Háskóli Íslands

Rannsóknir á fjölmenningu og skapandi hugsun hlutu styrk

Tvö doktorsverkefni sem snúa að fjölmenningu og virkri og skapandi hugsun hljóta styrk úr Sjóði Steingríms Arasonar í ár. Styrkjum var úthlutað við hátíðlega athöfn í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands fimmtudaginn 10. júní síðastliðinn, en þetta var í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum.
 
Sjóðurinn styrkir sérfræðinga og nemendur í framhaldsnámi á sviði menntavísinda. Við mat á styrkumsóknum var sérstaklega horft til rannsókna sem fela í sér nýsköpun þekkingar og þróunarverkefna sem efla fræðilegt framlag til menntunar- og kennslufræða, samkvæmt stofnskrá sjóðsins. Samanlögð styrkfjárhæð var ein milljón króna.
 
Björn Rúnar Egilsson, doktorsnemi í menntavísindum við Háskóla Íslands, hlýtur styrk til að skoða flutning barna með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn frá leikskóla yfir í grunnskóla og tengslin á milli þessara skólastiga. Vísindalegt gildi rannsóknarinnar felst í öflun nýrrar þekkingar en lítið er vitað um viðhorf foreldra barna með fjölbreyttan menningarbakgrunn til þeirra þátta sem skoðaðir eru í rannsókninni. Í umsögn dómnefndar segir m.a. að verkefnið gagnist viðkvæmum hópi barna í samfélaginu og stuðli að farsælu upphafi skólagöngu í grunnskóla. Björn hóf doktorsnám við skólann árið 2017. Aðalleiðbeinandi hans er Jóhanna Einarsdóttir, prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði, og meðleiðandi hans er Sue Dockett, prófessor emeritus við Charles Sturt University í Ástralíu.
 
Jóhann Björnsson, doktorsnemi í menntavísindum við Háskóla Íslands, hlýtur styrk til að kanna þátt virkrar, gagnrýninnar og skapandi hugsunar í menntun barna og unglinga. Slík hugsun á erindi í allar námsgreinar sem liður í að efla djúpnám og koma til móts við menntakröfur 21. aldarinnar þar sem ungt fólk þarf að geta brugðist skynsamlega við og greint allt það upplýsingaflæði sem berst okkur á degi hverjum. Í umsögn dómnefndar segir: „Hagnýt rannsókn sem kannar þátt gagnrýninnar og skapandi hugsunar í menntun barna. Vísindalegt gildi rannsóknarinnar felst fyrst og fremst í því að skoða hver reynslan er af kennslu slíkrar hugsunar og í hverju ávinningurinn er fólginn.“ Jóhann hóf doktorsnám við skólann árið 2016. Aðalleiðbeinandi hans er Atli Harðarson, dósent við Deild faggreinakennslu, og meðleiðbeinendur eru Hanna Ragnarsdóttir, prófessor við Deild menntunar og margbreytileika og Björn Þorsteinsson, prófessor við Hugvísindasvið.
 
Í dómnefnd vegna úthlutunarinnar sátu þau Friðgeir Börkur Hansen, prófessor við Deild kennslu- og menntunarfræði, Kristín Erla Harðardóttir, forstöðumaður Menntavísindastofnunar, og Ingunn Eyþórsdóttir, markaðsstjóri Menntavísindasviðs Háskóla Íslands.
 
Stjórn Menntavísindasviðs fer með stjórn sjóðsins.
 
Um sjóðinn
Sjóður Steingríms Arasonar hét áður Columbia-sjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939. Steingrímur (1879-1951) lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Steingrímur starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalstarf hans var við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is