Háskóli Íslands

Styrkir til rannsókna á liðskiptum, gerviliðsýkingum og stoðkerfisvandamálum

Þrír styrkir hafa verið veittir úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands til rannsókna sem snerta liðskipti, gerviliðsýkingar og undirliggjandi orsakir stoðkerfisvandamála. Styrkhafar eru Halldór Jónsson jr., yfirlæknir bæklunarskurðdeildar LSH og prófessor í bæklunarskurðlækningum við Læknadeild HÍ, Magnús Gottfreðsson, prófessor við læknadeild HÍ og yfirlæknir við LSH, og Signý Lea Gunnlaugsdóttir, sérnámslæknir á lyflækningasviði LSH, og Sara Þöll Halldórsdóttir, MS í lífeindafræði og doktorsnemi á rannsóknastofu Hans Tómasar Björnssonar, prófessors við Læknadeild.
 
Rannsókn Halldórs Jónssonar jr. „Klínískt matskerfi fyrir einstaklinga sem eru að fara í liðskipti á öxl“ hefur eins og nafnið bendir til þann tilgang að útbúa klínískt matskerfi fyrir einstaklinga sem eru að fara í liðskiptaaðgerð á öxl. Slitgigt er algengasti sjúkdómurinn í liðum og byrjar oft hjá fólki á aldrinum 15-30 ára án þess að einkenni komi fram. Miðað við reynslu annarra þjóða má reikna með því að hægt sé að greina slitgigt með röntgenmyndum hjá að minnsta kosti 40% Íslendinga. Slitgigt er næstum því alltaf ólæknandi og ástandið fer venjulega hægt versnandi. Í byrjun er venjulega gripið til fræðslu, hæfilegrar líkamsþjálfunar, megrunar þegar það á við og stoðtækja en einnig verkjalyfja. 
 
Á síðustu áratugum hefur náðst mjög góður árangur með gerviliði, einkum fyrir mjaðmir og hné, og stöðug framþróun er á þessu sviði. Við slitgigt í öxl eyðist liðbrjósk af báðum liðflötum, liðskál og liðkúlu. Í fyrstu voru aðeins settir inn „hefðbundnir“ gerviliðir, þ.e. stálkúla liðkúlumegin og plastskál skálarmegin. Fyrir einu ári var einnig farið að gera „viðsnúna“ gerviliði þ.e. stálkúlu skálarmegin og plastskál kúlumegin, sem gerir það að verkum að snúningsmiðja liðarins kemur neðar þannig að axlarvöðvinn fær virkni vöðvahylkisins, en það er nauðsynlegt til þess að fráfærsla á handlegg geti orðið. Markmið rannsóknarinnar er að nota tölvuferla til að mæla breytileika í vöðva- og beinþéttni í nærlægum beinum og vöðvum við axlarliðinn eftir gerviliðaaðgerð og þróa mælingar með vöðvarafriti, hreyfimælingum og spurningalista til að fylgjast með bata sjúklinga eftir slíka aðgerð. Gildi rannsóknarinnar felst í að með skipulagðri skráningu er hægt að sýna fram á sannanlegan ávinning og þar með réttmætari upplýsingar um þörf þessara einstaklinga og meðferðarkostnað heilbrigðiskerfisins.
 
Samstarfsaðilar Halldórs eru Ólafur Sigmundsson bæklunarskurðlæknir á LSH, Maria Tsirilaki, sérfræðingur í myndgreiningu á LSH, Paolo Gargiulo, prófessor og heilbrigðisverkfræðingur við HR, og Marco Recenti, doktorsnemi í heilbrigðisverkfræði við HR.
 
Rannsókn Magnúsar Gottfreðssonar og Signýjar Leu Gunnlaugsdóttur „Gerviliðsýkingar á Íslandi 2003-2020“ miðar að því að lýsa faraldsfræði þessara sýkinga, áætla nýgengi þeirra, meta hve margar sýkingar megi rekja til liðskiptaaðgerðarinnar sjálfrar og hve margar eru síðkomnar, ásamt því að leggja mat á árangur meðferðar og horfur. Gerviliðsýkingar eru afar alvarlegur og kostnaðarsamur fylgikvilli liðskiptaaðgerða. Liðskiptaaðgerðum fer fjölgandi og að óbreyttu er fyrirsjáanlegt að sýkingum í kjölfar þeirra muni fjölga. Þetta alvarlega vandamál hefur lítið verið rannsakaðar hérlendis og er því margt á huldu um umfang þess. Vonir standa til að með rannsókninni verði unnt að auka þekkingu okkar á umfangi og afleiðingum þessara sýkinga en auk þess að kanna hvað mætti betur fara í forvörnum og meðferð. Þannig væri hugsanlega hægt að draga úr kostnaði og þungbærum afleiðingum.
 
Þau sem standa að verkefninu auk Magnúsar og Signýjar Leu eru Ingunn Haraldsdóttir og Dagur Friðrik Kristjánsson, læknanemar við HÍ, Helga Erlendsdóttir, lífeindafræðingur við LSH, og Elías Þór Guðbrandsson, bæklunarskurðlæknir við LSH.
 
Rannsókn Söru Þallar Halldórsdóttur „Leitin að undirliggjandi orsökum stoðkerfisvandamála í Kabuki-heilkenni 2“ beinist að því að finna undirliggjandi orsök vaxtarskerðingar í Kabuki-heilkenni 1 sem er fjölkerfa sjúkdómur sem orsakast af breytingum í geninu KMT2D. Aðaleinkenni sjúkdómsins eru þroska- og vaxtarskerðing ásamt ýmsum stoðkerfisvandamálum. Rannsóknastofa Hans Tómasar Björnssonar notar músamódel til að rannsaka svokallaða Mendelska sjúkdóma sem trufla umframerfðakerfið og hefur hópurinn búið til fyrsta músamódelið sem hefur samsvarandi breytingu í KMT2D og er til staðar í einstaklingi með Kabuki-heilkenni. Markmið verkefnisins er að nota músamódelið til að skilja orsök vaxtarskerðingarinnar, kanna hvort vaxtarskerðingin sjálf eða ástæða hennar geti stuðlað að öðrum stoðkerfisvandamálum og skoða þróun einkennanna við fósturþroska. Með því að varpa ljósi á þróun og orsök bæði vaxtarskerðingar og annarra stoðkerfisvandamála er vonast til að hægt verði að nýta þær upplýsingar til mögulegra meðferðarúrræða sem næðu einnig til annarra einkenna sem hrjá einstaklinga með heilkennið.
 
Samstarfsaðilar Söru við rannsóknir á Kabuki-heilkenni eru Dr. Hans Tómas Björnsson, prófessor við Læknadeild, Hilmar Gunnlaugsson, doktorsnemi við HÍ, og samstarfsaðilar við Johns Hopkins háskólann.
 
Um sjóðinn
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918, d. 13. júní 2006) árið 2003 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.
 
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk. 
Þú ert að nota: brimir.rhi.hi.is