Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna í jarð- og lífvísindum

Veittir hafa verið fimm styrkir úr Eggertssjóði til rannsókna og tækjakaupa sem tengjast rannsóknum í jarð- og lífvísindum við Háskóla Íslands. Styrkirnir nema samtals 5,6 milljónum króna og voru afhentir við athöfn í Hátíðasal HÍ 3. nóvember sl.
 
Tilgangur Eggertssjóðs er að styrkja rannsóknir á sviði jarðfræði og líffræði og renna vísindastyrkirnir í ár til fjölbreyttra rannsókna og tækjakaupa á þeim sviðum.
 
Eyjólfur Magnússon vísindamaður og Finnur Pálsson verkfræðingur fengu styrk f.h. Jöklahóps Jarðvísindastofununar til að kaupa ljósleiðara fyrir íssjá. 
 
Á síðustu fjórum áratugum hefur botn allra meginjökla Íslands verið kortlagður með íssjá á um 30.000 km mælisniðum. Íssjá sem notuð var frá 1977 til 2007 var hönnuð og smíðuð á Raunvísindastofnun Háskólans, að mestu leyti kostuð af Eggerti V. Briem en að honum gengnum hefur Eggertssjóður stutt við endurnýjun mælibúnaðarins. Enn er eftir að kortleggja botn smærri jöklanna auk þess sem áhugavert er að kanna nánar ýmis svæði stóru jöklanna með þéttari mælilínum. Auk vísindagildis eru mörg þessara verkefna mikilvæg vegna almannahagsmuna, t.d. hættumats vegna flóða í tengslum við eldgos eða jarðhita við jökulbotn, mat á stöðugleika árfarvega þegar jökulár eru brúaðar og afmörkun vatnssviða á jökli þar sem afrennsli er notað til raforkuframleiðslu. Nú verður mælibúnaður endurbættur með ljósleiðara milli sendis og móttakara en með því eykst nákvæmni mælinga og greinigeta búnaðar. Ljósleiðarinn verður þræddur inn í taug sem þolir hnjask þegar mælibúnaður er dreginn af vélsleða á um 40 km/klst hraða. 
 
Denis Warshan, nýdoktor við Líf- og umhverfisvísindadeild, hlaut styrk til kaupa á öflugri tölvu til að lesa úr raðgreiningu erfðaefnis ýmissa lífvera. Slíkur búnaður nýtist einnig öðrum vísindamönnum við deildina. 
 
Fæðuframleiðsla með ræktun plantna ræðst að stórum hluta af framboði nýtanlegs köfnunarefnis (N). Frá árinu 1908 hefur Haber-Bosch efnaferlið verið notað til að framleiða áburð fyrir plöntur og talið er að þessi aðferð hafi fætt um 27% mannkyns síðastliðna öld. Aðferðin er hins vegar orkufrek og áburður hefur einnig slæm áhrif á vistkerfið. Það væri því mikill ávinningur af því að geta dregið úr þörf á framleiðslu áburðar. Rannsóknir á samlífi milli baktería og plantna, þar sem köfnunarefnisbindandi bakteríur umbreyta N2 úr andrúmsloftinu í önnur N-efni sem plöntur geta nýtt sér, eru komnar skammt á leið. Þetta ferli gæti þó verið mun betri valkostur en Haber-Bosch efnaferlið til þess að sjá plöntum fyrir köfnunarefni. Samlífi milli nytjaplantna og blábaktería er órannsakaður valkostur en í rannsókninni er ætlunin að kanna ávinninginn af slíku samlífi með tilraunum. Einnig er ætlunin að skoða samþróun þeirra með raðgreiningu til að finna sjálfbæran valmöguleika í stað áburðar.
 
Filipa Isabel Pereira Samarra, sérfræðingur við Stofnun rannsóknasetra í Vestmannaeyjum, hlaut styrk til kaupa á hljóðmælistöð til að fylgjast með og rannsaka sjávarspendýr við Vestmannaeyjar. 
 
Stöðin verður notuð til að finna sjávarspendýr í hafinu í kringum Vestmannaeyjar, bæði þau sem dvelja þar árstíðabundið og allt árið um kring. Auk sjávarspendýra er einnig hægt að nota búnaðinn til að fylgjast með fiskum sem gefa frá sér hljóð og umferð skipa. Við Vestmannaeyjar eru mikilvæg fiskimið og einnig mjög mikilvægt búsvæði sjófugla en tillaga liggur fyrir um að gera svæðið að verndarsvæði. Það er því mikilvægt að leggja mat á nauðsyn þessa vistkerfis fyrir þau sjávarspendýr sem eru efst í fæðukeðjunni og öðlast skilning á samspili vistkerfisins og áhrifum umhverfisbreytinga í framtíðinni. Blæbrigði hljóða í ólíkum sjávarspendýrum eru mismunandi en óvirkar hljóðmæliaðferðir gera kleift að fylgjast með mismunandi tegundum. Með hljóðmælistöðinni má sinna langtímaeftirliti með þessu mikilvæga vistkerfi og bera kennsl á þær tegundir sem finnast á og nota þetta búsvæði. 
 
