Háskóli Íslands

Styrkir til eflingar íslenskri tungu

Styrktarsjóður Áslaugar Hafliðadóttur auglýsir eftir umsóknum um styrki úr sjóðnum.

Markmið og hlutverk sjóðsins er að styrkja málefni sem stuðla að eflingu íslenskrar tungu.

Umsóknarfrestur er til 18. mars 2015.

Styrkir skulu veittir starfsmönnum eða framhaldsnemum við Háskóla Íslands til sérverkefna á vegum skólans á sviði íslenskra fræða er falla að þessu markmiði, s.s. til rannsókna, þróunar, kennslu, þjálfunar, nýmæla eða kaupa á tækjum og búnaði í þágu markmiða sjóðsins. Sérstaklega skal stutt við verkefni er lúta að ritfærni nemenda á öllum fræðasviðum skólans og til að þjálfa þá við að beita íslensku máli. Enn fremur skal stutt við verkefni sem styrkja stöðu íslenskrar tungu í síbreytilegu tækniumhverfi.
Heildarfjárhæð úthlutunar árið 2015 er allt að sjö milljónum króna.

Í umsókn um styrk þurfa eftirtalin atriði að koma fram:
•    Nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, sími og virkt netfang.
•    Helstu atriði úr náms- og starfsferilsskrá umsækjanda.
•    Heiti verkefnis, markmið og vísindalegt gildi.
•    Hnitmiðuð lýsing á verkefninu, að hámarki 150 orð, sem verður nýtt til almennrar umfjöllunar og kynningar, hljóti verkefnið styrk.
•    Veigameiri lýsing á verkefninu, að hámarki ein blaðsíða, þar sem fram kemur lýsing á markmiðinu með verkefninu, framkvæmd þess og mati á afrakstri, ásamt umfjöllun um hvernig verkefnið samrýmist markmiðum sjóðsins.
•    Tímaáætlun og fjárhagsáætlun verkefnis (þ.e. rannsóknaráætlun sem felur m.a. í sér tímaáætlun, fjárhagsáætlun og helstu samstarfsaðila verkefnisins ef við á).
•    Hvernig styrkurinn verður notaður, hljóti verkefnið styrk.
•    Upplýsingar um annan fjárhagslegan stuðning.
•    Nöfn, símanúmer og netföng mögulegra meðmælenda.
    
Hámarkslengd umsóknar skal vera þrjár síður fyrir utan fylgiskjöl. Farið verður með allar umsóknir sem trúnaðarmál. Stjórn sjóðsins áskilur sér rétt til að veita fleiri en einum umsækjanda styrk, hafna öllum og/eða úthluta styrkjum með öðrum hætti.

Áhersla er lögð á vönduð fræðileg vinnubrögð við gerð umsóknar. Gert er ráð fyrir að styrkþegi skili sjóðnum skýrslu með helstu niðurstöðum og árangri af verkefninu þegar því lýkur.

Áætlað er að úthlutun fari fram í apríl 2015 við hátíðlega athöfn.

Umsóknum skal skila sem viðhengi á netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands: sjodir@hi.is.

Sjóðurinn var stofnaður árið 2013 af db. Áslaugar Hafliðadóttur, f. 22. ágúst 1929, d. 21. ágúst 2011, og erfingjum hennar, til minningar um hana og foreldra hennar, þau Sesselju Eiríksdóttur og Hafliða Jón Hafliðason.

Hægt er að styrkja sjóðinn með frjálsum framlögum, t.d. í tilefni brautskráningar eða árgangsafmæla. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Landsbankanum: 0111-26-5712 og merkja innborgunina sjóðnum. Kennitala Styrktarsjóða Háskóla Íslands er 571292-3199.

Frekari upplýsingar er að finna á heimasíðu Háskóla Íslands, www.hi.is, og á sjóðavef Háskóla Íslands, www.sjodir.hi.is. Einnig veitir Helga Brá Árnadóttir, verkefnisstjóri styrktarsjóða og hollvina Háskóla Íslands, helgab@hi.is, sími 525-5894, frekari upplýsingar.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is