Háskóli Íslands

Rannsakar konunglegar rannsóknarnefndir á 18. öld

Veittur hefur verið styrkur úr Sagnfræðisjóði Björns Þorsteinssonar við Háskóla Íslands. Styrkhafi er Matthías Aron Ólafsson, sérfræðingur á Handritasafni Landsbókasafns Íslands, en hann er á leið í doktorsnám í sagnfræði við Trinity College í Dublin næsta haust. Heildarstyrkupphæð er 400.000 krónur.  

Tilgangur sjóðsins er að styrkja framhaldsnema í sagnfræði til náms og kandídata í sömu grein til að rannsaka og vinna að ritum um sérstök efni sem varða sögu Íslands eða nátengt efni. 

Matthías Aron mun rannsaka konunglegar danskar rannsóknarnefndir sem vettvang evrópskrar ríkismyndunar á 18. öld með því að skoða ólíka notkun þeirra og orsakatengsl við bænaskrár. Ásamt því að varpa ljósi á lykilstjórntæki evrópsks einveldis á umræddu tímabili er markmið rannsóknarinnar einna helst að kanna hvernig slíkar nefndir voru virkjaðar og nýttar af mismunandi þjóðfélagshópum sem vettvangur til að „semja“ um stöðu sína í ólíku laga- og menningarumhverfi. 

Frá upptöku einveldis árið 1660 og fram yfir 18. öld voru engin fulltrúaþing innan hins danska Aldinborgararíkis. Það þýddi að bæði bænaskrár og rannsóknarnefndir voru gríðarlega mikilvæg stjórntæki í hvers kyns samningaviðræðum við þegna. Aftur á móti eru vísbendingar um að þegnar hafi sjálfir getað myndað sterka samningsstöðu þar gagnvart hinu miðstýrða ríki og öðrum hópum en það er  einn helsti útgangspunktur rannsóknarinnar. Slíkar nefndir hafa lítið verið rannsakaðar en segja má að vinnuskjöl þeirra myndi ákveðinn þverskurð af samfélagi fortíðarinnar. Þannig verður í rannsókninni dregin upp einstök mynd af litrófi ólíkra þjóðfélagshópa á stöðum eins og Borgundarhólmi, Íslandi og Dönsku Vestur-Indíum.

Um sjóðinn
Sagnfræðisjóður Björns Þorsteinssonar var stofnaður árið 1986 af Guðrúnu Guðmundsdóttur, ekkju dr. Björns Þorsteinssonar, og dóttur þeirra, Valgerði Björnsdóttur.

Björn Þorsteinsson fæddist 20. mars 1918 og lést 6. október 1986. Hann starfaði við kennslu í gagnfræða- og menntaskólum og Háskóla Íslands. Eftir hann liggja fjölmargar bækur og greinar um Íslandssögu sem allar eiga það sammerkt að vera áhugaverðar og vandvirknislega skrifaðar. Meðal verka Björns má nefna: Íslenzka þjóðveldið (1953), Íslenzka skattlandið (1956), Ævintýri Marcellusar Skálholtsbiskups (1965), Ný Íslandssaga (1966), Enskar heimildir um sögu Íslands á 15. og 16. öld (1969), Enska öldin í sögu Íslands (doktorsritgerð 1970), Tíu þorskastríð 1415-1976 (1976), Íslenzk miðaldasaga (1978), Á fornum slóðum og nýjum (ritgerðasafn 1978) og Island (1985). Auk þess liggja eftir Björn útgáfur á verkum annarra, Íslendingasögum og ljóðum. Þá hafði hann forgöngu um útgáfu heimildasafna og gaf m.a. út eitt bindi af Íslenzku fornbréfasafni (XVI 1952-59). Björn var forseti Sögufélagsins og ritstjóri tímarits þess, Sögu, um margra ára skeið. Einnig hafði hann forystu um stofnun annarra félaga og naut sín hvað best sem brautryðjandi og leiðtogi á meðal samstarfsmanna.

Sjóðurinn starfar samkvæmt staðfestri skipulagsskrá. Stjórn sjóðsins skipa Sverrir Jakobsson, prófessor og formaður stjórnar, Unnur Birna Karlsdóttir, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Austurlandi, og Guðmundur Jónsson prófessor.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is