Doktorsnemarnir Suppakan Sripetch og Ellen Kalesi Gondwe Mhango, sem starfa við Lyfjafræðideild Háskóla Íslands, hafa hlotið viðurkenningu úr Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala við Háskóla Íslands. Rannsóknir þeirra snúa að meðferð við heilahimnubólgu af völdum malaríu og nýrri tækni við lyfjameðhöndlun á sjúkdómum í sjónhimnu sem felst í notkun lyfjaferja í stað sprautunála.
Þetta er í fjórtánda sinn sem veittar eru viðurkenningar úr sjóðnum fyrir framúrskarandi rannsóknir í lyfjafræði og/eða lyfjavísindum. Heildarupphæð styrksins er 700.000 krónur og fær því hvor styrkhafi 350.000 krónur.
Verkefni Ellen K.G. Mhango gengur út á að þróa nýtt lyfjaform fyrir börn sem inniheldur tvö malaríulyf, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur mikla áherslu á að bæði lyfin séu notuð saman vegna hættu sem stafar af ónæmum malaríusníklum. Markmiðið er ekki síst að útbúa einfalt og auðvelt lyfjaform, sem jafnvel aðstandendur geta notað, þegar barn yngra en fimm ára smitast af þessum skæða sjúkdómi sem leggur tvö börn að velli á þriggja mínútna fresti. Lyfin sem unnið er með eru mjög torleyst og því hefur þurft að leggja mikla áherslu á að rannsaka leiðir til að leysa þau upp svo þau nýtist í neyðartilfellum, eins og þegar börn fá heilahimnubólgu af völdum malaríu. Ellen hefur unnið með svokallað klysma en það er lyfjaform sem ætlað er í endaþarm en slíkt lyfjaform er ekki á markaði í dag við þessum sjúkdómi. Vonir standa til að hægt verði að útbúa lyfið á þann hátt að foreldrar, aðstandendur eða hjúkrunarfólk á litlum heilsugæslum í fátækum héruðum Afríku geti hafið meðferð strax.
Leiðbeinandi Ellen er Sveinbjörn Gizurarson, prófessor í lyfjafræði, ásamt Bergþóru S. Snorradóttur, lektor í sömu grein, og Benjamín Ragnari Sveinbjörnssyni, lektor í efnafræði. Auk þeirra sitja í doktorsnefndinni Baxter H. Kachingwe, kennari við Kamuzu University of Health Sciences í Malaví, og Peter E. Olumese, sviðsstjóri við malaríudeild Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar.
Ellen lauk diplómu í lyfjafræði við Malawi College of Health Sciences árið 2004 en á þeim tíma var lyfjafræðinám ekki í boði í Malaví. BS-námi í greininni lauk hún frá Háskólanum í Malaví árið 2012 og MS-námi frá University of Kwa Zulu Natal í Suður-Afríku árið 2017. Þá sneri hún aftur til Malaví þar sem hún starfaði sem kennari við lyfjafræðideild Háskólans í Malaví þar til hún hóf doktorsnám í lyfjafræði við Háskóla Íslands haustið 2019.
Suppakan Sripetch vinnur að doktorsverkefni sem hefur það að markmiði að hanna lyfjaferjur sem geta ferjað lyf frá yfirborði augans til sjónhimnunnar og komið þannig í stað sprautunálar. Lyfjameðhöndlun sjúkdóma í sjónhimnu felst nú nær undantekningarlaust í að sprauta lyfi inn í augað en sjúkdómar í sjónhimnu eru ein helsta ástæða blindu. Verkefnið hverfist um sýklódextrín sem eru hringlaga fásykrungar sem mynda vatnsleysanlegar fléttur með mörgum torleysanlegum lyfjum. Dóvítíníb er eitt slíkra lyfja en það myndar fléttu með náttúrulegu γ-sýklódextríni. Þessar fléttur hópa sig saman og mynda nanóagnir (nanóferjur) sem ferja lyfið frá yfirborði augans inn í augað. Verkefnið felst í rannsóknum á niðurbroti γ-sýklódextríns í táravökva, leysanleika og stöðugleika dóvítíníbs í vatnslausnum (augndropum) og áhrifum γ-sýklódextríns á flutning dóvítíníbs í gegnum lífrænar himnur. Rannsóknir Suppakan eru styrktar af Oculis ehf.
Leiðbeinandi Suppakan er Þorsteinn Loftsson, prófessor emeritus í lyfjafræði. Auk hans sitja í doktorsnefndinni Einar Stefánsson, prófessor emeritus í augnlækningum, Hákon Hrafn Sigurðsson, prófessor í lyfjafræði, og Phatsawee Jansook, lektor við Chulalongkorn University.
Suppakan lauk BS-prófi í lyfjafræði frá Chulalongkorn University í Taílandi árið 2004 og MS-prófi í lyfjafræði frá sama skóla vorið 2010. Hún hóf doktorsnám í lyfjafræði við Háskóla Íslands vorið 2018.
Um styrktarsjóðinn
Verðlaunasjóði Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala er ætlað að styrkja vísindaleg afrek á sviði lyfjafræði og rannsóknir og framhaldsnám í faginu. Sjóðurinn hefur stutt við kraftmikla uppbyggingu doktorsnáms í lyfjafræði við háskólann og gert nemendum kleift að kynna rannsóknir sínar erlendis og taka þátt í erlendu rannsóknasamstarfi.
Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar í maí árið 2001 til minningar um föður sinn, Þorstein Scheving Thorsteinsson, lyfsala í Reykjavíkurapóteki, og eiginkonu hans, Bergþóru Patursson. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Óskars Þórðarsonar barnalæknis, sem veitir verðlaun fyrir ýmis störf á sviði barnalækninga, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem styður rannsóknir á einelti.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.