvarlegar aukaverkanir í för með sér sem orsakast af beinni snertingu blóðs við dæluna sjálfa. Þessi beina snerting veldur auknum líkum á blóðstorknun og þar af leiðandi auknum líkum á blóðtappa. Blóðþynningarlyf sem gefin eru til að minnka blóðstorknun valda svo auknum líkum á blæðingum sem erfitt getur verið að stöðva. Í rannsóknarverkefni Oddnýjar er gervi-utanfrumuvefur notaður sem lausn við blóðstorknun í hjartadælum. Þessi vefur líkir eftir náttúrulegum utanfrumuvef í strúktúr og mekanískum eiginleikum en hefur að auki innbyggða lyfjagöf með bólguhemjandi lyfjum. Slíkur  vefur getur komið í veg fyrir helstu og alvarlegustu aukaverkanir sem hjartadælur geta valdið. 
 
Leiðbeinendur Oddnýjar eru Bergþóra Sigríður Snorradóttir, lektor við Lyfjafræðideild, og Þórarinn Guðjónsson, prófessor við læknadeild. Auk þeirra sitja í doktorsnefndinni Már Másson, prófessor við Lyfjafræðideild, Stephen Ferguson, prófessor í lífaflfræði við ETH Zürich í Sviss, og Karin Wüerz-Kozak, lyfjafræðingur og prófessor við Rochester Institute of Technology í Bandaríkjunum. 
 
Oddný lauk meistaraprófi í heilbrigðisverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík árið 2014 en stundaði þar einnig grunnnám í sömu grein. Hún stundar nú doktorsnám í lyfjavísindum við Háskóla Íslands.
 
Um styrktarsjóðinn
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
 
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem veitir verðlaun fyrir ýmis störf á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem styður rannsóknir á einelti.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is