Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema á Hugvísindasviði

Þrír styrkir voru veittir til doktorsnema úr Menntasjóði Hugvísindasviðs vorið 2021. Styrkhafar voru Dalrún J. Eygerðardóttir, doktorsnemi í sagnfræði við Sagnfræði- og heimspekideild, Elin Ahlin Sundman, doktorsnemi í fornleifafræði við Sagnfræði- og heimspekideild og Zachary Jordan Melton, doktorsnemi í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild. Hvert þeirra hlaut styrk að upphæð 700.000 krónur til að leggja lokahönd á doktorsverkefni sitt.
 
Þetta var í þriðja sem veittur er styrkur úr Menntasjóði Hugvísindasviðs en markmið hans er að styrkja doktorsnema við deildir Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, einkum þá sem eru á lokastigum náms.
 
Doktorsverkefni Dalrúnar J. Eygerðardóttur, „Huldufreyjur. Ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar“, byggist á sögu ráðskvenna sem störfuðu á íslenskum sveitaheimilum á síðari hluta 20. aldar. Rannsóknin grundvallast á viðtölum sem tekin voru við fjörutíu og eina fyrrum ráðskonu í sveit; konur sem margar hverjar höfðu starfað sem ráðskonur á tveimur eða fleiri bæjum, alls á 72 sveitabæjum. Viðtölin gera kleift að segja sögu ráðskvenna á grunni sjónarhorns þeirra sjálfra. Í rannsókninni er rakið hvaða störf ráðskonur höfðu með höndum á sveitaheimilum og viðhorf þeirra til verkskyldna sinna. Aukinheldur er fjallað um félagslega stöðu ráðskvenna, bæði með hliðsjón af stöðu þeirra áður en þær hófu störf sem ráðskonur og einnig frá ráðskonutíð þeirra. Í því sambandi er sjónum sérstaklega beint að stöðu einstæðra mæðra, sem voru stærsti einstaki hópur kvenna sem sinnti ráðskonustarfinu. Þar að auki er fjallað um takmörkuð réttindi ráðskvenna í vistinni, á starfsvettvangi þeirra, sveitaheimilinu.
 
Dalrún Kaldakvísl Eygerðardóttir er með BA-gráðu í sagnfræði og BA-gráðu í kvikmyndafræði frá Háskóla Íslands. Hún er einnig með meistaragráðu í sagnfræði frá sama skóla. Dalrún er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur, auk þess sem hún vinnur við fiskirannsóknir hjá rannsóknarfyrirtækinu Laxfiskum. Hún hefur gefið út eina fræðibók.
 
Doktorsverkefni Elinar Ahlin Sundman, „Medieval masculinities and Bodies. Studies of gender relations based on the analysis of human skeletal remains from the monastic burial grounds at Skriðuklaustur, Iceland, and Västeräs, Sweden“, er rannsóknarverkefni þar sem karlmennska er rannsökuð með greiningu á mannabeinum 470 einstaklinga. Sem form iðkunar getur karlmennska í sumum tilfellum skilið eftir sig spor á líkama og beinagrind. Í þessu tilliti voru til rannsóknar þættir eins og mataræði, ofbeldi, útlit og starfsemi.
 
Elin Ahlin Sundman lauk meistaraprófi í beinafornleifafræði frá Stokkhólmsháskóla. Hún hefur kennt mannabeinafornleifafræði við Háskóla Íslands og starfar sem safnkennari við Sögusafn Svíþjóðar (Historiska museet).
 
Í doktorsverkefni Zacharys Jordans Melton, „An Excuse for Violence. Gender, Race and the Evolution of the Vikings in American Popular Culture“, er fjallað um hvernig bandarísk hugmyndafræði, fordómar og menning hafa haft áhrif á almennan skilning á norrænum fornbókmenntum og ímynd víkinga. Kynþáttur, kyn, siðmenning og forlög Norður-Ameríku hafa verið hluti af ímynd víkinga í Bandaríkjunum síðan á 19. öld. Í ritgerðinni er gert grein fyrir því hvernig upphaf þessara tenginga átti sér stað, ásamt því að innkoma og þróun þeirra er greind í kvikmyndum og bókmenntum 20. og 21. aldarinnar. Með því að rekja þessar hugmyndir í gegnum bandaríska bókmenntasögu er betur hægt að átta sig á því hvers vegna víkingurinn varð að tákni fyrir ofbeldisfulla hvíta karlmenn.
 
Zachary er með BA-gráðu í ensku frá Indiana Wesleyan háskólanum í Bandaríkjunum, MA-skírteini í víkingafræðum frá Highlands and Islands háskólanum í Skotlandi og MA-gráðu í Viking and Medieval Norse Studies frá Háskóla Íslands.
 

Um sjóðinn

Menntasjóður Hugvísindasviðs Háskóla Íslands var stofnaður árið 2018 og byggist á safni sjóða sem tengjast fræðigreinum innan sviðsins. Markmið sjóðsins að styðja við doktorsnám á sviðinu og þá einkum þá sem eru á lokastigum náms. Sjóðirnir sem mynda Menntasjóðinn eru: Det Danske Selskabs Studenterlegat (1943), Forlagsboghandler, Dr. Phil. h.c. Ejnar Munkgaards Stiftelse til Fordel for Det filosofiske Fakultet ved Islands Universitet i Reykjavik (1938), Minningarsjóður dr. Rögnvalds Péturssonar (1960), Minningarsjóður norskra stúdenta (1948), Norðmannsgjöf (1961) og Sögusjóður stúdenta (1930).
 
Samkvæmt stofnskrá sjóðsins er stjórn hans skipuð forsetum deilda Hugvísindasviðs (Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, Íslensku- og menningardeildar, Mála- og menningardeildar og Sagnfræði- og heimspekideildar), en sviðsforseti er formaður stjórnar. Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 
Nánari upplýsingar um úthlutunina, sjóðinn og aðra sjóði í vörslu styrktarsjóða Háskóla Íslands veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 899 8719.
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is