Tveir styrkir hafa verið veittir úr Sjóði Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands til rannsókna sem tengjast stoðkerfissjúkdómum. Styrkhafar eru Halldór Jónsson jr., prófessor í bæklunarskurðlækningum við HÍ og yfirlæknir bæklunarskurðdeildar Landspítala (LSH), Ágúst Ingi Guðnason, sérnámslæknir í bæklunarskurðlækningum við LSH , Elías Þór Guðbrandsson, sérfræðilæknir í bæklunarskurðlækningum við LSH, og Mariella Tsirilaki, sérfræðilæknir í myndgreiningu við LSH.
Halldór Jónsson jr., Ágúst Ingi Guðnason og Mariella Tsirilaki standa að rannsókninni „Bilanagreining á viðgerðum mjaðmabrotum á Landspítala“.
Ekki er til heildræn skráning yfir árangur meðferðar á mjaðmabrotum á Íslandi. Fyrst og fremst hafa verið gerðar faraldsfræðirannsóknir á beinþynningarbrotum og meðferðarrannsóknir sem snúa að gæðaskráningu út frá mismunandi sjónarhornum. Árið 2020 vann Krister Blær Jónsson læknanemi BS-ritgerðina „Faraldsfræði mjaðmabrota á Landspítala 2013-2018“ sem tók til 1.874 skurðaðgerða. Þar voru röntgenmyndir sjúklinga yfirfarnar til staðfestingar á greiningu brots og íhlut. Þegar meðferðarúrræðin voru skoðuð kom svokallaður Hansson-festibúnaður betur út en tvíþátta gerviliður og einnig reyndist svokallaður DHS-festibúnaður áhættumeiri en Gamma nagli.
Markmið rannsóknarinnar sem fær styrk er að bilanagreina kerfisbundið þá meðferð sem hver og einn sjúklingur fékk og bera hana saman við þau viðmið sem mælt er með hverju sinni. Þá verða þeir einstaklingar þar sem ígræði virkuðu ekki sem skyldi og þurftu enduraðgerða/r við skoðaðir sérstaklega til að geta leiðrétt slíkt í núverandi verkferlum. Jafnframt á að útbúa viðurkennt skráningarform fyrir mjaðmabrot inn í Heilsugáttina til að gera fræðafólki kleift að bera saman slík brot og árangur meðferða við sambærileg gögn frá öðrum norrænum ríkjum. Markmiðið er að geta frá upphafi beitt sem réttastri meðferð við mjaðmabroti hverju sinni þannig að hún verði sjúklingi sem léttbærust og öruggust.
Halldór Jónsson jr., Elías Þór Guðbrandsson og Mariella Tsirilaki standa að rannsókninni „Skráning risagerviliða (e. megaprosthesis) á Landspítala“.
Sérstakt meðferðarteymi sarkmeina á Íslandi (IceSG) hefur verið starfrækt á Landspítalanum frá árinu 2009. Það starfar að fordæmi Scandinavian Sarcoma Group (SSG) sem hefur þróað og samræmt greiningu og meðferðarleiðbeiningar vegna þessara sjaldgæfu en illvígu æxla í stoðkerfinu. Nákvæm skráning, úrvinnsla á niðurstöðum og samanburður milli landa er nauðsynleg til þess að auka þekkingu og bæta líðan og lífslíkur við þessum sjúkdómi. IceSG hefur haldið skrá utan um þau tilfelli sem borist hafa frá því starfshópurinn var stofnaður.
Ein mikilvægasta meðferðin fyrir einstaklinga með sarkmein er að nema brott æxlið í heild sinni en það hefur misalvarlegar afleiðingar, allt eftir staðsetningu, stærð og gráðu æxlisins. Með aukinni þekkingu á eðli og hegðun þessara æxla miðast skurðmeðferð í dag meira að því að varðveita útlimi, sérstaklega ganglimi. Það hefur m.a. reynst auðveldara með tilkomu svokallaðra risaæxlisgerviliða (e. megaprosthesis) og bæði dregið úr lýtum og starfsskerðingu hjá sjúklingum.
Á Íslandi var slíkur gerviliður fyrst settur inn í sjúkling árið 2014. Skurðmeðferð með risagervilið lendir óhjákvæmilega á borðum margra sérsviða. Möguleikar til að nýta risagerviliðina til meðferðar hafa aukist og ná einnig til beina með meinvörp og eftir sýkingar. Hins vegar er mikilvægt að skrá vel upplýsingar um heilsufar, meðferð og árangur meðferða sem þessara og í samvinnu við Norwegian Sarcoma Registry hefur verið þróaður gagnagrunnur sérstaklega fyrir þessar tegundir af gerviliðum. Markmið rannsóknarinnar, sem fær styrk að þessu sinni, er að útbúa skráningarblöð í Heilsugáttina til að skrá þá einstaklinga sem fengið hafa og fá risagervilið á Íslandi með öllum þeim breytum sem honum tilheyra.
Um sjóðinn
Tilgangur Sjóðs Sigríðar Lárusdóttur við Háskóla Íslands er að efla rannsóknir á sviði bæklunarlækninga. Sérstök áhersla er lögð á rannsóknir á meðfæddum göllum í mjaðmarlið, svo sem ættgengi, tíðni og afleiðingum. Sjóðinn stofnaði Sigríður Lárusdóttir (f. 5. maí 1918, d. 13. júní 2006) árið 2003 til minningar um þá sem hafa glímt við meðfædda sjúkdóma í mjöðm en Sigríður átti við þann sjúkdóm að stríða frá fæðingu.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.