Háskóli Íslands

Samstarf HÍ við danskar stofnanir eflt

Aukin tengsl Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ við danska háskóla

Guðmundur Freyr Úlfarsson, prófessor í samgönguverkfræði, hefur hlotið styrk úr sjóði Selmu og Kays Langvads. Stjórn sjóðsins afhenti styrkinn í dag á skrifstofu rektors, mánudaginn 13. september. Styrkurinn er veittur til að efla samskipti og rannsóknasamstarf Háskóla Íslands við danskar stofnanir og háskóla. Stjórn sjóðsins ákvað að veita styrkinn til ungs og upprennandi vísindamanns á sviði verkfræði við Háskóla Íslands, sem hefur í hyggju að efla tengsl við danskar menntastofnanir.

Styrkurinn hljóðar upp á 70 þúsund danskar krónur sem samsvara tæplega einni og hálfri milljón íslenskra króna.

Guðmundur hefur sérhæft sig í tölfræðilegum rannsóknum á umferðaröryggi og ferðavenjum, auk hagrannsókna sem tengjast samgöngum. Nýlegar rannsóknir Guðmundar hafa beinst að tengslum heilsu við umferðaröryggi. T.d. hafa rannsóknir hans sýnt fram á mikla slysatíðni hjá ökumönnum með vissa sjúkdóma í mörg ár áður en þeir voru metnir ófærir um akstur.

Guðmundur Freyr Úlfarsson er prófessor og varadeildarforseti Umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands. Hann lauk BS-prófi í eðlisfræði og BS-prófi í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands. Guðmundur útskrifaðist frá University of Washington í Seattle í Bandaríkjunum með MS- og doktorspróf í samgönguverkfræði.

Guðmundur kennir námskeið á sviðum samgönguverkfræði og landfræðilegra upplýsingakerfa, auk þess sem hann leiðbeinir nemendum í meistara- og doktorsnámi. Guðmundur hefur birt fjölda vísindagreina um rannsóknir sínar, veitt álit og haldið erindi um samgöngumál. Guðmundur mun hagnýta styrkinn til að efla rannsóknasamstarf á milli Íslands og Danmerkur á sviðum samgangna og skipulags, sér í lagi við Danmarks Tekniske Universitet Institut for Transport, m.a. með rannsóknardvöl við þá stofnun.

Sjóðurinn Selma og Kay Langvads Legat til udvikling af den kulturelle forbindelse mellem Island og Danmark var stofnaður með peningagjöf hjónanna Selmu, fæddrar Guðjohnsen, og Kays Langvads, verkfræðings við Háskóla Íslands, árið 1964. Tilgangur sjóðsins er að efla menningarleg tengsl Íslands og Danmerkur.

Í stjórn sjóðsins sitja Sören Langvad, sonur Selmu og Kays Langvads, Hafliði Pétur Gíslason, prófessor í eðlisfræði og Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands.

Frekari upplýsingar veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri styrktarsjóða og hollvina Háskóla Íslands, í síma 525 5894, helgab@hi.is.

Háskóli Íslands, Reykjavík 13. september 2010.

Myndatexti: Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, afhendir Guðmundi Frey Úlafssyni styrkinn.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is