Auglýst er eftir umsóknum um styrk úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur árið 2024. Um er að ræða styrki til doktorsnema í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og njóta nemendur við Háskóla Íslands forgangs. Heildarupphæð styrkja er allt að 700.000 krónur.
Markmið sjóðsins er að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og verða veittir styrkir til rannsóknaverkefna hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra í doktorsnámi, sem falla að markmiðum sjóðsins.
Umsóknarfrestur um styrki úr sjóðnum er til og með 2. desember 2024.
Rafræn umsóknareyðublöð er að finna á vefsíðu Hjúkrunarfræðideildar og vefsíðu sjóðsins á sjóðavef HÍ.
Val á styrkhöfum er í höndum stjórnarmanna en stjórn sjóðsins skipa Jóhanna Bernharðsdóttir, formaður stjórnar, Stefán Bragi Bjarnason lögfræðingur, fulltrúi Ingibjargar R. Magnúsdóttur, Ólöf Ásta Ólafsdóttir, fulltrúi Ljósmæðrafélags Íslands, Auðna Ágústdóttir, fulltrúi Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, og Dagmar Huld Matthíasdóttir, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins.
Þetta er í sextánda sinn sem styrkur er veittur úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur en sjóðurinn var stofnaður sem einn af Styrktarsjóðum Háskóla Íslands í júlí árið 2007.
Ingibjörg R. Magnúsdóttir, stofnandi sjóðsins, var námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Hún var einn ötulasti talsmaður þróunar hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973.
Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á vefsíðu sjóðsins á sjóðavef Háskóla Íslands.
Hægt er að styrkja sjóðinn með ýmsu móti, t.d. með gjöfum í tilefni árgangaafmæla eða útskriftar. Einnig er hægt að senda minningarkort og tækifæriskort frá sjóðnum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 0596-26-1760. Kennitala Styrktarsjóða HÍ er 571292-3199. Mikilvægt er að merkja greiðsluna nafni sjóðsins.
Frekari upplýsingar um styrki og styrkveitingar veitir Jóhanna Bernharðsdóttir, formaður stjórnar, johannab@hi.is, sími 525-4987/525-4960 og Helga Brá Árnadóttir, verkefnastjóri Styrktarsjóða Háskóla Íslands, helgab@hi.is.