Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á íslenskri myndlist

Tveir styrkir voru veittir til rannsókna á sviði íslenskrar myndlistar úr Styrktarsjóði Listasafns Háskóla Íslands 10. júní sl. Styrkhafar eru Birta Guðjónsdóttir, myndlistarmaður og sýningarstjóri, og Jóhannes Dagsson, doktor í fagurfræði. Hvort um sig hlýtur styrk að upphæð kr. 300.000.

Birta Guðjónsdóttir (birta@this.is) hlýtur styrk  fyrir rannsóknarverkefnið „Myndlist í útvarpi, skráning og miðlun á hljóðrænum heimildum (hljóðupptökum) um myndlist á Íslandi í heimildasafni Ríkisútvarpsins“. Rannsóknarverkefninu er ætlað að varpa ljósi á íslenska myndlist í Ríkisútvarpi í menningarsögulegu samhengi. Um er að ræða hljóðupptökur unnar af starfsfólki RÚV, s.s. viðtöl við listamenn, listfræðinga og safnstjóra, heimildaþætti um listamenn og samræður um myndlist og listaverk, sem gerðar hafa verið sérstaklega fyrir útvarpsmiðilinn en liggja gjarnan á mörkum fleiri listgreina, s.s. hljóð-, leik- og ritlistar.

Jóhannes Dagsson (jdagsson@ucalgary.ca) hlýtur styrk til að vinna að rannsókn á hlutverki tungumálsins í íslenskri myndlist frá strangflatarmálverki til Súm-hópsins. Markmið verkefnis er að varpa hugmyndasögulegu og heimspekilegu ljósi á þær breytingar sem urðu á notkun og hlutverki tungumálsins í íslenskri myndlist, frá því að vera tæki til útskýringar og uppfræðslu áhorfanda til þess að vera viðfang listamanna. Í verkefninu verður aðferðum málspeki (philosophy of language) og málathafna (speech act theory) beitt til að greina stöðu og merkingu tungumálsins innan myndlistar og myndlistarumfjöllunar á þessu tímabili.

Styrktarsjóður Listasafns Háskóla Íslands var stofnaður árið 1999 af Sverri Sigurðssyni. Sjóðnum er ætlað að styrkja rannsóknir á sviði íslenskrar myndlistar samkvæmt ákvörðun stjórnar Listasafns Háskóla Íslands sem jafnframt er stjórn sjóðsins. Í ár er úthlutað í áttunda sinn úr sjóðnum en samtals hafa fimmtán manns fengið styrki úr sjóðnum til listfræðilegra rannsókna frá árinu 2000. Að þessu sinni bárust tuttugu og ein umsókn um styrk úr sjóðnum og vitnar fjöldi umsókna um mikla grósku í rannsóknum á íslenskri myndlist.

Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. Frekari upplýsingar er að finna á sjóðavef Háskóla Íslands.

Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is