Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á íslenskri myndlist

Í dag, miðvikudaginn 1. júní, var úthlutað í sjöunda sinn úr Styrktarsjóði Listasafns Háskóla Íslands. Veittir voru tveir styrkir til rannsókna á sviði íslenskrar myndlistar. Styrkhafar eru Arndís S. Árnadóttir og Jón B. K. Ransu sem hljóta hvort um sig styrk að upphæð kr. 500.000.

Arndís S. Árnadóttir listfræðingur (arndisa@ismennt.is, arndisar@hi.is) fær útgáfustyrk til að gefa út myndskreytta doktorsritgerð sína Nútímaheimilið í mótun. Fagurbætur, funksjónalismi og norræn áhrif á íslenska hönnun 1900-1970. Ritgerðin er afrakstur margra ára rannsókna Arndísar og telur stjórn sjóðsins hana mikilvægt framlag til íslenskrar lista- og hönnunarsögu 

Jón B. K. Ransu myndlistarmaður og listgagnrýnandi (jbkransu@gmail.com) hlýtur styrk vegna ritunar og útgáfu á bók sinni Listgildi samtímans: Handbók um íslenska samtímalist. Bókin er kenningafræðileg úttekt á stöðu samtímalistar á Íslandi í ljósi alþjóðlegra kenninga um list. Jón B. K. Ransu hefur unnið að verkinu síðastliðin misseri jafnframt því að skrifa um íslenska samtímamyndlist í tímarit, sýningarskrár og fræðirit. Stjórn sjóðsins telur bókina vera markvert framlag til íslenskra listasögurannsókna.

Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands var stofnaður árið 1999 af Sverri Sigurðssyni. Sjóðnum er ætlað að styrkja rannsóknir á sviði íslenskrar myndlistar samkvæmt ákvörðun stjórnar Listasafns Háskóla Íslands sem jafnframt er stjórn sjóðsins. Í ár er úthlutað í sjöunda sinn úr sjóðnum en samtals hafa þrettán manns fengið styrki úr sjóðnum til listfræðilegra rannsókna frá árinu 2000. Að þessu sinni bárust þrjátíu og þrjár umsóknir í sjóðinn og vitnar fjöldi umsókna um mikla grósku í rannsóknum á íslenskri myndlist. Frekari upplýsingar um sjóðinn er að finna á heimasíðu hans á sjóðavef Háskóla Íslands, www.sjodir.hi.is.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is