Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna í barnalækningum

Þrír styrkir til rannsókna í barnalækningum voru veittir úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis í Háskóla Íslands í dag. Styrkhafarnir eru Þórólfur Guðnason, barnalæknir og sérfræðingur í smitsjúkdómum barna,  Ingibjörg Georgsdóttir, sérfræðingur í barnalækningum og nýburalækningum, og Þórður Þórkelsson, sérfræðingur í barnalækningum og nýbura- og gjörgæslulækningum barna. Rannsóknir þeirra hafa nú þegar skilað afar áhugaverðum niðurstöðum á sviði barna- og nýburalækninga. Heildarupphæð styrkjanna nemur 1,1 milljón króna.

Þetta er í fimmta skipti sem veittar eru viðurkenningar úr Verðlaunasjóði Óskars Þórðarsonar læknis fyrir framúrskarandi rannsóknir á sviði barnalækninga en sjóðurinn hefur það markmið að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek, rannsóknir, ritgerðir og skylda starfsemi á sviði barnalækninga.

Doktorsverkefni Þórólfs Guðnasonar „Sýkingar og sýklun pneumókokka hjá börnum á íslenskum leikskólum“, miðar að því að rannsaka faraldsfræði öndunarfæra- og meltingarfærasýkinga ásamt útbreiðslu (e. carriage) pneumókokka hjá íslenskum börnum á leikskólum, áhættuþætti þeirra og áhrif hreinlætisaðgerða á tíðni sýkinganna. Fjölmargar erlendar rannsóknir hafa sýnt að dagvistun barna eykur áhættu á mörgum sýkingum án þess að ljóst sé hvaða þættir stýri áhættunni. Margir hafa bent á að almennt hreinlæti skipti miklu máli til að koma í veg fyrir ofangreindar sýkingar en niðurstöður erlendra rannsókna um gildi staðlaðra hreinlætisaðgerða hafa verið misvísandi. Enn fremur er lítið vitað um faraldsfræði  og áhættuþætti þessara sýkinga hjá börnum á Íslandi. Doktorsverkefnið byggist á tveimur rannsóknum á börnum á leikskólum í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði sem gerðar voru á árunum 1992-1999 og 2000-2003. Í fyrri rannsókninni voru 1228 börn rannsökuð en í seinni rannsókninni  2349 börn sem flest voru skoðuð oftar en einu sinni. Þórólfur lauk námi í almennri læknisfræði frá Háskóla Íslands 1981, almennum barnalækningum frá Háskólanum í Connecticut í Bandaríkjunum 1988 og smitsjúkdómum barna frá Háskólanum í Minnesota í Bandaríkjunum 1990. Hann hóf doktorsnám í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands undir leiðsögn Haraldar Briem árið 2007.

Markmið doktorsrannsóknar Ingibjargar Georgsdóttur „Litlir fyrirburar – lifun, heilsa og þroski“, er að meta lífslíkur og horfur lítilla fyrirbura á Íslandi. Lífslíkur lítilla fyrirbura hafa aukist á síðustu þremur áratugum og á sama tíma hefur hlutfall fyrirbura með staðfesta hömlun, svo sem þroskahömlum, hreyfihömlun, sjónskerðingu eða heyrnarskerðingu, við fimm ára aldur ekki aukist marktækt. Stærstur hluti lítilla fyrirbura sker sig frá jafnöldrum við fimm ára aldur hvað varðar heilsu, vöxt, þroska og hegðun en fjórðungur gerir það ekki. Litlir fyrirburar sem komnir eru á unglingsár eiga við margvísleg heilsufarsvandamál að stríða. Fjórðungur þeirra er með líkamlega og/eða andlega hömlun og rúmlega helmingur glímir við námserfiðleika. Flestir unglingar sem fæddust fyrir tímann meta lífsgæði, þátttöku og færni sína svipaða og jafnaldra og þriðjungur þeirra sker sig ekki frá fullburða jafnöldrum. Þessar mikilvægu upplýsingar gefa tækifæri til að veita fyrirburum viðeigandi aðstoð á uppvaxtarárum. Ingibjörg lauk námi í læknisfræði frá Háskóla íslands 1978 og stundaði nám í barnalækningum og nýburalækningum á Íslandi og í Kanada. Ingibjörg hefur einkum starfað á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins við athuganir og eftirlit með börnum með fötlun. Hún hóf doktorsnám við Læknadeild Háskóla Íslands 2011 en rannsóknarverkefni hennar um lífslíkur, horfur og þroska lítilla fyrirbura hófst árið 1996. Leiðbeinendur eru Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum, og Atli Dagbjartsson, prófessor emeritus.