Sara Sigurbjörnsdóttir, nýdoktor við Læknadeild, hlaut styrk til rannsóknar sem snýst um að nýta nýja aðferð til að gera sértækar breytingar á erfðaefni fruma til að varpa nýju ljósi á slitgigt. Aðferðin mun einnig nýtast við rannsóknir á öðrum erfðasjúkdómum. 
 
Árið 2018 fannst tiltekin breyting á svokölluðu Smoothened-geni (SMO) sem er talin valda aukinni hættu á slitgigt í mjöðm. SMO-genið gegnir lykilhlutverki í virkjun á hedgehog-boðferlinu sem er mikilvægt fyrir stjórnun á eðlilegum vexti og sérhæfingu brjóskfruma. Markmið þessa verkefnis er að rannsaka áhrif stökkbreytinga í geninu á hedgehog-boðferlið og hlutverk þeirra í slitgigt. Notast verður við nýstárlega erfðabreytingaraðferð sem kallast ´prime editing´ til að framkalla sértækar breytingar á erfðaefni brjóskmyndandi fruma og sebrafiska. Erfðabreyttu frumurnar og sebrafiskarnir verða svo notaðir til að rannsaka áhrif stökkbreytinganna í SMO-geninu á hedgehog-boðleiðina og kanna áhrif þeirra á þróun slitgigtar.
 
Linda Viðarsdóttir, nýdoktor við Læknadeild, hlaut styrk til rannsókna á hlutverki ókóðaðs RNA (RNA sem er ekki tjáð yfir í prótein) í grunnferli bráðahvítblæðis. Í áraraðir hefur hlutverk ókóðandi RNA-sameinda  verið vanmetið. Aukin umsvif í raðgreiningum hafa sýnt að það er mun meira af RNA myndað en áður var talið. Þessi tæknibylting hefur orðið til þess að vísindamenn hafa farið að skoða betur hvers vegna fruman tjáir svona mikið af RNA sem áður var takið „ónothæft“ enda orkufrekt fyrir frumuna að búa það til. Rannsóknir Lindu snúa að því að skilja hlutverk ókóðandi RNA-sameinda, m.a. sameindar sem nefnist FGD5-AS1 í bráðhvítblæði barna. Frumniðurstöður hennar benda til þess að FGD5-AS1 hafi hlutverki að gegna í sjálfsáti frumna en það er nokkurs konar endurvinnslukerfi í frumum til að endurnýta t.d. prótein. Röskun á þessu kerfi sést oft í krabbameinum og því miðar rannsóknin að því að skilja ferlið til fullnustu og hvernig nýta megi þetta ferli til að hafa áhrif á virkni krabbameinslyfja.  
 
Um Eggertssjóð
Eggertssjóður var stofnaður við Háskóla Íslands árið 1995 eftir að Eggert Vilhjálmur Briem (f. 18. ágúst 1895, d. 14. maí 1996) hafði ánafnað skólanum eignir sínar, erlend verðbréf og gjaldeyrisreikning.
 
Eggert fæddist að Goðdölum í Skagafirði og fór ungur til vélfræðináms í Þýskalandi en síðan til Bandaríkjanna 1914–1918. Eftir veru sína þar starfaði Eggert nokkur ár á Íslandi en hélt aftur til Bandaríkjanna 1928, tók þar flugvirkjapróf og síðar atvinnuflugmannspróf 1930. Um árabil vann hann í verksmiðjum vestanhafs og hafði eftir það tekjur af uppfinningum, m.a. tengdum saumavélum. Eggert var jafnframt mikill áhugamaður um raunvísindi og las sér margt til um þau. 
 
Eggert kynntist Þorbirni Sigurgeirssyni prófessor um 1958 en Þorbjörn hafði þá nýverið sett á fót Eðlisfræðistofnun Háskólans. Eggert gerðist sérstakur velgerðarmaður þeirrar stofnunar og síðan Raunvísindastofnunar Háskólans sem tók við hlutverki Eðlisfræðistofnunar 1966. Eggert flutti heim til Íslands árið 1970 og sat hann löngum á bókasafni Raunvísindastofnunar við lestur á efri árum sínum, spjallaði við starfsmenn um fræðileg hugðarefni og tók þátt í ferðalögum á vegum stofnunarinnar, meðal annars upp á jökla. Færði Eggert þessum stofnunum margs konar tæki að gjöf og styrkti einnig þróun nýrra rannsóknasviða þeirra og margvísleg ný vísindaverkefni við Háskóla Íslands. 
 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is