Háskóli Íslands

Rannsóknir um ljósleiðni málmyfirborðs og nýja tækni til smásjárskoðunar hljóta styrk úr sjóði Selmu og Kays Langvads við Háskóla Íslands

Tvö rannsóknarverkefni í samstarfi íslenskra og danskra vísindamanna hljóta styrk úr sjóði Selmu og Kays Langvads við Háskóla Íslands árið 2006 að fjárhæð 100.000 þúsund danskra króna. Af hálfu Háskóla Íslands hafa umsjón með verkefnunum dr. Hafliði Pétur Gíslason og dr. Kristján Leósson en auk þeirra koma að verkefnunum sérfræðingar eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar Háskóla Íslands, læknadeildar, raunvísindadeildar, Krabbameinsfélags Íslands, Tækniháskólans í Danmörku, auk háskólanna í Álaborg og Óðinsvéum og danskra sprotafyrirtækja, ásamt meistara- og doktorsnemum við háskólana.

Annað verkefnið er í samvinnu við örljósatæknideild COM-DTU stofnunarinnar við danska tækniháskólann (Danmarks Tekniske Universitet) og snýr að mælingum á ljósleiðararásum. Framleiðsla ljósleiðararása mun fara fram í örtæknikjarna Háskóla Íslands og ljósmælingar fara fram á Raunvísindastofnun HÍ. Doktorsnemar við Háskóla Íslands starfa að verkefninu og munu þeir meðal annars dvelja í Danmörku til að sækja námskeið og nýta sér frekari tækjakost til ljósmælinga. Verkefnið er hluti af viðameira samvinnuverkefni um ljósleiðni á málmyfirborðum sem að koma háskólarnir í Álaborg og Odense, auk DTU og Háskóla Íslands.

Hitt verkefnið er í samstarfi við sprotafyrirtækið Lumiscence A/S sem þróað hefur nýja tækni til smásjárskoðunar, m.a. á lifandi frumum. Lumiscence framleiðir örflögur og lýsingarbúnað til greiningar á starfsemi við yfirborð frumu, s.s. efnaflutning gegnum frumuhimnu. Við Háskólann verða gerðar tilraunir með frumuræktun og litun á örflögunum og niðurstöður bornar saman við staðlaðar greiningaraðferðir. Meistaranemi í læknadeild vinnur að verkefninu ásamt vísindamönnum og sérfræðingum á eðlisfræðistofu Raunvísindastofnunar HÍ og læknadeildar HÍ, sem og rannsóknastofu Krabbameinsfélags Íslands.

Sjóður Selmu og Kays Langvads var stofnaður með peningagjöf hjónanna Selmu, fæddrar Guðjohnsen, og Kays Langvads verkfræðings til Háskóla Íslands árið 1964. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur. Í því skyni veitir sjóðurinn styrki úr sjóðnum til námsdvalar fyrir Íslendinga í Danmörku og Dani á Íslandi. Að jafnaði hefur verið veitt árlega úr sjóðnum og hafa íslenskir og danskir vísindamenn notið styrkja til verkefna við rannsóknastofnanir hérlendis og í Danmörku.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is