Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á einelti

Tvær rannsóknir, sem miða að því að greina bestu aðferðir til að vinna gegn einelti og skoða einelti út frá viðhorfum nemenda og kennara, hafa hlotið styrki úr Styrktarsjóði Margaretar og Bents Schevings Thorsteinsonar við Háskóla Íslands.  Styrkhafar eru Vanda Sigurgeirsdóttir, doktorsnemi við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands, og Anna Margrét Magnúsdóttir, meistaranemi í uppeldis- og menntunarsálfræði við Árósaháskóla. Heildarupphæð styrksins nemur 800.000 krónum.  

Í doktorsrannsókn Vöndu Sigurgeirsdóttur verður leitast við að fá fram hvaða aðferðir skila bestum árangri í forvörnum og viðbrögðum við einelti. Á Íslandi hefur náðst ákveðinn árangur í þeirri baráttu en þó eru enn of mörg börn sem daglega þurfa að kljást við einelti og alvarlegar afleiðingar þess. Því þarf að endurskoða, þróa og bæta þær aðferðir sem notaðar eru með það að markmiði að stuðla að eineltislausum bekkjum í grunnskólum landsins.  Verður þetta gert með því að nota gögn úr rannsókninni Heilsa og lífskjör skólanema (HBSC) ásamt spurningalistum og viðtölum við börn, foreldra, kennara og skólastjórnendur. Vonir standa til að rannsóknarniðurstöður leiði af sér hagnýtar leiðir og verkfæri fyrir kennara, skólastjórnendur, börn og foreldra. Vanda lauk meistaranámi í uppeldis- og kennslufræði frá Kennaraháskóla Íslands árið 2003 og leggur nú stund á doktorsnám við Félagsráðgjafadeild Háskóla Íslands. Vinna við rannsóknina hófst árið 2013 og er unnin í samstarfi við Þórodd Bjarnason og Ársæl Arnarson við Háskólann á Akureyri. Vænta má fyrstu niðurstaðna fljótlega. Leiðbeinandi Vöndu er Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafadeild.

Meginmarkmið rannsóknarverkefnis Önnu Margrétar Magnúsdóttur er að skoða fyrirbærið einelti út frá viðhorfum nemenda og kennara og kanna hvort þátttaka þeirra í náms- og starfssamfélögum (communites of practice) geti haft áhrif á þessi viðhorf og þann skilning sem þau leggja í fyrirbærið. Einnig er skoðað hvort/hvernig þessi viðhorf hafi áhrif á það hvernig tekist er á við einelti í skólasamfélaginu. Litið er til nýjustu þverfaglegra rannsókna og kenninga um einelti í skólum þar sem gagnrýndur er sá skilningur að orsaka eineltis sé m.a. að leita í persónuleika barna þar sem um valdaójafnvægi milli þeirra sé að ræða. Stuðst er við þá nýju sýn að einelti sé félags- og menningarlega flókið fyrirbæri þar sem margir kraftar geta legið að baki. Horft er til félagslegra þátta í lífi barna og þeirra síbreytilegu krafta sem oft einkenna samskipti þeirra.  Rannsóknargögn verða skoðuð og greind út frá félagslegum námskenningum (social practice theories), kenningum um aðstæðubundið nám (situated learning) og út frá hugmyndum Michaels Foucault um orðræðugreiningu. Anna Margrét lauk B.Ed. frá Kennaraháskóla Íslands árið 2004 og hóf meistaranám við Árósaháskóla árið 2010. Leiðbeinandi Önnu Margrétar er Helle Rabøl Hansen lektor.

Á undanförnum árum hefur einelti og afleiðingar þess, ekki síst meðal skólabarna, verið töluvert til umfjöllunar í samfélaginu. Markmið Styrkarsjóðs Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar er að standa fyrir rannsóknum á einelti og kanna allar lagalegar og siðferðilegar leiðir til að fyrirbyggja einelti og bæta fyrir afleiðingar þess.

Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar var stofnaður með veglegri peningagjöf 25. september árið 2001 en árið 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Sjóðurinn er einn þriggja sem Bent Scheving Thorsteinsson hefur stofnað við Háskóla Íslands. Hinir tveir sjóðirnir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis og fósturföður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði barnalækninga, og Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Scheving Thorsteinssonar, föður Bents, sem styrkir rannsóknir á sviði lyfjafræði. Með stofnun þessara þriggja sjóða hefur Bent Scheving  Thorsteinsson gefið háskólanum samtals 60 milljónir króna.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
 

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is