Háskóli Íslands

Styrkir til doktorsnema og rannsakenda í menntavísindum

Veittir hafa verið fjórir styrkir til doktorsnema og fræðafólks á Menntavísindasviði Háskóla Íslands úr Sjóði Steingríms Arasonar. Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, afhenti styrkina við hátíðlega athöfn í Stakkahlíð við lok opnunarmálstofu Menntakviku, árlegrar ráðstefnu Menntavísindasviðs. Verkefnin tengjast m.a. bragðlaukaþjálfun í leikskólum, áhrifum bakslags í hinsegin málefnum á hinsegin kennara og fræðslu, áhrifum núvitundar á líðan nemenda og kennara og skrásetningu á sögu myndlistarkennslu. Heildarstyrkupphæð er kr. 1.250.000.

Styrkþegar Sjóðs Steingríms Arasonar eru eru þær Berglind Lilja Guðmundsdóttir doktorsnemi, Auður Magndís Auðardóttir lektor, Íris Ellenberger dósent, og Bryndís Jóna Jónsdóttir aðjunkt og Sandra Rebekka Önnudóttir Arnarsdóttir, doktorsnemi, allar á Menntavísindasviði. Við mat á umsóknum voru markmið sjóðsins höfð til viðmiðunar; að efla og styrkja rannsóknir og nám í menntunar- og kennslufræðum. Verkefnin voru metin út frá markmiðum, fræðilegu nýmæli, hagnýtu gildi, tímaplani og kostnaðaráætlun.  

Berglind Lilja hlýtur styrk fyrir verkefni sitt „Þróun og prófun á námsefni fyrir bragðlaukaþjálfun í leikskólum – byggt á samhönnun með starfsfólki og alþjóðlegu þverfaglegu samstarfi tengdu fæðumiðaðri kennslu“. Að mati dómnefndar hefur verkefnið fræðilegt gildi þar sem verið er að prófa aðferð, sem þegar hefur verið þróuð með eldri aldurshópum, með börnum á leikskólaaldri. Rannsóknin bætir því við takmarkaða þekkingu um vaxtarferla hjá börnum með matvendni. Þá hefur verkefnið hagnýtt gildi því áætlað er að þróa kennslustundir með leikjum með þemum í samstarfi við leikskóla.  
 
Auður Magndís og Íris hljóta styrk fyrir rannsóknarverkefnið „Kennarar í hinsegin bakslagi“. Að mati dómnefndar hefur rannsóknin í senn gildi innan fræðanna og í samfélagslegri umræðu. Markmið rannsóknarinnar er tvíþætt. Annars vegar að skoða með hvaða hætti bakslag í hinsegin málefnum hérlendis mótar tjáningu hinsegin kennara í grunn- og framhaldsskólum. Hins vegar verður leitast við að skoða áhrif á kennsluhætti, inntak hinsegin fræðslu og starfsaðstæður kennara sem sinna hinseginfræðslu í grunn- eða framhaldsskólum hérlendis. 
 
Bryndís Jóna hlýtur styrk fyrir doktorsverkefni sitt „Velfarnaður í skólastarfi – áhrif núvitundarþjálfunar á líðan og félags- og tilfinningafærni nemenda og kennara“. Meginmarkmið rannsóknarinnar er að skoða hvort heildræn innleiðing á núvitund í grunnskóla á Íslandi hafi jákvæð áhrif á líðan og félags- og tilfinningafærni nemenda og kennara. Að mati dómnefndar er mikilvægt að veita ferðastyrk með það að markmiði að spegla rannsóknarhugmyndir í erlendu samhengi.   
 
Sandra Rebekka hlýtur styrk fyrir verkefni sitt „Saga og hugmyndaleg þróun myndlistarkennslu í skyldunámi barna á Íslandi“. Að mati dómnefndar er markmið verkefnis skýrt og mikilvægt að skrásetja sögu myndlistarkennslu. Verkefnið hefur hagnýtt gildi þar sem ætla má að rannsóknarniðurstöðurnar geti nýst myndlistarkennurum, aukið fagvitund þeirra og eflt faglegt starf á vettvangi. Niðurstöður geta einnig nýst við stefnumótun ríkis og sveitarfélaga og einstakra skóla.  

Stjórn Menntavísindasviðs fer með stjórn Sjóðs Steingríms Arasonar og skipaði forseti Menntavísindasviðs dómnefnd sem lagði mat á umsóknir og gerði tillögu að úthlutun. Dómnefnd skipuðu Marta Goðadóttir, samskipta- og markaðsstjóri Menntavísindasviðs, Erlingur Jóhannesson prófessor og Guðrún Ragnarsdóttir dósent, bæði á Menntavísindasviði.

Um sjóðinn
Sjóður Steingríms Arasonar hét áður Columbia-sjóður en hann var stofnaður með peningagjöf Steingríms Arasonar kennara árið 1939. Steingrímur (1879-1951) lauk kennaraprófi frá Flensborgarskóla árið 1908. Hann stundaði háskólanám í uppeldis- og menntunarfræði, fyrstur Íslendinga, við Teachers College í Columbia-háskóla í Bandaríkjunum (1915-1920). Steingrímur starfaði við kennslu barna og unglinga í Eyjafirði og Reykjavík en aðalstarf hans var við Kennaraskólann þar sem hann kenndi í 20 ár.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem ánafnaðar hafa verið Háskóla Íslands allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja við ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta og starfsfólk. Sjóðirnir eru mikil lyftistöng fyrir háskólann, sem hefur notið mikils velvilja af hálfu fjölmargra einstaklinga í gegnum tíðina en þeir hafa af miklum rausnarskap lagt fé í styrktarsjóði sem allir miða að því að efla vísindarannsóknir og afla nýrrar þekkingar, samfélaginu til heilla.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is