Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema í ljósmóður- og hjúkrunarfræði

Þrír doktorsnemar í ljósmóður- og hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands hlutu í gær styrki úr Rannsóknasjóði Ingibjargar R. Magnúsdóttur. Rannsóknir þeirra snúast um þróun meðferðarúrræða fyrir þolendur kynferðisofbeldis í æsku,fræðslu fyrir skurðsjúklinga og væntingar og upplifun kvenna á sársauka og sársaukameðferð við fæðingu.

Styrkhafarnir eru Brynja Ingadóttir, sérfræðingur í hjúkrun aðgerðasjúklinga við skurðlækningasvið Landspítala – háskólasjúkrahúss og klínískur lektor við Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, Sigfríður Inga Karlsdóttir, ljósmóðir og lektor við Heilbrigðivísindasvið Háskólans á Akureyri, og Sigrún Sigurðardóttir hjúkrunarfræðingur, MS í heilbrigðisvísindum. Heildarupphæð styrkjanna nemur einni milljón króna.

Úthlutunin fór fram í Eirbergi á degi Hjúkrunarfræðideildar. Í tilefni 50 ára útskriftarafmæli árgangs Ingibjargar R. Magnúsdóttur færði árgangurinn sjóðnum að gjöf kr. 150.000. Þetta í fjórða sinn sem úthlutað er úr sjóðnum en hann var stofnaður við Háskóla Íslands í júní árið 2007.

Doktorsrannsókn Brynju Ingadóttur fjallar um sjúklingafræðslu sem leið til að efla sjálfsumönnun skurðsjúklinga. Sjúklingafræðsla verður æ mikilvægari í nútímaheilbrigðisþjónustu og eiga sjúklingar lögbundinn rétt á að fá hana. Hún verður einnig sífellt brýnni þar sem sjúklingum með langvinna sjúkdóma fer fjölgandi og framfarir í tækni og heilbrigðisvísindum hafa orðið miklar á liðnum árum. Sjúkrahúslega hefur styst verulega og þess er vænst að sjúklingar annist sig sjálfir í ríkara mæli en áður. Sjúklingafræðsla er ein af forsendum þess að sjúklingum takist vel upp í þessu hlutverki og getur haft áhrif á árangur meðferðar og líðan sjúklinganna. Kannaðar verða væntingar tveggja sjúklingahópa til fræðslu: gigtarsjúklinga og sjúklinga með hjartabilun. Jafnframt er athugað hvernig komið er til móts við sjúklingana í þessum efnum. Ennfremur eru könnuð viðhorf heilbrigðisstarfsmanna til sjúklingafræðslu og að
lokum er fyrirhugað að gera íhlutunarrannsókn þar sem tölvuleikur verður prófaður sem kennsluaðferð. Verkefnið mun auka þekkingu á fræðslu fyrir skurðsjúklinga og hvernig megi þróa hana til að mæta þörfum sjúklinga og samfélags.

Doktorsrannsókn Sigfríðar Ingu Karlsdóttur fjallar um upplifun kvenna af sársauka og meðferð við honum í fæðingu. Markmið rannsóknarinnar er að varpa ljósi á væntingar og reynslu kvenna af fæðingu, með áherslu á upplifun þeirra af sársauka og meðferð við honum. Rannsóknin er þríþætt. Í
fyrsta hluta rannsóknarinnar voru tekin djúpviðtöl við fjórtán konur um upplifun þeirra af sársauka í fæðingu, um viðhorf þeirra til hans og um upplifun þeirra af meðferð við honum. Í öðrum hluta rannsóknarinnar er gögnum
safnað á landsvísu frá um 1100 barnshafandi konum en markmið þeirrar rannsóknar
er að kanna viðhorf og væntingar kvenna til sársauka og sársaukameðferðar í fæðingu. Í þriðja hluta rannsóknarinnar verður gögnum safnað aftur frá sömu konum og tóku þátt í öðrum hluta rannsóknarinnar, eftir fæðinguna, um reynslu þeirra af sársauka og meðferð við honum í fæðingunni. Niðurstöður rannsóknarinnar nýtast fagfólki sem annast barnshafandi konur og gefa mikilvægar upplýsingar um upplifun kvenna af því að ganga í gegnum fæðingu, sérstaklega hvað varðar sársauka og meðferð við honum.

Markmið doktorsrannsóknar Sigrúnar Sigurðardóttur er að þróa hugmynd að meðferðarúrræðum fyrir fullorðið fólk sem orðið hefur fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku og glímt við heilsufarsleg og félagsleg vandamál. Hugmyndin að meðferðarúrræðunum mun í fyrsta lagi byggjast á rannsóknum á heilsufari og líðan karla og kvenna sem hafa sætt kynferðislegu ofbeldi í æsku. Jafnframt verður kannað hvaða bjargráð og úrræði hópurinn nýtti sér. Í öðru lagi verður gerð ítarleg kerfisbundin úttekt á stöðu meðferðarúrræða víða um heim fyrir karla og konur sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi í æsku. Verkefnið skiptist í þrjá hluta. Í fyrsta hluta fer fram eigindleg, fyrirbærafræðileg rannsókn, kennd við Vancouver-skólann í fyrirbærafræði. Þar verða viðtöl tekin við sjö karlmenn sem sættu kynferðislegu ofbeldi í æsku. Í öðrum hluta verður tekið viðtal við eina konu sem hefur sams konar reynslu. Í þriðja hluta verkefnisins verður, eins og áður segir, gerð ítarleg og kerfisbundin úttekt á stöðu meðferðarúrræða víða um heim til að geta fært okkur nær því að bjóða viðunandi úrræði og sett verður fram tillaga að slíkum úrræðum til að vinna eftir hér á landi.

Rannsóknasjóður Ingibjargar R. Magnúsdóttur vinnur að því að efla rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum og veitir sjóðurinn styrki til rannsóknaverkefna sem samræmast markmiðum sjóðsins. Ingibjörg R. Magnúsdóttir, hjúkrunarfræðingur og stofnandi sjóðsins, er fyrrverandi námsbrautarstjóri í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ingibjörg hefur verið ötull talsmaður fyrir þróun hjúkrunarmenntunar á Íslandi og var ein þeirra sem stóð að stofnun námsbrautar í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands árið 1973. Rannsóknasjóðurinn er fyrst og fremst styrktur með sölu minningarkorta og gjafafé.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is