Þórður Þórkelsson er yfirlæknir Vökudeildar Barnaspítala Hringsins. Rannsóknir hans miðast einkum að því að finna áhættuþætti helstu sjúkdóma hjá fyrirburum í þeim tilgangi að bæta meðferð þeirra og horfur. Má þar nefna bráða og langvinna lungnasjúkdóma, spítalablóðsýkingar, áverka á miðtaugakerfi og fatlanir. Tíðni burðarmáls- og ungbarnadauða hefur lengi verið mjög lág hér á landi og undanfarin ár hefur ungbarnadauði hér verið lægstur meðal OECD-ríkja. Nýlega hófst rannsókn á vegum Þórðar þar sem orsakir burðarmáls- og ungbarnadauða eru kotlagðar í þeim tilgangi að kanna hvernig við getum gert enn betur á þessu sviði. Einkum hafa læknanemar unnið að rannsóknunum í samvinnu við lækna kvenna- og barnasviðs Landspítalans og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins. Þórður hefur verið einstaklega ötull í að leiðbeina nemum í bæði BS- og rannsóknarverkefnum og verið þeim einstök hvatning. Áhugi Þórðar á að hvetja nema til rannsókna og leiðbeina þeim er einstakur. Þórður lauk námi í læknisfræði frá Háskóla Íslands 1983, almennum barnalækningum frá Háskólanum í Cincinnati í Bandaríkjunum 1989, nýburalækningum 1992 og gjörgæslu barna frá Háskólanum í Toronto 1995. Hann lauk meistaranámi í læknisfræðilegri faraldsfræði og tölfræði frá Háskólanum í Cincinnati 1994.

Bent Scheving Thorsteinsson stofnaði Verðlaunasjóð Óskars Þórðarsonar læknis árið 2000 með veglegri peningagjöf til minningar um Óskar, fóstra sinn. Í desember 2007 bætti Bent um betur og lagði til viðbótarframlag við höfuðstól sjóðsins. Eigið fé sjóðsins er um 20 milljónir króna en samtals hefur Bent gefið Háskóla Íslands 60 milljónir króna með stofnun þriggja sjóða sem heyra undir Styrktarsjóði Háskóla Íslands. Hinir sjóðirnir tveir eru Verðlaunasjóður Bergþóru og Þorsteins Schevings Thorsteinssonar lyfsala, sem hefur það að markmiði að veita verðlaun fyrir vísindaleg afrek og styrkja rannsóknir og framhaldsnám í lyfjafræði, og Styrktarsjóður Margaretar og Bents Schevings Thorsteinssonar, sem ætlað er að styðja við rannsóknir á einelti.

Óskar Þórðarson barnalæknir brautskráðist frá læknadeild Háskóla Íslands 1927, lærði fæðingahjálp í Danmörku 1927 og stundaði sérnám í barnalækningum í Austurríki og Þýskalandi á þriðja og fjóðra áratug síðustu aldar. Hann stofnaði læknastofu í Reykjavík árið 1930 og rak hana til dauðadags árið 1958. Samhliða var Óskar skólalæknir Austurbæjarskóla og Laugarnesskóla, læknir barnaheimilisins Sumargjafar og eftirlitslæknir við barnaheimili Reykjavíkur. Óskar kvæntist Guðrúnu Sveinsdóttur frá Hrauni á Skaga, móður Bents, stofnanda verðlaunasjóðsins, árið 1928.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is